Ferill 219. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 1726  —  219. mál.
3. umræða.Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til umferðarlaga.

Frá umhverfis- og samgöngunefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið að nýju að lokinni 2. umræðu.
    Nefndin afturkallaði breytingartillögu við 79. gr. frumvarpsins sem fól í sér að hjálmaskylda yrði til 18 ára aldurs í stað 15 ára aldurs. Talsverð umræða var um málið og nefndinni bárust athugasemdir um að þessi breytingartillaga gengi of langt og myndi m.a. hafa áhrif á markmið sveitarfélaga um breyttar ferðavenjur og mögulega á greiðslu tryggingabóta. Bent var á að hjálmaskylda gæti haft neikvæð áhrif að því leyti að hún gæti dregið úr hjólreiðum.
    Að mati nefndarinnar er brýnt að öryggi sé í hávegum haft þegar kemur að hjólreiðum sem og öðrum samgöngumátum. Að sama skapi er kappsmál að hjólreiðar verði útbreiddur ferðamáti bæði meðal fullorðinna og barna, m.a. með hliðsjón af lýðheilsu- og loftslagssjónarmiðum. Líkt og fram hefur komið liggja ekki fyrir áreiðanlegar rannsóknir um hjálmanotkun hér á landi og áhrif hennar en slíkar rannsóknir hafa verið framkvæmdar víða, t.d. í Danmörku og Noregi. Nefndin telur nauðsynlegt að slík rannsókn verði framkvæmd hér á landi að höfðu samráði við stofnanir, sveitarfélög og aðra hagaðila. Á grunni niðurstaðna hennar og annarra gagna væri hægt að endurskoða með heildstæðum hætti reglur og viðmið um hjálmanotkun og undirbyggja öruggar og útbreiddar hjólreiðar sem virkan samgöngumáta. Með vísan til þessa beinir nefndin því til ráðuneytisins að láta vinna slíka rannsókn um hjálmanotkun og áhrif hennar til að stuðla að auknu öryggi hjólreiðamanna.
    Með hliðsjón af fram komnum sjónarmiðum sem og þeim athugasemdum sem nefndinni bárust leggur nefndin til að hjálmaskylda nái til barna undir 16 ára aldri en þar með verði tryggt að hjálmaskylda taki til allra barna á grunnskólastigi. Leggur nefndin til breytingu á 79. gr. þess efnis.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    Í stað orðanna „15 ára“ í 1. mgr. 79. gr. komi: 16 ára.

    Hanna Katrín Friðriksson skrifar undir álit þetta með fyrirvara.

Alþingi, 4. júní 2019.

Jón Gunnarsson,
form.
Vilhjálmur Árnason,
frsm.
Ari Trausti Guðmundsson.
Bergþór Ólason. Hanna Katrín Friðriksson,
með fyrirvara.
Helga Vala Helgadóttir.
Karl Gauti Hjaltason. Líneik Anna Sævarsdóttir. Rósa Björk Brynjólfsdóttir.