Ferill 784. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 1733  —  784. mál.
2. umræða.



Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, nr. 85/2007, með síðari breytingum (stjórnvaldssektir og eftirlit með gististarfsemi).

Frá atvinnuveganefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Þórarin Örn Þrándarson frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, Þórólf Halldórsson og Sigurð Hafstað frá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu, Birnu Ágústsdóttur og Ernu Jónmundsdóttur frá sýslumanninum á Norðurlandi vestra, Vigdísi Ósk Häsler Sveinsdóttur frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Gísla Halldór Halldórsson frá Sveitarfélaginu Árborg, Gunnar Val Sveinsson og Benedikt S. Benediktsson frá Samtökum ferðaþjónustunnar, Gunnar Dofra Ólafsson frá Viðskiptaráði Íslands og Kristófer Oliversson frá Félagi fyrirtækja í hótel- og gistiþjónustu.
    Nefndinni bárust umsagnir frá Bláskógabyggð, Félagi fyrirtækja í hótel- og gistiþjónustu, Fljótsdalshéraði, Flóahreppi, Hrunamannahreppi, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samtökum ferðaþjónustunnar, Samtökum sveitarfélaga á Norðurlandi vestra, Sveitarfélaginu Árborg, sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu, sýslumanninum á Norðurlandi eystra, sýslumanninum á Norðurlandi vestra, sýslumanninum á Suðurlandi og Viðskiptaráði Íslands.
    Með frumvarpinu eru lagðar til tvær breytingar sem varða starfssvið sýslumanns. Annars vegar er lagt til að sýslumaður geti lagt stjórnvaldssektir á hvern þann sem rekur leyfisskylda gististarfsemi án tilskilins leyfis, sbr. 7. gr. laganna. Samkvæmt núgildandi lögum hefur sýslumaður heimild til að beita einstaklinga stjórnvaldssektum vegna brota á skráningarskyldu heimagistingar. Geta slíkar sektir verið á bilinu 10.000–1.000.000 kr. Ef um alvarlegri brot er að ræða, svo sem rekstrarleyfisskylda gististarfsemi án leyfis, þarf lögreglustjóri að gefa út sérstaka ákæru. Geta þær sektir verið frá 50.000–100.000 kr.
    Hins vegar er lagt til að sýslumanni verði heimilt að beita stjórnvaldssektum vanræki aðili með skráða heimagistingu að skila inn nýtingaryfirliti. Samkvæmt núgildandi lögum er skyldan fyrir hendi en engin eiginleg viðurlög eru við því að vanrækja skil á nýtingaryfirliti.
    Meginmarkmið frumvarpsins er að bæta eftirlit með skammtímaleigu og beitingu viðurlaga, auk þess að samræma betur málsmeðferð og ákvörðun sekta milli leyfisskyldrar gististarfsemi og skráningarskyldrar heimagistingar.
    Fyrir nefndinni kom fram ánægja með að verið væri að efla eftirlit og móta skýran ramma um heimagistingu. Sömuleiðis voru viðruð sjónarmið um að nauðsynlegt væri að þinglýst eignarhald yrði gert að skilyrði fyrir skráningu heimagistingar því að annars væri ýtt undir misnotkun á heimagistingu. Fyrir nefndinni komu jafnframt fram sjónarmið um að með slíkri kröfu væri vegið að rétti leigjenda til að afla sér aukatekna.
    Nefndin tekur undir að nauðsynlegt er að koma í veg fyrir misnotkun á heimagistingu. Bendir nefndin á að með frumvarpinu eru lagðar til breytingar sem munu styrkja ramma um heimagistingu verulega og samræma málsmeðferð. Því verði stigið stórt skref með fyrirhuguðum lagabreytingum. Nefndin bendir á að samkvæmt meginreglu leiguréttar er framleiga óheimil. Nefndin telur hins vegar rétt að reynsla fáist af því hvernig framangreindar breytingar reynist áður en krafa um þinglýst eignarhald verði sett í lög. Nefndin bendir á að mikilvægt er að skoða málið ofan í kjölinn áður en frekari skref verða stigin og þrengt að rétti leigjenda. Leggur nefndin því ekki til breytingu hvað þetta varðar að svo stöddu.
    Fyrir nefndinni komu fram áhyggjur af því samkeppnisumhverfi sem hótel og gistihús búa við. Var bent á að staða þeirra væri víða bágborin og að á landsbyggðinni væri víðast taprekstur vegna harðnandi samkeppni óskráðrar heimagistingar og gistihúsa sem hafa ekki rekstrarleyfi.
