Ferill 964. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 1725  —  964. mál.
Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007 (kostnaður við framkvæmd greiðslna).

Flm.: Inga Sæland, Guðmundur Ingi Kristinsson.


1. gr.

    Við 2. mgr. 53. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Tryggingastofnun skal greiða allan kostnað sem hlýst af framkvæmd greiðslna.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Sífellt algengara er að lífeyrisþegar flytjist til útlanda. Í þeim tilvikum fá þeir gjarnan greiðslur frá Tryggingastofnun inn á erlenda bankareikninga. Slíkar fjármunafærslur milli landa kosta þó talsvert meira en hefðbundnar millifærslur innan lands. Því verða þeir lífeyrisþegar fyrir skerðingu á réttindum sínum á grundvelli búsetu. Hér er lagt til að Tryggingastofnun greiði þann kostnað sem stafar af greiðslu opinberra réttinda svo að girt sé fyrir mismunun á grundvelli búsetu að þessu leyti. Þar að auki er Tryggingastofnun, sem stærri viðskiptavinur, í betri aðstöðu til þess að semja við viðskiptabanka um lægri kostnað á slíkum millifærslum.