Ferill 921. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 1842  —  921. mál.
Svar


samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra við fyrirspurn frá Alex B. Stefánssyni um lausagang bifreiða.


     1.      Hefur ráðherra kannað hvort setja þurfi nánari leiðbeinandi reglur um lausagang bifreiða, t.d. að kveða á um hámark lausagangs, í ljósi þess að óheimilt er að skilja ökutæki eftir í gangi þegar þau eru yfirgefin, sbr. reglugerð nr. 788/1999 um varnir gegn loftmengun af völdum hreyfanlegra uppsprettna?
    Um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands fer samkvæmt forsetaúrskurði um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands, nr. 119/2018.
    Samkvæmt 9. gr. úrskurðarins fer umhverfis- og auðlindaráðuneyti með mengunarmál, þ.m.t. loftmengun. Í e-lið 8. tölul. 9. gr. eru loftgæði talin upp. Í a-lið 10. tölul. 9. gr. er losun gróðurhúsalofttegunda talin til.
    Málefnið heyrir því undir umhverfis- og auðlindaráðuneytið og rétt að beina fyrirspurn til umhverfis- og auðlindaráðherra um nauðsyn þess að setja reglur um það.

     2.      Hafa þeir sem nýta sér bifreiðar á vegum ráðuneytisins, undirstofnana og fyrirtækja fengið fræðslu um skaðsemi lausagangs bifreiða? Hefur ráðherra hvatt til þess að stofnanir og fyrirtæki kanni eða fylgist með hvort starfsmenn skilji bifreiðar eftir í lausagangi og tryggi að starfsmenn fái fræðslu um skaðsemi lausagangs bifreiða?
    Haft var samband við stofnanir og fyrirtæki á vegum samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins: Byggðastofnun, Isavia, rannsóknarnefnd samgönguslysa, Póst- og fjarskiptastofnun, Samgöngustofu, Vegagerðina og Þjóðskrá.
    Allir framangreindir aðilar huga að umhverfismálum þegar kemur að vali á ökutækjum og notkun þeirra. Isavia hefur t.d. staðið að átaki til þess að draga úr lausagangi bifreiða. Aðilar miða við að kaupa bifreiðar sem hafa eins lítil áhrif á umhverfið og mögulegt er, m.a. bifreiðar sem drepa sjálfvirkt á sér þegar aðstæður leyfa. Stundum vega tilteknir þættir þungt við val stofnana á ökutækjum, svo sem drægni og tog, sem þrengir val um umhverfisvæn ökutæki.
    Ýmsar hugmyndir hafa komið fram um hvernig megi gera betur, t.d. bjóða vistakstursnámskeið, að óska sérstaklega eftir vistvænum leigubifreiðum þegar þannig stendur á, einnig að hvetja starfsmenn til að hjóla, ganga eða nota almenningssamgöngur þegar þeir þurfa að fara á milli staða vinnu sinnar vegna.
    Rétt er að benda á að í ökunámi er farið yfir mengun af völdum bifreiða, m.a. losun gróðurhúsalofttegunda frá þeim og skaðsemi þess að láta vélar bifreiða ganga í lausagangi. Þá er ökumönnum með aukin ökuréttindi gert að sitja endurmenntunarnámskeið þar sem m.a. er frætt um lausagang bifreiða og skaðsemi hans. Hjá Vegagerðinni starfar nokkur fjöldi ökumanna með aukin ökuréttindi. Þó svo að alltaf megi betur gera er metið svo að ökumenn séu almennt meðvitaðir um skaðsemi lausagangs og ekki þörf á sérstakri fræðslu umfram þá sem er í ökunámi.