Ferill 783. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 1727  —  783. mál.
2. umræða.Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um meðferð einkamála, lögum um meðferð sakamála og fleiri lögum (skilvirkni og samræming málsmeðferðarreglna o.fl.).

Frá minni hluta allsherjar- og menntamálanefndar.


    Minni hlutinn tekur undir álit meiri hlutans og þær breytingar sem hann leggur til að undanskildu því er varðar upptökur og miðlun upplýsinga úr þinghaldi, sbr. 2. og 18. gr. frumvarpsins.
    Umræðan um hvort eða að hvaða marki hljóðupptökur, myndatökur og samtímaendursagnir í dómsal skuli leyfðar er mjög mikilvæg. Þar vegast á sjónarmið um réttaröryggi og friðhelgi sakborninga, aðstandenda og vitna annars vegar og mikilvægi opinberrar og gegnsærrar dómsýslu og frjálsrar fjölmiðlunar í almannaþágu hins vegar. Á Íslandi er meginreglan sú að upptökur í dómsal eru bannaðar en dómara er heimilt að veita undanþágu frá því banni ef sérstaklega stendur á. Með 2. og 18. gr. frumvarpsins er þessum reglum breytt þannig að óheimilt verði að streyma hljóði eða mynd úr þinghaldi eða greina frá því sem sakborningur eða vitni skýrir frá við skýrslutöku á meðan á henni stendur.
    Við þær aðstæður telur minni hlutinn tilefni til að taka til endurskoðunar tilgang þessara ákvæða og leggja mat á það hvort þau uppfylli annars vegar kröfur samfélagsins um opinbera og aðgengilega dómsýslu og hins vegar ákvæði 70. gr. stjórnarskrárinnar um að dómþing skuli háð í heyranda hljóði nema dómari ákveði annað lögum samkvæmt til að gæta velsæmis, allsherjarreglu, öryggis ríkisins eða hagsmuna málsaðila. Í því samhengi telur nefndin að hægt sé að tryggja lögbundna takmörkun sem jafnframt gætir hagsmuna málsaðila. Því markmiði væri hægt að ná með því að kveða á um í lögum um meðferð einkamála, nr. 91/1991, og lögum um meðferð sakamála, nr. 88/2008, að heimild til hljóð- og myndupptöku og streymis verði gerð að meginreglu og bann við slíku verði þess í stað gert að undantekningu. Að mati minni hlutans er sú nálgun betur til þess fallin að mæta bæði markmiðum stjórnarskrárinnar og almennu meðalhófi í löggjöf.
    Slík heimild fellur jafnframt vel að reglunni um að dómþing skuli háð í heyranda hljóði, enda sé opinber og gegnsæ meðferð mála fyrir dómi mikilvæg réttarríkinu og fyrirsjáanleika við beitingu laga. Er þetta ekki síst vert ígrundunar, annars vegar í ljósi þess að stór hluti almennings hefur ekki tök á því að vera viðstaddur dómþing, t.d. vegna líkamlegra eða samfélagslegra aðstæðna, og hins vegar vegna þess að við skýrslutöku fyrir dómi kunna að koma fram atriði, t.d. er varða mat dómara á framburði vitna, sem ekki má greina eingöngu af lestri dóms eftir að hann er fallinn. Hér kemur einnig til skoðunar að orðasambandið í heyranda hljóði getur haft aðra og víðtækari merkingu með hliðsjón af þeim samfélagslegum og tæknilegum breytingum en það hafði kannski í minni og einangraðri samfélögum. Auk þess telur minni hlutinn að meginregla sem feli almennt í sér bann leiði eðli máls samkvæmt óhjákvæmilega til þess að mynd- og hljóðupptökur verði óheimilar í þinghaldi í fleiri málum en sérstakt tilefni gefur.
    Í umræðu um sambærilega löggjöf í efri deild bandaríkjaþings hafa m.a. komið fram sjónarmið um að fylgni kunni að vera milli þess trausts sem almenningur ber til grunnstofnana ríkisins og svo hins, hversu opinber og skýr starfsemi þeirra er. Þess vegna kunni aukinn aðgangur fjölmiðla að þinghaldi dómstóla, með upptökum eða samtímaendursögnum, að auka skilning fólks á hlutverki og störfum dómsvaldsins og sé þar af leiðandi til þess fallinn að auka traust almennings í garð dómsvaldsins. Minni hlutinn er fylgjandi þeim almennu sjónarmiðum að starfsemi hins opinbera skuli vera eins skýr og opin og kostur er og að slík tilhögun sé líkleg til þess að auka traust og tiltrú almennings á henni.
    Minni hlutinn leggur því til að 2. og 18. gr. frumvarpsins verði breytt á þann veg að heimilt verði hverjum sem er að hljóðrita og taka myndir í þinghaldi og jafnframt að heimilt verði að streyma hljóði og mynd úr þinghaldi og greina frá framburði vitna í rauntíma nema dómari ákveði sérstaklega að banna framangreint.
    Heimild dómara til að leggja bann við upptökum eða streymi er að mati minni hlutans til þess fallin að uppfylla ákvæði stjórnarskrárinnar og þá meginreglu laga að dómþing skuli háð í heyranda hljóði. Á sama tíma tryggir slíkt að dómari geti gætt velsæmis, allsherjarreglu, öryggis ríkisins og hagsmuna málsaðila þegar sérstakar aðstæður eru fyrir hendi. Breytingartillaga minni hlutans er að auki til þess fallin að gæta betur að frelsi fjölmiðla og styðja við mikilvægi þeirra í opinni og lýðræðislegri umræðu.
    Með hliðsjón af framangreindu leggur minni hlutinn því til eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      2. gr. orðist svo:
                      1. mgr. 9. gr. laganna orðast svo:
                      1. Heimilt er að hljóðrita og taka myndir í þinghaldi. Jafnframt er heimilt að streyma hljóði og mynd úr þinghaldi og greina frá því sem sakborningur og vitni skýra frá við skýrslutöku á meðan á henni stendur. Dómari getur bannað framangreint ef sérstaklega stendur á eða hætta þykir á réttarspjöllum. Ef tekið hefur verið upp hljóð eða teknar myndir í þinghaldi þrátt fyrir bann dómara er óheimilt að birta þær hljóðupptökur eða myndir. Sama gildir um bann dómara við birtingu hljóð- og myndupptakna af munnlegum framburði sem dómstóll hefur annast. Brot gegn þessari málsgrein varðar sektum nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum.
     2.      18. gr. orðist svo:
                      1. mgr. 11. gr. laganna orðast svo:
                      Heimilt er að hljóðrita og taka myndir í þinghaldi. Jafnframt er heimilt að streyma hljóði og mynd úr þinghaldi og greina frá því sem sakborningur og vitni skýra frá við skýrslutöku á meðan á henni stendur. Dómari getur bannað allt framangreint ef sérstaklega stendur á eða hætta þykir á réttarspjöllum. Ef tekið hefur verið upp hljóð eða teknar myndir í þinghaldi þrátt fyrir bann dómara er óheimilt að birta þær. Sama gildir um bann dómara við birtingu hljóð- og myndupptakna af munnlegum framburði sem dómstóll hefur annast.

Alþingi, 31. maí 2019.

Jón Steindór Valdimarsson,
frsm.
Guðmundur Andri Thorsson. Helgi Hrafn Gunnarsson.