Ferill 799. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 1772  —  799. mál.
2. umræða.



Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um sameiginlega umsýslu höfundarréttar.

Frá allsherjar- og menntamálanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Jón Vilberg Guðjónsson og Rán Tryggvadóttur frá mennta- og menningarmálaráðuneyti og Aðalstein Ásberg Sigurðsson frá Sambandi tónskálda og eigenda flutningsréttar (STEF).
    Nefndinni bárust umsagnir frá Myndstefi, Sambandi flytjenda og hljómplötuframleiðenda og STEF.
    Með frumvarpinu er ætlunin að setja ný heildarlög um sameiginlega umsýslu höfundaréttar og innleiða í íslenskan rétt tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/26/ESB um sameiginlega umsýslu höfundaréttar og skyldra réttinda og leyfisveitingar yfir landamæri vegna netnotkunar á tónverkum á innri markaðnum. Markmið frumvarpsins eru að bæta starfshætti rétthafasamtaka, sem teljast sameiginlegar umsýslustofnanir, með því að setja reglur um stjórnhætti og fjármálaskipulag og tryggja þátttöku rétthafa í ákvarðanaferli þeirra. Með frumvarpinu er jafnframt stefnt að því að koma á samræmdum reglum um fjölþjóðleg leyfi sem veitt verða af sameiginlegum umsýslustofnunum um afnot af tónlist á netinu í þeim tilgangi að tryggja aukið framboð slíkrar þjónustu.
    Við meðferð málsins var rætt um mikilvægi þess að lagaumhverfi sameiginlegra umsýslustofnana sé skýrt, að reglur um starfshætti þeirra séu gagnsæjar og áhrif rétthafa á ákvarðanatöku tryggð. Bent var á að auknar kröfur í nýrri löggjöf geti haft íþyngjandi áhrif á íslensk rétthafasamtök sem teljast smá í alþjóðlegum samanburði, m.a. vegna aukins rekstrarkostnaðar. Frumvarpið feli hins vegar í sér svonefnda lágmarksinnleiðingu og máli skiptir að tryggja samræmt lagaumhverfi sameiginlegra umsýslustofnana á innri markaðnum og styrkja úrræði í nýtingu höfundaréttarverndaðra verka.
    Við umfjöllun málsins var rætt almennt um orðalagið á frumvarpinu en fram komu sjónarmið um að orðalag þess væri óskýrt. Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að um sé að ræða lágmarksinnleiðingu með beinni skírskotun til uppbyggingar og orðalags tilskipunarinnar. Við innleiðinguna hafi verið höfð hliðsjón af þýðingu hennar á íslensku en þó hafi verið notuð önnur orð og orðalag þegar það þótti skýrara. Jafnframt hafi verið leitast við að nota orðalag sem notað er í höfundalögum til að tengja þessa lagabálka betur saman. Nefndin telur að frumvarpið beri þess augljós merki að byggt sé á íslenskri þýðingu tilskipunarinnar og því sé orðalag ekki nægilega þjált og aðgengilegt. Nefndin leggur þó ekki til breytingar á frumvarpinu vegna þessa en leggur áherslu á að almennt verði hugað að því að færa þýddan texta á eins lipra og skýra íslensku og unnt er við innleiðingu Evrópugerða. Nefndin leggur hins vegar til breytingar á frumvarpinu sem eru tæknilegs eðlis og til leiðréttingar.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      Í stað orðsins „fjárhæðir“ í 3. tölul. 3. mgr. 9. gr. komi: réttindagreiðslur.
     2.      12. gr. orðist svo:
                      Sameiginlegum umsýslustofnunum er ekki heimilt að ráðstafa réttindatekjum eða tekjum af fjárfestingu réttindatekna í öðrum tilgangi en að úthluta þeim til rétthafa nema þegar fyrir liggur ákvörðun um að umsýslukostnaður megi komi til frádráttar eða jöfnunar eða um að nota megi réttindatekjur eða arð af fjárfestingu á annan hátt skv. 5. mgr. 6. gr.

Alþingi, 6. júní 2019.

Páll Magnússon,
form.
Þórarinn Ingi Pétursson,
frsm.
Andrés Ingi Jónsson.
Anna Kolbrún Árnadóttir. Birgir Ármannsson. Guðmundur Andri Thorsson.
Helgi Hrafn Gunnarsson. Jón Steindór Valdimarsson. Steinunn Þóra Árnadóttir.