Ferill 884. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 1806  —  884. mál.
Svar


umhverfis- og auðlindaráðherra við fyrirspurn frá Birni Leví Gunnarssyni um skrifstofur og skrifstofustjóra í ráðuneytinu.


     1.      Hvaða skrifstofur eru í ráðuneytinu og hvaða skrifstofum stýrir skrifstofustjóri? Hver eru verkefni hverrar skrifstofu og hversu margir starfsmenn starfa undir skrifstofustjóra á hverri skrifstofu?
    Skrifstofur ráðuneytisins eru fimm að meðtalinni skrifstofu yfirstjórnar. Skrifstofa fjármála og rekstrar, skrifstofa hafs, vatns og loftslags, skrifstofa landgæða, skrifstofa umhverfis og skipulags og skrifstofa yfirstjórnar. Fjórir skrifstofustjórar stýra framangreindum skrifstofum en ráðuneytisstjóri stýrir skrifstofu yfirstjórnar.
    Verkefni skrifstofu fjármála og rekstrar eru umsjón með fjárlagagerð og skilum á fjárlagaupplýsingum, samræming, söfnun og miðlun upplýsinga vegna stefnumótunar og árangursmats á málaflokkum og málefnasviðum, eftirlit með fjárskuldbindingum í samræmi við stefnur, rekstrar- og fjárfestingaáætlanir og útgjaldaheimildir stofnana, kostnaðarmat lagafrumvarpa, vistvæn innkaup og rekstur ráðuneytisins. Þá sér starfsfólk skrifstofunnar um sameiginlega þjónustu fyrir aðrar skrifstofur ráðuneytisins, m.a. gæða- og umhverfisstjórnun, húsnæðis- og öryggismál, skjalamál og móttöku gesta, auk símsvörunar. Starfsfólk skrifstofu fjármála og rekstrar er átta talsins auk skrifstofustjóra.
    Verkefni skrifstofu hafs, vatns og loftslags eru loftslagsmál, vatnsvernd, mengun hafs og stranda, líffræðileg fjölbreytni og náttúruvernd í hafi og vötnum á verksviði ráðuneytisins, náttúruvá, veðurþjónusta, málefni norðurslóða og alþjóðastarf tengt viðeigandi málaflokkum. Starfsfólk skrifstofu hafs, vatns og loftslags er sjö talsins auk skrifstofustjóra.
    Verkefni skrifstofu landgæða eru rannsóknir á náttúru og auðlindum lands, ráðgjöf um vernd og nýtingu auðlinda á landi, uppbygging gróður- og jarðvegsauðlinda, náttúruvernd, líffræðileg fjölbreytni á landi, rekstur friðlýstra svæða, landgræðsla, skógrækt, endurheimt votlendis og annarra vistkerfa, veiðistjórnun, alþjóðaverslun með villt dýr, uppbygging friðlýstra svæða og móttaka ferðamanna á þeim, orkuauðlindir, vernd og nýting orkusvæða, sjálfbærniviðmið um nýtingu auðlinda á landi, landnýtingaráætlanir og alþjóðastarf tengt viðkomandi málaflokkum. Starfsfólk skrifstofu landgæða er níu talsins auk skrifstofustjóra.
    Verkefni skrifstofu umhverfis og skipulags eru landsskipulag, mat á umhverfisáhrifum. landupplýsingar og grunnkortagerð, varnir gegn ofanflóðum, umsjón skuldbindinga ráðuneytisins á sviði samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, upplýsinga- og þátttökuréttur almennings, mengun önnur en mengun hafs og stranda, úrgangur og úrvinnsla, efni og efnavörur, erfðabreyttar lífverur, hollustuhættir og heilbrigðiseftirlit, sjálfbær neysla og framleiðsla, skipulagsmál þ.m.t. skipulagsmál hafsins, hættumat og viðbrögð við náttúruvá. Starfsfólk skrifstofu umhverfis og skipulags er sjö talsins auk skrifstofustjóra.

     2.      Hversu margir skrifstofustjórar heyra undir aðra skrifstofustjóra eða stýra ekki skrifstofu sjálfir?
    Enginn.
     3.      Hvaða aukastörf og hlunnindi fylgja starfi hvers skrifstofustjóra og hvert er hlunnindamat starfa þeirra?
    Það fylgja engin aukastörf né hlunnindi starfi hvers skrifstofustjóra. Seta í nefndum, ráðum og starfshópum á vegum ráðuneytisins er skilgreind sem hluti af störfum skrifstofustjóra og þeir fá því ekki greitt sérstaklega fyrir þá vinnu en skrifstofustjóri skrifstofu fjármála og rekstrar situr í stjórn Íslenskra orkurannsókna. Skrifstofustjórar hafa farsíma til umráða vegna vinnu sinnar og er kostnaður vegna þeirra greiddur af ráðuneytinu. Þá fá þeir einnig greiddan kostnað vegna grunngjalds heimasíma og nettengingar vegna starfa sem unnin eru að heiman.

     4.      Hversu mikla yfirvinnu vinnur hver skrifstofustjóri að jafnaði á mánuði, talið í klukkustundum?
    Ekki liggja fyrir upplýsingar um heildaryfirvinnu skrifstofustjóra þar sem hluti af unninni yfirvinnu þeirra er ekki skráður sérstaklega, þ.e. vinna utan hefðbundins vinnutíma í ráðuneytinu. Skráðir yfirvinnutímar þeirra á árinu 2018 í Vinnustund (tímaskráningarkerfi ráðuneytisins) voru að meðaltali um 11 klukkustundir á mánuði. Upplýsingar úr tímaskráningarkerfi ráðuneytisins gefa því ekki nákvæmar upplýsingar um unnar yfirvinnustundir hvers skrifstofustjóra.

     5.      Hvernig tengjast skrifstofurnar í ráðuneytinu undirstofnunum þess?
    Hver skrifstofa ráðuneytisins hefur umsjón með tilteknum stofnunum hvað varðar faglega þætti og hefur tengilið við viðkomandi stofnun.
    Skrifstofa fjármála og rekstrar tengist öllum undirstofnunum ráðuneytisins, m.a. vegna áætlanagerðar og fjármála.
    Skrifstofa hafs, vatns og loftslags er með fagtengingu við Náttúrurannsóknastöðina við Mývatn, Stofnun Vilhjálms Stefánssonar og Veðurstofu Íslands.
    Skrifstofa landgæða er með fagtenginu við Íslenskar orkurannsóknir, Landgræðsluna, Náttúrufræðistofnun Íslands, Skógræktina, Vatnajökulsþjóðgarð og Þjóðgarðinn á Þingvöllum.
    Skrifstofa umhverfis og skipulags er með fagtenginu við Landmælingar Íslands, Skipulagsstofnun, Umhverfisstofnun og Úrvinnslusjóð.
    Þess ber að geta að Umhverfisstofnun hefur tengingar við allar skrifstofur ráðuneytisins vegna þeirra verkefna sem stofnunin sinnir.