Ferill 766. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 1823  —  766. mál.
2. umræða.Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim, lögum um matvæli og lögum um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru (innflutningur búfjárafurða).

Frá minni hluta atvinnuveganefndar.


    Minni hlutinn bendir á að heilbrigði íslenskra búfjárstofna er mun betra en almennt er í Evrópu. Vegna einangrunar landsins er Ísland laust við fjölmarga dýrasjúkdóma sem hafa verið landlægir í Evrópu öldum saman. Af því leiðir að innlendir búfjárstofnar eru viðkvæmir fyrir smiti af slíkum pestum og fári þar sem viðnám þeirra er lítið sem ekkert. Minni hlutinn bendir á að notkun sýklalyfja hérlendis er mun minni en annars staðar í Evrópu og er íslenskur landbúnaður að þessu leyti í öfundsverðri stöðu. Til dæmis hefur tekist að halda kampýlóbakter í skefjum í eggja- og kjúklingabúskap og þykir árangur Íslendinga í þessum efnum eftirtektarverður. Minni hlutinn bendir á að mikilvægt er að viðhalda þessari einstöku stöðu sjúkdóma í íslenskum landbúnaði og viðhalda jafnframt hreinleika íslenskra landbúnaðarafurða. Minni hlutinn bendir á að Sigurður Sigurðarson dýralæknir frá Keldum hvatti alþingismenn í grein sinni í Bændablaðinu 16. maí sl. til að standa gegn frumvarpinu, m.a. með vísan til framangreindra raka. Benti hann jafnframt á að áður óþekktir smitsjúkdómar hafi margoft borist til landsins með ógætilegum og óþörfum innflutningi og valdið stórfelldu tjóni og erfiðleikum, þrátt fyrir viðnámsaðgerðir og varúðarráðstafanir. Telur hann hið sama eiga við um þær viðnámsaðgerðir sem boðaðar hafa verið. Barist hafi verið gegn afleiðingum slíkra ákvarðana stjórnvalda og þó að tekist hafi að útrýma mörgum innfluttum smitsjúkdómum hafi það verið með ærnum tilkostnaði og fórnum. Benti hann á að frumvarpið hafi jafnframt í för með sér aukna hættu á innflutningi sýklastofna sem engin lyf vinna á og það sé hættulegt heilsu bæði manna og dýra. Telur hann að verið sé að hrekjast undan þrýstingi hagsmunaafla innan lands og reglum erlendis frá. Þær reglur séu ekki heilagar og eigi sumar alls ekki við hér á landi og þeim sé hægt að mótmæla og verjast og berjast fyrir rétti Íslendinga. Telur hann að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra eigi sjálfur að standa í fararbroddi í vörninni en ekki ýta ábyrgðinni yfir á aðra.
    Í umsögn Félags eggjabænda var bent á að hætta er á margvíslegum óafturkræfum afleiðingum fyrir íslenska eggjaframleiðslu og landbúnað í heild. Þar segir að heilnæmi íslenskra eggjaafurða sé eins og best verði á kosið og notkun sýklalyfja nær óþekkt svo áratugum skiptir. Innflutningur á erfðaefni sé háður mjög ströngum skilyrðum og því sé sjúkdómastaða með eindæmum góð. Bent var á að málið þyrfti meiri umfjöllun og lagt til að gildistöku yrði frestað enn frekar. Leggja þurfi línur um eftirlit og viðbótarvarnir og kröfur um að framleiðsluaðferðir séu ekki lakari en hérlendis. Var bent á að í aðgerðaáætlun vanti viðbrögð vegna mögulegs smits eða smitáhættu í búfjárstofna með innflutningi á hráum eggjum og að upplýsingar, merkingar eggja og eftirlit í smásölu og heildsölu verði að vera skýrari en t.d. í grænmeti og kjöti, þar sem uppruni þeirra er oft óljós og illa greinanlegur. Benti