Ferill 776. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 1814  —  776. mál.
2. umræða.



Framhaldsnefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um fiskveiðar utan lögsögu Íslands, nr. 151/1996, með síðari breytingum (stjórn veiða á makríl).

Frá meiri hluta atvinnuveganefndar.


    Nefndin hefur fjallað frekar um málið og leggur meiri hlutinn til að 35 lesta hámark við úthlutun úr 4.000 lestum verði fellt brott þannig að ráðherra verði frjálst að ákveða hverju sinni með reglugerð skilyrði fyrir úthlutun á þeim 4.000 tonnum sem heimilt verður að leigja sérstaklega til veiðiskipa. Meiri hlutinn bendir á að mikil reynsla er komin á slíka úthlutun og telur því þarflaust að setja sérstök skilyrði um hana í lög, enda gert ráð fyrir að framkvæmd verði með sambærilegum hætti og verið hefur.
    Meiri hlutinn telur rétt að gjald verði tekið af ráðstöfun aflamarks úr B-flokki yfir í A-flokk og leggur því til breytingu þess efnis. Þá leggur meiri hlutinn jafnframt til að ráðherra verði veitt heimild til að miða við annað tímamark en 15. september í þessu tilliti til þess að bregðast við aðstæðum hverju sinni (fiskgengd).
    Meiri hlutinn leggur til að málið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    Við 2. tölul. breytingartillögu á þingskjali 1654 [Fiskveiðar utan lögsögu Íslands].
     a.      1. og 2. málsl. efnismálsgreinar b-liðar (3. gr.) orðist svo: Ráðherra er heimilt að ráðstafa allt að 4.000 lestum af aflaheimildum í makríl til skipa í B-flokki. Hvert skip á kost á að fá úthlutað aflaheimildum í makríl gegn gjaldi sem á hverjum tíma skal nema sömu fjárhæð og veiðigjald fyrir makríl.
     b.      D-liður (5. gr.) orðist svo:
                  Eftirfarandi breytingar verða á 15. gr. laganna:
              a.      Á eftir 3. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
                     Óheimilt er að flytja aflamark skips í makríl úr B-flokki, nema í jöfnum skiptum í þorskígildum talið fyrir aflamark í þorski, ýsu, ufsa og steinbít. Ráðherra er heimilt að flytja ónýtt aflamark í makríl úr B-flokki yfir í A-flokk eftir 15. september ár hvert, að teknu tilliti til tegundartilfærslna og flutningsréttar milli veiðitímabila, sem ráðstafað skal á skip í samræmi við hlutdeild og eftirspurn, gegn gjaldi sem á hverjum tíma skal nema sömu fjárhæð og veiðigjald fyrir makríl. Ef aflabrögð á grunnslóð mæla með því að flýta eða seinka flutningi úr B-flokki í A-flokk er ráðherra heimilt að miða við annað tímamark. Ráðherra er heimilt að setja nánari reglur um framkvæmd þessa ákvæðis með reglugerð.
              b.      6. mgr. orðast svo:
                     Tefjist skip frá veiðum í a.m.k. fjóra mánuði vegna tjóns, meiri háttar bilana eða endurbóta hefur afli þess fiskveiðiárs ekki áhrif til niðurfellingar aflahlutdeildar samkvæmt þessari grein.


Alþingi, 12. júní 2019.

Lilja Rafney Magnúsdóttir,
form., frsm.
Ásmundur Friðriksson. Halla Signý Kristjánsdóttir.
Kolbeinn Óttarsson Proppé. Njáll Trausti Friðbertsson.