Ferill 752. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 1825  —  752. mál.
2. umræða.Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um kynrænt sjálfræði.

Frá minni hluta allsherjar- og menntamálanefndar.


    Minni hlutinn styður frumvarpið og breytingartillögur meiri hlutans að undanskildu ákvæði til bráðabirgða I og leggur auk þess til að við frumvarpið bætist ný grein.
    Kjarni kynræns sjálfræðis felst í rétti einstaklingsins til þess að skilgreina kyn sitt og rétti allra til þess að njóta líkamlegrar friðhelgi og að eigin kynvitund einstaklingsins njóti viðurkenningar. Í því felst ekki síst óskoraður réttur til sjálfræðis um eigin líkama og breytingar á kyneinkennum.
    Með frumvarpinu er lagt bann við því að gera varanlegar breytingar á kynfærum, kynkirtlum eða öðrum kyneinkennum einstaklings án skriflegs samþykkis hans, sbr. 11. gr. frumvarpsins. Til varanlegra breytinga teljast m.a. skurðaðgerðir, lyfjameðferðir og önnur óafturkræf læknisfræðileg inngrip. Þrátt fyrir þetta er gert ráð fyrir að bannið gildi ekki um börn undir 16 ára aldri, sbr. ákvæði til bráðabirgða I.

Réttindi barna yngri en 16 ára.
    Minni hlutinn tekur fram að frumvarpið gerir ekki ráð fyrir að börn yngri en 16 ára njóti grundvallarréttinda til kynræns sjálfræðis til jafns við aðra. Þeirra réttinda verði að bíða enn um hríð á meðan starfshópur samkvæmt ákvæði til bráðabirgða I ræður ráðum sínum og semur drög að frumvarpi, en meiri hlutinn leggur til að hópurinn skili niðurstöðum sínum og tillögum 12 mánuðum eftir gildistöku laganna. Síðan þarf enn að bíða eftir því að nýtt frumvarp fái framgang á Alþingi.
    Minni hlutinn telur að réttur barna 16 ára og yngri sé freklega fyrir borð borinn í frumvarpinu og tekur heilshugar undir sjónarmið sem birtast í umsögnum sem og þau sjónarmið sem komu fram við meðferð málsins fyrir nefndinni, sbr. m.a. eftirfarandi tilvitnanir í umsagnir þar sem rætt er um aðgerðir á börnum:
     Amnesty International: „Frumvarp til laga um kynrænt sjálfræði, sem liggur nú fyrir Alþingi, skapar tækifæri til að vernda réttindi intersex barna og fullorðinna en í núverandi drögum að frumvarpinu er vöntun á mikilvægri vernd fyrir intersex börn. Þá sérstaklega hvað varðar ákvæði til að koma í veg fyrir ónauðsynlegar, óafturkræfar og inngripsmiklar aðgerðir á börnum sem fæðast með ódæmigerð líffræðileg kyneinkenni.“
     Barnaheill: „Barnaheill skora á Alþingi að bæta við frumvarpið ákvæði sem leggur bann við ónauðsynlegum og óafturkræfum aðgerðum á intersex börnum án samþykkis þeirra.“
     Barnaverndarstofa: „ […] telur Barnaverndarstofa varhugavert að hægt sé að gera varanlegar breytingar á kynfærum, kynkirtlum eða öðrum kyneinkennum einstaklinga undir 16 ára aldri og telur rétt að farið sé varlega í slíkar aðgerðir án samþykkis viðkomandi barna.“
