Ferill 904. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 1841  —  904. mál.
Svar


umhverfis- og auðlindaráðherra við fyrirspurn frá Halldóru Mogensen um hreinsun fjarða.


     1.      Hefur ráðherra kannað mögulegan kostnað við hreinsun hafsbotns í fjörðum, þar sem laxeldi hefur verið stundað í opnum sjókvíum, þegar til þess kemur að starfsemi ljúki? Hver mundi greiða slíkan kostnað?
    Samkvæmt lögum nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, er útgáfa starfsleyfis og eftirlit með laxeldi, þ.e. starfsemi með eldi sjávar- og ferskvatnslífvera hvað varðar mengunarvarnir, á hendi Umhverfisstofnunar. Í 6. gr. laganna, sbr. einnig 7. gr. og viðauka I og II, segir að eldi sjávar- og ferskvatnslífvera skuli hafa gilt starfsleyfi og er óheimilt að hefja atvinnurekstur hafi starfsleyfi ekki verið gefið út. Allur atvinnurekstur sem sótt er um starfsleyfi fyrir skal þá vera í samræmi við skipulag samkvæmt skipulagslögum. Hið sama gildir um skipulag samkvæmt lögum um skipulag haf- og strandsvæða sé slíkt skipulag í gildi. Starfsleyfi skal veitt starfsemi ef hún uppfyllir þær lagalegu kröfur sem til hennar eru gerðar. Samkvæmt ákvæði 2. mgr. 6. gr. laga nr. 7/1998 er starfsleyfi gefið út til tiltekins tíma og er útgefanda heimilt að endurskoða og breyta starfsleyfi áður en gildistími þess er liðinn vegna breyttra forsendna, svo sem ef mengun af völdum atvinnurekstrar er meiri en búist var við þegar leyfið var gefið út, ef breytingar verða á rekstrinum sem varðað geta ákvæði starfsleyfis, vegna tækniþróunar eða breytinga á reglum um mengunarvarnir, eða ef breyting verður á aðalskipulagi viðkomandi sveitarfélags. Í samræmi við breytingu sem gerð var á lögunum árið 2017 ber Umhverfisstofnun skv. 16. gr. laga nr. 7/1998 að setja ákvæði í útgefið starfsleyfi fyrir atvinnurekstur um lokun iðnaðarsvæðis þegar starfsemi er stöðvuð endanlega, sbr. viðauka I og II.
    Samkvæmt starfsleyfum gefnum út af Umhverfisstofnun ber rekstraraðila að útbúa áætlun vegna rekstrarstöðvunar, tímabundinnar eða varanlegrar, þar sem m.a. skal fjallað um frágang rekstrarsvæðis. Í áætluninni skal gengið út frá því að lágmarka möguleg mengunaráhrif. Umhverfisstofnun hefur hingað til ekki óskað eftir sérstakri hreinsunaráætlun í þessu samhengi þar sem álagið á hafsbotninn er vegna lífniðurbrjótanlegra efna. Milli eldiskynslóða eru svæði hvíld með það að markmiði að hafsbotninn jafni sig og ef rekstri er hætt alveg ættu svæðin að jafna sig að fullu. Hér er þá vísað í bæði niðurbrot efnanna og sjálfhreinsun undan kvíum vegna strauma.
    Umhverfisstofnun hefur ekki kannað sérstaklega kostnað við hreinsun hafsbotns í fjörðum eftir að starfsemi lýkur vegna laxeldis í opnum kvíum. Teldi stofnunin í einhverjum tilvikum að sérstakrar hreinsunar á hafsbotni væri þörf mundi slíkur kostnaður greiðast af viðkomandi rekstraraðilum, þar sem fiskeldi má m.a. ekki valda óæskilegri breytingu á lífríki svæðisins og rekstraraðila ber að sjá til þess að vatnsgæðum hraki ekki vegna starfseminnar eins og tilgreint er í ákvæði í starfsleyfum fyrir opnar sjókvíar.
     2.      Eru einhverjar reglur í gildi eða hefur ráðherra gefið einhver fyrirmæli um hvernig ganga skuli frá sjókvíum þegar laxeldi er hætt? Ef ekki, hefur ráðherra áform um að gefa slík fyrirmæli eða setja slíkar reglur?
    Í skýrslu nefndar um leyfisveitingar og eftirlit í fiskeldi sem skilað var til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins í júní 2014 er lagt til að eftirlit með uppsöfnun lífræns úrgangs undir og við sjóeldiskvíar verði fært til samræmis við það sem þekkist erlendis og stuðst við ISO 12878 staðalinn. Með tölvupósti hinn 8. mars 2016 óskaði umhverfis- og auðlindaráðuneytið eftir því að fagstaðlaráð í fiskimálum mundi skoða möguleika á að gera ISO 12878 staðalinn að íslenskum staðli og ef það væri grundvöllur fyrir því að staðallinn yrði þá settur í tilskilið auglýsingarferli og staðfestur sem íslenskur staðall í framhaldinu. Í framhaldinu var staðallinn staðfestur sem ÍST ISO 12878 í fiskeldi og tók gildi sem íslenskur staðall 15. júlí 2016. Í starfsleyfum er vísað til þess að mælingar í tengslum við mat á álagi á umhverfi sem starfsemin veldur skuli vera samkvæmt fyrrgreindum staðli.
    Líkt og fram kemur í svari við 1. tölul. er í starfsleyfi sem er gefið út af Umhverfisstofnun þegar gerð krafa um áætlun sem rekstraraðila ber að gera vegna rekstrarstöðvunar. Áætlunin skal taka til frágangs búnaðar, þ.e. hvernig gengið skuli frá svo að ekki hljótist mengun af. Umhverfis- og auðlindaráðherra hefur ekki áform um að gefa út frekari fyrirmæli eða reglur vegna eldis sjávar- og ferskvatnslífvera varðandi það sem fellur undir mengunarvarnir en að öðru leyti vísast í svar við 1. tölul. varðandi kostnað ef til þess kæmi að Umhverfisstofnun teldi að sérstakrar hreinsunar væri þörf.
    Að öðru leyti fellur eftirlit með búnaði fiskeldis undir eftirlit Matvælastofnunar og málefnasvið atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis. Vegna umræddrar fyrirspurnar vísar atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið til þess að í 14. gr. b í lögum nr. 71/2008, um fiskeldi, kemur fram að áður en rekstrarleyfi er gefið út þarf umsækjandi að leggja fram sönnun þess að hann hafi keypt ábyrgðartryggingu. Ábyrgðartrygging takmarkast við að greiða þann kostnað sem til fellur við að fjarlægja búnað sjókvíaeldisstöðvar sem hætt hefur starfsemi, viðgerð á búnaði, hreinsun eldissvæðis og nauðsynlegar ráðstafanir vegna sjúkdómahættu, sbr. 21. gr. b sömu laga. Kveðið er á um að Matvælastofnun sé heimilt á kostnað rekstrarleyfishafa að láta fjarlægja búnað fiskeldisstöðvar sem hætt hefur starfsemi, gera við búnað og hreinsa eldissvæði og gera aðrar nauðsynlegar ráðstafanir vegna sjúkdómahættu fari hann ekki að fyrirmælum Matvælastofnunar eða skilyrðum í rekstrarleyfi. Skal kostnaður þá greiddur til bráðabirgða af Matvælastofnun en innheimtist síðar hjá rekstrarleyfishafa eða úr ábyrgðartryggingu hans. Kostnað má innheimta með fjárnámi.