    Nefndin tekur undir framangreind sjónarmið og ítrekar að með frumvarpinu er verið að leitast við að styrkja rammann um slíka starfsemi og samræma eftirlit og refsingar við brotum á þeim reglum sem gilda um starfsemina. Nefndin telur mikilvægt að komið verði í veg fyrir að gististarfsemi fari fram án leyfis. Í því sambandi telur nefndin mikilvægt að þess verði gætt að nýsköpun í ferðaþjónustu verði felld undir leyfis- eða skráningarskylda starfsemi til að gæta jafnræðis í rekstrarumhverfi gistiþjónustu í landinu.
    Fyrir nefndinni var bent á mikilvægi þess að stjórnsýsla yrði ekki flutt úr héraði. Var nefndinni bent á að óvíst væri hvort unnt væri að framfylgja rannsóknarskyldu með fullnægjandi hætti á öllu landinu ef einu embætti yrði falið að taka ákvarðanir um stjórnvaldssektir um allt land.
    Nefndin tekur undir mikilvægi þess að rannsóknarskyldu verði sinnt með fullnægjandi hætti um landið allt. Nefndin bendir á að breytingin felur í sér að viðurlög vegna brota á rekstrarleyfisskyldri gististarfsemi verður í höndum eins sýslumannsembættis til samræmis við það sem gildir um brot á skráningarskyldri starfsemi. Formlegt eftirlit með rekstrarleyfisskyldri starfsemi verður eftir sem áður í höndum staðbundinna lögregluembætta líkt og verið hefur. Því telur nefndin umræddar breytingar ekki fela í sér flutning verkefna úr héraði. Nefndin leggur áherslu á að eftirlit með rekstrarleyfisskyldri starfsemi verði virkt um allt land og má í því samhengi ítreka mikilvægi þess að efla samstarf sýslumannsembættisins á höfuðborgarsvæðinu við einstök sveitarfélög.
    Fyrir nefndinni komu fram sjónarmið um að breyta 90 daga útleigutíma vegna þess að núverandi dagafjöldi hefði leitt til þess að mikill skortur væri á leiguhúsnæði þar sem stór hluti fasteigna væri nýttur í skammtímaleigu. Þá var nefndinni bent á að nýtingaryfirlit skipti sveitarfélög miklu máli, t.d. í tengslum við álagningu fasteignagjalda. Því yrði sýslumaður að fá skýra lagaheimild til að miðla slíkum upplýsingum til sveitarfélaganna.
    Nefndin tekur undir þær áhyggjur að skortur sé á leiguhúsnæði og að sá skortur leiði til hækkunar á leiguverði. Nefndin ítrekar þó að hún telur nauðsynlegt að málið verði rannsakað betur áður en frekari breytingar verði gerðar, þar sem huga verði vel að réttindum allra aðila áður en löggjöfin verður hert frekar en lagt er til með frumvarpinu. Nefndin leggur því áherslu á að fylgst verði vel með því hvernig fyrirhugaðar breytingar reynast og að í kjölfarið verði gerðar nauðsynlegar breytingar á lögunum.
    Nefndin telur nauðsynlegt að kannaðar verði leiðir til þess að skýra reglur um heimagistingu enn frekar. Nefndin beinir því til ráðherra að skoða á næsta löggjafarþingi hvort þinglýst eignarhald skuli vera forsenda þess að fá leyfi til heimagistingar en þá verði tryggt að leigjendur geti nýtt sér úrræðið með heimild leigusala. Jafnframt verði athugað hvort þörf sé á að takmarka heimilaðan útleigutíma, sem nú er 90 dagar.
    Nefndin leggur til að málið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    Við 2. gr.
     a.      Í stað orðanna „Á eftir „13. gr.“ í 2. mgr. kemur“ í b-lið komi: Við 2. mgr. bætist.
     b.      Í stað orðanna „Á eftir orðunum „alvarleika brots“ í síðari málsl. 3. mgr. kemur“ í d-lið komi: Við 3. mgr. bætist.
     c.      Í stað orðanna „Á eftir 6. mgr. kemur“ í e-lið komi: Við bætist.

    Albertína Friðbjörg Elíasdóttir skrifar undir álitið með fyrirvara.
    Njáll Trausti Friðbertsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins en ritar undir álitið skv. 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fyrir fastanefndir Alþingis.

Alþingi, 31. maí 2019.

Lilja Rafney Magnúsdóttir,
form.
Ásmundur Friðriksson,
frsm.
Albertína Friðbjörg Elíasdóttir,
með fyrirvara
Halla Signý Kristjánsdóttir. Kolbeinn Óttarsson Proppé. Njáll Trausti Friðbertsson.