     Intersex Ísland: „Intersex Ísland sér ekki hvernig að núverandi drög uppfylli þingsályktun Evrópuráðsins þar sem börnum verður ekki tryggð vernd fyrir læknisfræðilegum inngripum sem mæta ekki brýnni heilsufarslegri nauðsyn. Að tryggja eingöngu líkamlega friðhelgi fyrir fólk eldri en 16 ára, en ekki börn, er skýr mismunun á grundvelli aldurs. Intersex Ísland gerir því kröfu að bætt verði við ákvæði sem tryggir börnum sömu vernd.“
     Mannréttindastofa Íslands: „ […] gerir alvarlegar athugasemdir við að í frumvarpinu er ekki að finna ákvæði til verndar intersex börnum gegn skaðlegum og ónauðsynlegum líkamlegum inngripum þrátt fyrir fyrirheit stjórnvalda í stjórnarsáttmála, en þar segir: „Ríkisstjórnin vill koma Íslandi í fremstu röð í málefnum hinsegin fólks með metnaðarfullri löggjöf um kynrænt sjálfræði í samræmi við nýútkomin tilmæli Evrópuráðsins vegna mannréttinda intersex fólks. Í þeim lögum yrði kveðið á um að einstaklingar megi sjálfir ákveða kyn sitt, kynvitund þeirra njóti viðurkenningar, einstaklingar njóti líkamlegrar friðhelgi og jafnréttis fyrir lögum óháð kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum og kyntjáningu.“ Að mati MRSÍ verður ekki nógsamlega tíundað mikilvægi þess að vernda einstaklinga með ódæmigerð kyneinkenni, sem ekki falla að stöðluðum hugmyndum um líffræðileg einkenni karl- eða kvenkyns líkama, fyrir tilraunum til að laga líkama þeirra að stöðluðum hugmyndum um kynin með skurðaðgerðum og/eða hormónameðferðum.“
     Samtökin '78: „Samtökin '78 gera þó alvarlegar athugasemdir við það að frumvarpið tryggi ekki líkamlega friðhelgi barna undir 16 ára aldri og krefjast þess að við frumvarpið verði bætt ákvæðum þar að lútandi.“
     Trans Ísland: „ […] vill Trans Ísland gera alvarlegar athugasemdir við að frumvarpið tryggi börnum undir 16 ára aldri ekki líkamlega friðhelgi, en slíkt fer gegn tilgangi og markmiði þessa frumvarps. Í 3. grein, lið (d er skýrt tekið fram að hver einstaklingur njóti [óskoraðs] réttar til „líkamlegrar friðhelgi og sjálfræðis varðandi breytingar á kyneinkennum“. Það gefur því auga leið að slíkt ætti að ná yfir einstaklinga undir 16 ára aldri, en þau inngrip sem gerð eru á börnum með ódæmigerð kyneinkenni og intersex fólki eru nær öll framkvæmd á ungabörnum. Þau inngrip leiða til frekari inngripa síðar meir á lífsleiðinni og jafnvel í marga áratugi, ásamt því að sum inngrip gera einstaklinga háða hormónameðferð alla þeirra ævi.“
     Umboðsmaður barna: „ […] telur umboðsmaður barna að til þess að tryggja börnum yngri en 16 ára með ódæmigerð kyneinkenni vernd og rétt til líkamlegrar friðhelgi færi betur á því að hafa ákvæði þess efnis í frumvarpinu sjálfu í stað þess að stofna starfshóp til að fjalla nánar um þetta álitaefni.“

