Ferill 950. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 1843  —  950. mál.
Svar


samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra við fyrirspurn frá Vilhjálmi Árnasyni um framkvæmdir sem tengjast sameiningaráformum sveitarfélaga.


     1.      Hvaða framkvæmdir í samgönguáætlun og byggðaáætlun tengjast sameiningaráformum sveitarfélaga og tengja betur nýtengd eða væntanlega tengd sveitarfélög?
    Við forgangsröðun framkvæmda er tekið mið af þörfum einstakra svæða fyrir bættar samgöngur til að efla sveitarfélög, styrkja hvert svæði og landið allt. Stytting ferðatíma, uppbygging vega með bundnu slitlagi og gerð jarðganga til að leysa af hólmi erfiða fjallvegi skapa betri skilyrði fyrir jákvæða byggðaþróun og eflingu einstakra atvinnu- og þjónustusvæða.
    Bæði í samgönguáætlun og byggðaáætlun er fjallað um greiðar og bættar samgöngur. Byggðaáætlun er í eðli sínu aðgerðaáætlun en ekki framkvæmdaáætlun. Sé tekin aðgerð sem snertir svið þessarar fyrirspurnar má nefna aðgerð sem hefur það að markmiði að styðja við þróun almenningssamgangna um land allt. Fleiri aðgerðir má nefna, svo sem ýmsar aðgerðir til að efla atvinnulíf og samfélög með öðrum hætti. Í þessu svari er miðað við framkvæmdir og því er eingöngu tekið mið af samgönguáætlun.
    Markmiðið er að samþætta samgönguáætlun við aðra áætlanagerð og opinbera stefnumótun, bæði sveitarfélaga og ríkis. Á sviði ráðuneytisins eru samgönguáætlun, byggðaáætlun og fjarskiptaáætlun. Við gerð áætlana er samráð því mikilvægt.
    Hér verður gerð grein fyrir þeim framkvæmdum sem er að finna í samþykktri samgönguáætlun 2019–2033 og tengjast sveitarfélögum sem nýlega hafa sameinast eða eru í viðræðum um sameiningu.
    Rétt er að benda á að flestar framkvæmdir í samgöngumálum eru í eðli sínu aðgerðir í byggðamálum. Það er í þeim skilningi að þær auðvelda samgang og stytta ferðatíma. Sumar aðgerðir í byggðamálum auðvelda samgöngur við jaðarbyggðir. Slíkar framkvæmdir eru annars eðlis en þær sem hér er spurt um og er eingöngu miðað við framkvæmdir sem tengjast sameiningu sveitarfélaga sem eru í bígerð eða nýlega afstaðnar.
    Eingöngu er miðað við vegamál og hafnamál. Engin uppbygging í flugi tengist beint því sem spurt er um. Öll uppbygging í flugmálum telst þó byggðamál í þeim skilningi sem komið var inn á.

A.     Sandgerði og Garður sameinuðust árið 2018 og urðu Suðurnesjabær.
     Vegamál: Vegagerðin hefur til umráða tiltekna fjárhæð til göngu- og hjólreiðastíga á landinu öllu. Vegagerðin hefur samþykkt að styrkja gerð göngu- og hjólreiðastígs í Suðurnesjabæ á milli þéttbýliskjarnanna Garðs og Sandgerðis á árunum 2019–2021.
     Hafnamál og sjóvarnir: Framkvæmdir við fyrsta áfanga endurbyggingar Suðurbryggju í Sandgerði hafa verið í gangi undanfarin ár og ætti að ljúka á þessu ári. Fyrirhugað er að hefja framkvæmdir við seinni áfangann á árinu 2023.
    Á árunum 2020 og 2022 er áætlað að fara í framkvæmdir við sjóvarnir á nokkrum stöðum í Sandgerðisbæ.
    Áætlað er að fara í dýpkun við löndunarkrana á Norðurgarði í Sandgerðishöfn árið 2021.
    Framkvæmdir við sjóvörn í Garði eru áætlaðar á árinu 2022.

B.     Breiðdalsvík og Fjarðabyggð sameinuðust árið 2018 undir nafni Fjarðabyggðar.
     Vegamál: Á árunum 2024–2033 er lagt til að gerðar verði verulegar endurbætur á Hringvegi í Fjarðabyggð frá Reyðarfirði til Stöðvarfjarðar. Þar er um að ræða tengingu milli Breiðdalsvíkur og annarra þéttbýliskjarna í Fjarðabyggð.
     Hafnamál og sjóvarnir: Fyrirhugað er að fara í framkvæmdir við flotbryggju á Breiðdalsvík árið 2019.
    Á árinu 2021 er áætlað að fara í framkvæmdir við sjóvarnir á Eskifirði, Norðfirði, Fáskrúðsfirði og Stöðvarfirði.

