Ferill 776. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 1766  —  776. mál.
2. umræða.Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um fiskveiðar utan lögsögu Íslands, nr. 151/1996, með síðari breytingum (stjórn veiða á makríl).

Frá minni hluta atvinnuveganefndar.

    

    Minni hluti atvinnuveganefndar tekur undir sjónarmið meiri hlutans að mestu leyti. Hins vegar telur minni hlutinn rétt að hluti tekna fyrir afnot af sameiginlegri auðlind þjóðarinnar skuli renna beint í ríkissjóð. Leggur minni hlutinn því til að 1/ 3 hluti makrílkvótans verði boðinn út samkvæmt ferli sem ráðherra ákveður með reglugerð. Minni hlutinn leggur áherslu á að við útboðið líti ráðherra til reynslu Færeyinga af útboði á makrílkvóta, en fyrirkomulag þeirra hefur gefið góða raun. Um 2/ 3 hluta makrílkvótans fari samkvæmt tillögum meiri hlutans.
    Jafnframt leggur minni hlutinn til að helmingur þeirra tekna sem verða til við uppboðið renni til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga sem annist skiptingu teknanna. Ljóst er að lagabreytingar, ásamt tækniframförum síðustu ára, hafa leitt til mikillar hagræðingar í sjávarútvegi með tilheyrandi fækkun starfa og röskun á búsetuforsendum í sjávarbyggðum víða um land.
    Í mörgum sveitarfélögum er sjávarútvegur grundvöllur byggðarinnar og með hlutdeild í þeim tekjum sem verða til við uppboð er möguleiki á stuðningi við uppbyggingu innviða og atvinnuþróun sem og fjölgun starfa bæði í afleiddum greinum sjávarútvegs og á öðrum sviðum.
    Sjávarauðlindin er ein meginástæða þess að byggð helst um allt land. Rekstur hafna er víða erfiður og bera sveitarfélög mörg hver mikinn kostnað af þeim rekstri sem verður til þess að önnur þjónusta við íbúana geldur fyrir þann kostnað. Þjónusta hafnanna við útgerðina er grundvöllur fyrir rekstrinum sem skilar auðlindarentu bæði til ríkisins og til útgerðarinnar. Því er sanngjarnt að sveitarfélög sem standa undir þeim rekstri fái hlutdeild í henni.
    Leggur minni hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:    Við breytingartillögu á þingskjali 1654 [Fiskveiðar utan lögsögu Íslands]. Við 1. tölul. bætist þrjár nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
    Fiskistofa getur úthlutað 2/ 3 hlutum leyfilegs heildarafla skv. 2. mgr.
    Ráðherra skal bjóða 1/ 3 hluta leyfilegs heildarafla skv. 1. og 2. mgr. út. Ráðherra skal setja nánari reglur um framkvæmd útboðs með reglugerð.
    Tekjur af útboði skv. 4. mgr., að frátöldum innheimtukostnaði, skulu renna í ríkissjóð. Ráðherra skal á grundvelli fjárheimildar í fjárlögum ákvarða fjárveitingu til sérstakrar deildar Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga sem nemur a.m.k. helmingi af áætlun fjárlaga um tekjur af útboðinu. Hin sérstaka deild annast skiptingu teknanna milli sveitarfélaga.

Alþingi, 4. júní 2019.Albertína Friðbjörg Elíasdóttir.