Nýtt ákvæði um börn yngri en 16 ára.
    Með hliðsjón af framangreindu leggur minni hlutinn til að við frumvarpið bætist ný grein sem fjalli sérstaklega um líkamlega friðhelgi barna yngri en 16 ára og breytingar á kyneinkennum barna sem eru brýnar af heilsufarslegum ástæðum og samhliða þeirri breytingu leggur minni hlutinn til að ákvæði til bráðabirgða I falli brott. Hin nýja lagagrein byggist á tillögum hóps sem komu fram í frumvarpsdrögum sem voru afhent velferðarráðuneyti í desember 2017 og skiptist lagagreinin í fimm málsgreinar.
    Í 1. mgr. er sett fram sú meginregla að ekki skuli gera varanlegar breytingar á kynfærum, kynkirtlum eða öðrum kyneinkennum barna sem fæðast með ódæmigerð kyneinkenni ef mögulegt er að fresta þeim þar til barnið getur veitt upplýst samþykki sitt fyrir meðferðinni. Til varanlegra breytinga vísast til 2. málsl. 1. mgr. 11. gr. frumvarpsins. Reglan er sérstaklega mikilvæg í tilviki intersex barna, þ.e. þegar kyneinkenni barns falla ekki að læknisfræðilegum skilgreiningum á kvenkyni eða karlkyni. Reglan miðar þá að því að tryggja að ekki séu gerðar óafturkræfar breytingar á kyneinkennum barnsins fyrr en skýrar liggur fyrir hver þróun kynvitundar þess verður og það getur sjálft látið í ljós vilja sinn. Þrátt fyrir meginregluna eru slíkar meðferðir að sjálfsögðu heimilar ef brýnar heilsufarslegar ástæður krefjast. Mikilvægt er að tryggja að sú hömlun standi ekki í vegi fyrir því að sérhver einstaklingur fái fullnægjandi heilbrigðisþjónustu líkt og kveðið er á um í 76. gr. stjórnarskrárinnar.
    Um ákvörðunartökuferlið er nánar fjallað í 2. mgr. Segir þar að forsjáraðilar skuli veita samþykki sitt og jafnframt er mælt fyrir um að þeim skuli veittar þær upplýsingar sem frá greinir í 3. mgr. 11. gr. Skilyrt er að forsjáraðilum skuli boðið að ráðfæra sig við sérfróðan aðila um nauðsyn aðgerðarinnar, annan en þann sem framkvæmir hana og skal það vera þeim að kostnaðarlausu. Enn fremur er áréttað að börn og foreldrar skuli njóta ráðgjafar og stuðnings frá teymi barna- og unglingageðdeildar um kynvitund og ódæmigerð kyneinkenni, sbr. 13. gr. frumvarpsins sem verður þá að 14. gr. með þeirri breytingu sem minni hlutinn leggur til.
    Friðhelgi kyneinkenna er einnig vernduð fyrir aðgerðum á félagslegum, sálfélagslegum og útlitslegum forsendum. Hvers konar aðgerð á kyneinkennum sem veldur á þeim varanlegum breytingum og er ekki ætlað að bregðast við brýnum heilsufarslegum ástæðum er því óheimil nema með upplýstu samþykki. Slík aðgerð verður ekki framkvæmd löglega nema einstaklingurinn sem á í hlut sé fær um að veita slíkt samþykki.
    Í 3. mgr. er síðan nánar fjallað um skilyrði fyrir aðgerðum til að breyta kyneinkennum barna öðrum en þeim sem gerðar eru af brýnum heilsufarslegum ástæðum. Skal ákvörðun um þær tekin með hagsmuni barnsins að leiðarljósi og vera í samræmi við vilja þess og þróun kynvitundar. Samþykki forsjáraðila er áskilið og einnig samþykki sérfræðinefndar skv. 9. gr. Með síðastnefnda skilyrðinu er leitast við að tryggja að óháðir sérfræðingar komi að ákvarðanatökunni og gæti réttar barnsins. Er það lagt í hendur nefndarinnar að kanna viðhorf barnsins til fyrirhugaðrar breytingar og meta þroska þess og færni til að taka ákvörðunina.
    Ákvæði 4. mgr. greinarinnar beinist að börnum sem komin eru að kynþroska og upplifa misræmi milli kynvitundar sinnar og þess kyns sem þeim var úthlutað við fæðingu. Í tilvikum þeirra eru stundum gefnir GnR-H-analógar, svokallaðir hormónablokkar, til að stöðva kynþroska fram til þess tíma er börnin eru nógu gömul til að geta gengist undir hormónameðferð sem lið í kynleiðréttingarferli. Áhrif þessara lyfja á líkamlegan þroska verða ekki varanleg og því heldur kynþroski áfram með eðlilegum hætti þegar töku þeirra er hætt. Eins og við aðrar læknismeðferðir þarf samþykki forsjáraðila til að barn geti gengist undir þessa meðferð. Neiti forsjáraðilar, annar eða báðir, að veita barni sem óskar eftir slíkri meðferð heimild til að undirgangast hana á barnið þess kost að leita samþykkis sérfræðinefndar skv. 9. gr. Metur nefndin aðstæður barnsins og afstöðu þess og getur veitt því heimild til að fresta kynþroska sínum með hormónablokkum. Mikilvægt er að meðferðin hefjist á réttu þroskaskeiði barnsins en þannig er komið í veg fyrir að það þurfi að ganga í gegnum tvö kynþroskaskeið. Meðferðin gefur barninu tíma til að þroska kynvitund sína og taka upplýsta ákvörðun um næstu skref.
    Mikilvægt er að upplýsingar liggi fyrir um aðgerðir sem hin nýja grein, sem yrði 12. gr., fjallar um. Felur 5. mgr. því í sér að læknar sem þær gera haldi um þær skrá og veiti landlækni árlega upplýsingar um fjölda og eðli aðgerðanna og aldur þeirra sem þær undirgangast.
    Með hliðsjón af framangreindu leggur minni hlutinn jafnframt til breytingar á 2. mgr. 9. gr. frumvarpsins þannig að bætt verði við að sérfræðinefndin taki einnig ákvarðanir skv. 3. og 4. mgr. hinnar nýju greinar.

