Ferill 564. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 1777  —  564. mál.
Svar


umhverfis- og auðlindaráðherra við fyrirspurn frá Höllu Signýju Kristjánsdóttur um aðgerðir gegn útbreiðslu skógarkerfils.


     1.      Hvar á landinu er unnið gegn útbreiðslu hinnar ágengu plöntu skógarkerfils og hverjir sinna því?
    Ekki liggur fyrir heildstætt yfirlit yfir öll þau svæði þar sem unnið er gegn útbreiðslu skógarkerfils. Hins vegar hafa umhverfisyfirvöld lagt áherslu á eyðingu hans á friðlýstum svæðum á landinu. Leitaði ráðuneytið því til Umhverfisstofnunar um upplýsingar um aðgerðir við að koma í veg fyrir útbreiðslu skógarkerfils og eyðingu hans og hverjir sinntu því.
    Nýverið gerði Umhverfisstofnun samantekt á fundarstöðum skógarkerfils og annarra framandi plöntutegunda innan friðlýstra svæða í umsjón stofnunarinnar og í nágrenni þeirra. Sú samantekt byggist á hnitaskrá fundarstaða frá Náttúrufræðistofnun Íslands og upplýsingum úr gagnagrunni Umhverfisstofnunar. Samkvæmt henni er skógarkerfil að finna innan sextán friðlýstra svæða sem eru í umsjón stofnunarinnar. Enn fremur er plöntuna að finna í nágrenni tuttugu friðlýstra svæða til viðbótar.
    Unnið er gegn útbreiðslu skógarkerfils með beinum aðgerðum innan marka, eða í nágrenni, eftirfarandi friðlýstra svæða:
     *      Friðlandið Andakíll: Landbúnaðarháskóli Íslands vinnur að upprætingu með slætti.
     *      Fólkvangurinn Böggvisstaðafjall: Dalvíkurbyggð vinnur að upprætingu með slætti.
     *      Friðlandið í Svarfaðardal: Dalvíkurbyggð vinnur að upprætingu með slætti og beit.
     *      Fólkvangurinn Krossanesborgir: Akureyrarbær vinnur að upprætingu með slætti.
     *      Mývatn og Laxá: Umhverfisstofnun og umhverfissamtök vinna að upprætingu með slætti á öllum skógarkerfli sem finnst við Mývatn en einnig er unnið að upprætingu hans í Aðaldal.
     *      Skútustaðagígar: Umhverfisstofnun vinnur að upprætingu með slætti og reytingu stakra plantna.
     *      Gullfoss: Umhverfisstofnun vinnur að því að hefta frekari útbreiðslu með reytingu.
    Samkvæmt upplýsingum frá Reykjavíkurborg stendur nú yfir vinna er snýr að því að kortleggja útbreiðslu skógarkerfils innan marka höfuðborgarinnar, þ.m.t. á friðlýstum svæðum, ekki hefur þó verið ráðist í aðgerðir enn sem komið er. Seltjarnarnesbær vaktar útbreiðslu plöntunnar á friðlýstum svæðum innan sveitarfélags síns. Vitað er til þess að fleiri sveitarfélög hafa kortlagt útbreiðslu með nákvæmum hætti og sum þeirra vinna skipulega að eyðingu skógarkerfils ásamt því að hvetja til einstaklingsframtaks meðal íbúa.

     2.      Hvaða aðferðum er beitt við að hefta útbreiðslu skógarkerfils eða eyða honum?
    Ýmsar leiðir eru til að eyða skógarkerfli og koma í veg fyrir útbreiðslu hans. Samkvæmt upplýsingum frá Umhverfisstofnun er innan friðlýstra svæða aðallega um að ræða slátt en í einhverjum tilfellum reytingu og á einu svæði er sauðfé beitt á skógarkerfil. Þekkt aðferð við eyðingu kerfils er að úða hann með eitri en Umhverfisstofnun notar ekki þá aðferð. Ýmsar aðrar tilraunir hafa verið gerðar til að stemma stigu við útbreiðslu ágengra og framandi tegunda og fyrir skömmu var t.d. sagt frá því í fjölmiðlum að Bolungarvíkurkaupstaður hygðist beita svínum á skógarkerfil í tilraunaskyni.

     3.      Hyggst ráðuneytið beita sér fyrir opinberri stefnu um samræmdar aðgerðir til að halda skógarkerfli í skefjum?
    Ráðuneytið hefur hafið vinnu við endurnýjun stefnumótunar og aðgerðaáætlunar um líffræðilega fjölbreytni, þar sem sérstaklega verður fjallað um aðgerðir og skipulag þeirra sem henta til að takmarka útbreiðslu eða eyða ágengum framandi tegundum, eins og skógarkerfill flokkast. Stefnt er að því að ljúka þessari vinnu í tengslum við aðildarríkjafund samnings Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni árið 2020.