Ferill 900. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 1805  —  900. mál.




Svar


forsætisráðherra við fyrirspurn frá Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni um starfsmenn á launaskrá forsætisráðuneytisins.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hversu margir starfsmenn voru á launaskrá ráðuneytisins í upphafi árs 2016, 2017, 2018 og 2019 og hversu margir voru þeir í lok apríl 2019?

    Í janúar 2016 voru 44 starfsmenn á launaskrá forsætisráðuneytisins, í janúar 2017 voru þeir 46, 49 í janúar 2018, 54 í janúar 2019 og í apríl 2019 voru þeir 57.
    Framangreindar tölur endurspegla ekki fjölda stöðugilda en misjafnt er á milli ára hve margir starfsmenn eru í hlutastörfum eða í tímabundnum störfum. Á tímabilinu sem spurt er um hefur skipurit forsætisráðuneytisins tekið nokkrum breytingum, m.a. í tengslum við breytingar á forsetaúrskurði um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands og styrkingu á samhæfingarhlutverki ráðuneytisins.
    Meðal nýlegra breytinga sem hafa haft umtalsverð áhrif til fjölgunar starfsfólks, samtals um átta starfsmenn, er annars vegar tilfærsla jafnréttismála til forsætisráðuneytisins í janúar 2019 en samfara því fluttust fimm starfsmenn til ráðuneytisins, auk þess sem skipaður var skrifstofustjóri yfir nýrri skrifstofu jafnréttismála, og hins vegar flutningur yfirlestrarverkefna vegna stjórnarfrumvarpa, stjórnartillagna og annarra stjórnarskjala frá Alþingi til ráðuneytisins en við þá breytingu fluttust tvö stöðugildi til ráðuneytisins frá skrifstofu Alþingis í janúar 2018.