    Minni hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      Við 1. málsl. 2. mgr. 9. gr. bætist: og 3. og 4. mgr. 12. gr.
     2.      Á eftir 11. gr. komi ný grein, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

Breytingar á kyneinkennum barna með ódæmigerð kyneinkenni.

             Ekki skal gera varanlegar breytingar á kynfærum, kynkirtlum eða öðrum kyneinkennum barna sem fæðast með ódæmigerð kyneinkenni ef mögulegt er að fresta þeim þar til barnið getur veitt upplýst samþykki sitt fyrir meðferðinni. Einungis er heimilt að ráðast í slíkar aðgerðir ef brýnar heilsufarslegar ástæður krefjast þess. Félagslegar, sálfélagslegar og útlitslegar ástæður geta ekki réttlætt slík inngrip í líkama barns.
             Forsjáraðilar skulu veita samþykki fyrir meðferð barns yngra en 16 ára sem gera þarf vegna brýnna heilsufarslegra ástæðna og skulu þeim veittar þær upplýsingar sem greinir í 3. mgr. 11. gr. Skal þeim jafnframt boðið að leita álits annars sérfræðings um nauðsyn meðferðarinnar og skal það vera þeim að kostnaðarlausu. Í ákvarðanatökuferlinu skulu barnið og forsjáraðilar njóta ráðgjafar og stuðnings frá teymi barna- og unglingageðdeildar um kynvitund og ódæmigerð kyneinkenni, sbr. 14. gr.
             Ákvörðun um aðgerð til að breyta kyneinkennum barns undir 16 ára aldri skal tekin með hagsmuni þess að leiðarljósi og vera í samræmi við vilja þess og þróun kynvitundar. Skilyrði er að forsjáraðilar veiti samþykki sitt og einnig skal afla samþykkis sérfræðinefndar skv. 9. gr. vegna aðgerða sem ekki falla undir 2. mgr. Skal niðurstaða hennar byggð á könnun á viðhorfum barnsins til breytingarinnar.
             Barn sem komið er að kynþroska getur að eigin ósk og að fengnu samþykki sérfræðinefndar skv. 9. gr. undirgengist meðferð til að fresta kynþroska óháð samþykki forsjáraðila.
             Læknar sem framkvæma aðgerðir samkvæmt þessari grein skulu halda skrá yfir þær og veita landlækni árlega upplýsingar um fjölda og eðli aðgerða og aldur þeirra sem undirgangast þær.
     3.      Ákvæði til bráðabirgða I falli brott.

Alþingi, 11. júní 2019.

Jón Steindór Valdimarsson,
frsm.
Guðmundur Andri Thorsson. Helgi Hrafn Gunnarsson.