C.     Borgarfjarðarhreppur, Fljótsdalshérað, Seyðisfjörður og Djúpivogur munu kjósa um sameiningu 26. október 2019.
     Vegamál: Borgarfjarðarvegur milli Borgarfjarðar eystri og Egilsstaða verður byggður upp og lagður bundnu slitlagi á árunum 2019–2023. Á árunum 2018–2020 verða kaflarnir um Vatnsskarð og Njarðvíkurskriður unnir. Kaflinn milli Eiða og Laufáss er á áætlun 2022– 2023. Hér er um að ræða tengingu milli Borgarfjarðarhrepps og Fljótsdalshéraðs.
    Nú eru framkvæmdir í gangi við lagningu bundins slitlags á Skriðdals- og Breiðdalsveg frá Skriðuvatni að Axarvegi. Á árunum 2024–2033 er lagt til að farið verði í framkvæmdir á Axarvegi á milli Skriðdals og Berufjarðar. Hér er um að ræða tengingu milli Djúpavogs og Fljótsdalshéraðs.
    Lagt er til að farið verði í framkvæmdir við Fjarðarheiðargöng á árunum 2024–2033. Þar er um að ræða tengingu milli Seyðisfjarðar og Fljótsdalshéraðs.
     Hafnamál og sjóvarnir: Fyrirhugað er að fara í framkvæmdir við Angórabryggju á Seyðisfirði á árunum 2021–2023.
    Hefja á endurbyggingu Bjólfsbakka á Seyðisfirði árið 2023.
    Á Djúpavogi er fyrirhugað að hefja framkvæmdir við hafskipabryggju árið 2022.
    Áætlað að fara í framkvæmdir við sjóvörn við Borg í Njarðvík á árinu 2023 í Borgarfjarðarhreppi.

D.     Formlegar sameiningarviðræður eru nú í gangi hjá þessum sveitarfélögum: Húnavatnshreppur, Húnaþing vestra, Skagaströnd, Skagabyggð og Blönduóssbær.
     Vegamál: Á árunum 2021–2022 verður farið í framkvæmdir á nýjum Þverárfjallsvegi frá Blönduóssbæ að Skagastrandarvegi við Höskuldsstaði í Skagabyggð. Ný brú verður þá byggð á Laxá. Þessi vegur kemur í stað núverandi Skagastrandarvegar. Á honum eru margar blindhæðir og mörg gatnamót. Einnig liggur sá vegur þvert í gegnum fjar- og grannsvæði vatnsverndarsvæði Blönduóssbæjar. Hér er um að ræða tengingu milli Blönduóssbæjar og Skagabyggðar/Skagastrandar.
     Hafnamál og sjóvarnir: Nú eru í gangi framkvæmdir við smábátahöfn á Skagaströnd sem eiga að klárast á þessu ári.
    Fyrirhugað er að fara í framkvæmdir við endurbyggingu Ásgarðs á Skagaströnd á árunum 2021–2023.
    Á árinu 2021 er fyrirhugað að fara í framkvæmdir við sjóvörn hjá Borgum í Hrútafirði í Húnaþingi vestra.
    Fyrirhugaðar eru framkvæmdir við sjóvarnir á Blönduósi árið 2021.
    Á Skagaströnd er fyrirhugað að fara í framkvæmdir við sjóvörn við Réttarholt að Sólvangi á árinu 2022.
    Í Skagabyggð er áætlað að fara í framkvæmdir við sjóvarnir við Krók og við Kálfshamarsnes á árinu 2023

     2.      Hvaða aðrar framkvæmdir eða áætlanir telur ráðherra að stuðli að betri samtengingu svæða og auðveldi sameiningu sveitarfélaga?
    Aðrar framkvæmdir sem stuðla að betri samtengingu svæða og gætu auðveldað sameiningu sveitarfélaga og er að finna í samþykktri samgönguáætlun fyrir árin 2019–2033 eru eftirfarandi:
     Vegamál:
     1.      Vestfjarðavegur um Gufudalssveit, Dynjandisheiði og Dýrafjarðargöng.
     2.      Bíldudalsvegur frá Bíldudalsflugvelli og að Vestfjarðarvegi á Dynjandisheiði.
     3.      Dettifossvegur.
     4.      Norðausturvegur um Brekknaheiði og um Langanesströnd (í framkvæmd 2019–2021).
     Hafnamál:
    Erfiðara er að benda á sambærilegar framkvæmdir í hafnamálum. Hafnaframkvæmdir mundu fremur stuðla að betri nýtingu fjár með minni og sérhæfðari fjárfestingum og hagræðingu í rekstrarkostnaði. Slíkt kæmi upp þegar hugmyndum að sameiningu sveitarfélga yrði varpað fram. Sem dæmi mætti nefna öll sveitarfélög og þar með allar hafnir á Snæfellsnesi. Yrði sú raunin yrði höfnum markað hlutverk í kjölfarið og fjárfestingum hagað í samræmi við það.