Ferill 878. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 1738  —  878. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Ingu Sæland um þjónustusamning við hjúkrunarheimili.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hvenær telur ráðherra að gengið verði frá þjónustusamningi við hjúkrunarheimili landsins í stað þess sem rann út um áramótin?
     2.      Hversu marga samningafundi hafa Sjúkratryggingar haldið með samningsaðilum á þessu ári?
     3.      Á hverju stranda viðræðurnar?


    Ráðherra vonast til að gengið verði sem fyrst frá rammasamningi um þjónustu hjúkrunarheimila. Samningaviðræður eru yfirstandandi milli Sjúkratrygginga Íslands (SÍ) og rekstraraðila hjúkrunarheimila. Haldnir hafa verið sjö fundir á árinu; tveir með Samtökum fyrirtækja í velferðarþjónustu (SFV); fjórir vegna samnings um þjónustu Sólvangs í Hafnarfirði svo og einn fundur með Öldrunarþjónustu Akureyrar. Auk þess hafa ótal samskipti verið milli SÍ og samningsaðila, bæði í símtölum og tölvupóstum.
    Viðræðurnar stranda sem oft áður á því að SFV telja að ekki sé samræmi á milli krafna um þjónustu og þess fjármagns sem ætlað er í samningana og sem viðsemjendur eru bundnir af samkvæmt fjárlögum. Sameiginlega er þó unnið að því að finna leiðir sem liðkað geta fyrir samningum án þess að skerða þjónustu við íbúa heimilanna.