     3.      Hefur ráðherra kannað hreinsunarstarf þeirra aðila sem nú þegar hafa með höndum laxeldi í opnum sjókvíum? Ef svo er, hvert er umfang og eðli þess hreinsunarstarfs?
    Eins og fram kemur í svari við 1. tölul. er útgáfa starfsleyfis og eftirlit með eldi sjávar- og ferskvatnslífvera hvað varðar mengunarvarnir á hendi Umhverfisstofnunar. Umhverfisstofnun hefur ekki kannað sérstaklega hreinsunarstarf þeirra aðila sem nú eru með starfsleyfi, umfram almennt eftirlit stofnunarinnar með starfsleyfishöfum, þar sem m.a. er kannað hvort reglum um lágmarkshvíld svæðis sé fylgt og hvort uppsöfnun lífrænna leifa sé umfram það sem starfsleyfi gerir ráð fyrir. Samkvæmt upplýsingum frá stofnuninni er ekki um að ræða, eftir því sem stofnunin kemst næst, sértæka hreinsun á hafsbotni hjá þeim aðilum sem eru með rekstur í fjörðum. Umhverfisstofnun er þó kunnugt um að hjá einum starfsleyfishafa fari reglubundin hreinsun fram. Það starfsleyfi er vegna fiskeldis í lóni en ekki firði þar sem náttúrulegar aðstæður í viðtaka ráða við að hreinsa. Uppsöfnun fóðurleifa og skíts undir kvíum gerir það að verkum að rekstraraðili hefur fengið leyfi stofnunarinnar fyrir varpi í hafið og hefur á undanförnum árum dælt undan kvíunum út í sjó.