Ferill 834. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 1775  —  834. mál.




Svar


umhverfis- og auðlindaráðherra við fyrirspurn frá Ásmundi Friðrikssyni um umhverfisgjöld og skilagjald á drykkjarvöruumbúðir á alþjóðaflugvöllum.


     1.      Hefur komið til skoðunar í ráðuneytinu að setja umhverfisgjöld á alþjóðaflugvelli?
    Umhverfisgjöld fela í sér álagningu skatta, sem er á málefnasviði fjármála- og efnahagsráðuneytis. Í mars 2010 skilaði nefnd um umhverfisgjöld tengd ferðaþjónustu tillögum til fjármálaráðherra. Nefndinni var ætlað að kanna grundvöll þess að leggja á umhverfisgjöld tengd ferðaþjónustu sem ættu að renna til uppbyggingar þjóðgarða og annarra fjölsóttra og friðlýstra áningarstaða ferðamanna og til eflingar ferðaþjónustu. Einn fulltrúi í nefndinni var skipaður samkvæmt tilnefningu umhverfisráðherra. Í tillögum nefndarinnar var m.a. lagt til farþegagjald á hvern mann sem ferðast með loftfari frá Íslandi til annarra landa. Frumvarp um farþegagjald og gistináttagjald var lagt fram á 139. löggjafarþingi en ákvæði þess um farþegagjald voru felld brott, sbr. nefndarálit efnahags- og skattanefndar (139. löggjafarþing 2010–2011, þskj. 1696, 359. mál).

     2.      Er raunhæft að setja skilagjald á allar drykkjarvöruumbúðir á alþjóðaflugvelli sem fellur undir tollfrjálst svæði, eins og t.d. Leifsstöð, enda ljóst að drykkja er neytt á staðnum?
    Samkvæmt lögum nr. 52/1989, um ráðstafanir gegn umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur, er skilagjald lagt á drykkjarvöruumbúðir sem seldar eru farþegum og áhöfnum millilandafara við komu til landsins í tollfrjálsri verslun, þ.e. í komuverslun Keflavíkurflugvallar. Hins vegar er ekki lagt skilagjald á drykkjarvöruumbúðir sem seldar eru til tollfrjálsrar verslunar í brottfararsal flugvallarins, sbr. einnig 53. gr. reglugerðar nr. 630/2008 um ýmis tollfríðindi.
    Áætlað er að í veitingarekstri í brottfararsal Keflavíkurflugvallar hafi fallið til um það bil 2 milljónir eininga af notuðum skilagjaldsskyldum drykkjarvöruumbúðum árið 2018 og er þar mest um innlenda framleiðslu að ræða. Gera má ráð fyrir að þessar umbúðir hafi að stærstum hluta orðið eftir í landinu og skilað sér til Endurvinnslunnar hf., sem endurgreiðir skilagjald, sbr. lög nr. 52/1989 og reglugerð nr. 750/2017 um söfnun, endurvinnslu og skilagjald á einnota drykkjarvöruumbúðir.
    Umhverfis- og auðlindaráðherra skipaði í nóvember 2017 starfshóp um drykkjarvöruumbúðir og í skýrslu hans, dags. 4. júlí 2018, er lagt til að skilagjald verði lagt á drykkjarvöruumbúðir sem seldar eru í brottfararsal Keflavíkurflugvallar og að fundin verði leið fyrir neytendur að fá skilagjaldið endurgreitt þar. Jafnframt er í skýrslunni lögð fram tillaga um endurskoðun laga nr. 52/1989, með tilliti til álagningar skilagjalds, innheimtu og niðurfellingar gjaldsins vegna útflutnings og frísvæða. Að mati ráðuneytisins er raunhæft að leggja skilagjald á drykkjarvöruumbúðir sem eru seldar til tollfrjálsrar verslunar í brottfararsal Keflavíkurflugvallar og vinnur ráðuneytið að því að koma þessum tillögum í framkvæmd.

     3.      Stendur til að móta umhverfisstefnu fyrir alþjóðaflugvelli hvað varðar drykkjarvöruumbúðir?
    Eins og fram kemur í svari við 2. tölul. er unnið að því í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu að framfylgja þeirri tillögu sem fram kemur í skýrslu starfshóps um drykkjarvöruumbúðir frá árinu 2018 hvað varðar drykkjarvöruumbúðir sem seldar eru í brottfararsal Keflavíkurflugvallar.