félagið jafnframt á mikilvægi þess að endurskoða tollskrá áður en frumvarpið verði að lögum, þar sem núverandi tollskrá sé löngu úrelt. Þá var bent á nauðsyn þess að fram fari úttekt á stöðu íslenskra bænda í samanburði við lönd Evrópusambandsins með tilliti til samkeppnisstöðu, styrkja, framleiðsluaðferða o.s.frv. Í umsögnum var enn fremur bent á að bæta þyrfti merkingar á innfluttu kjöti hvað varðar lyfjanotkun í framleiðslu eða upprunalandi og gera strangar kröfur um lekaheldar umbúðir, meðferð vöru og flutningsleiðir. Vel skilgreind viðbragðsáætlun þurfi að vera fyrir hendi þegar nær alónæmar eða alónæmar bakteríur greinist ásamt heimild til að stöðva dreifingu. Bent var á að í lögum verði að kveða skýrt á um ábyrgð framleiðenda og innflytjenda á að tryggja heilnæmi sem og viðurlög við brotum.
    Minni hlutinn tekur undir framangreind sjónarmið og bendir í þessu samhengi á að þingmenn Miðflokksins hafa lagt fram frumvarp til laga um breytingu á lögum um matvæli, þskj. 1189, þar sem lagt er til að upplýsingar um notkun sýklalyfja í matvælaframleiðslu verði neytendum aðgengilegri.
    Minni hlutinn bendir á að aðdragandi málsins er vel rakinn í greinargerð með frumvarpinu, þar á meðal ferill málsins á vettvangi sameiginlegu EES-nefndarinnar og samningsbrotamál gagnvart EFTA-dómstólnum og skaðabótamál fyrir innlendum dómstólum. Í því sambandi vakni spurningar um hvort nægilega hafi verið gætt að íslenskum hagsmunum á öllum stigum málsins og að þeirri sérstöðu sem landið óumdeilanlega hefur.
    Meiri hlutinn lagði fram þingsályktunartillögu um aðgerðaáætlun um matvælaöryggi og vernd búfjárstofna. Felur hún í sérmótvægisaðgerðir sem miða að því að vernda íslenskan landbúnað og búfé eftir að innflutningur landbúnaðarafurða verður heimill og hefur þeim aðgerðum fjölgað meðan málið hefur verið til þinglegrar meðferðar.
    Minni hlutinn bendir á að í umsögn Bændasamtaka Íslands kom m.a. fram að samtökin leggjast fyrst og fremst gegn því að frumvarpið verði samþykkt. Að öðrum kosti óskuðu samtökin þess að gildistöku laganna yrði frestað og gripið til aðgerða til að lágmarka það tjón sem orðið getur, annars vegar með því að tryggja fjármögnun og framkvæmd mótvægisaðgerða og hins vegar með því að fela þar til bærri stofnun að gera greiningarmörk vegna sýklalyfjaónæmra baktería í matvælum og banna markaðssetningu á afurðum sem í ræktast sýklalyfjaónæmar bakteríur. Landssamband kúabænda sagði í umsögn sinni að nauðsynlegt væri að ráðast í mótvægisaðgerðir hvort sem frystiskyldan yrði afnumin eða ekki og enn fremur að óraunhæft væri að nauðsynlegri vinnu við innleiðingu þeirra og fjármögnun verði lokið fyrir áætlaða gildistöku.
    Minni hlutinn telur mótvægisaðgerðirnar góðra gjalda verðar svo langt sem þær ná. Hins vegar tekur minni hlutinn undir framangreind sjónarmið og telur minni hlutinn sýnt að mótvægisaðgerðirnar verði hvorki komnar til framkvæmda né fjármagnaðar að fullu áður en gildistaka er áætluð líkt og Bændasamtökin bentu á og telur því þörf á lengri fresti í þessu máli en áformaður er.
    Minni hlutinn getur ekki lagt til að málið sé samþykkt án þess að fyrir liggi tímasett áætlun mótvægisaðgerða og fjármögnun þeirra tryggð.


Alþingi, 11. júní 2019.

Ólafur Ísleifsson,
frsm.
Sigurður Páll Jónsson.