Ferill 765. máls. Ferill 790. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 1884  —  765. og 790. mál.
3. umræða.



Nefndarálit


um frumvarp til laga um Seðlabanka Íslands og frumvarp til laga um breytingar á ýmsum lögum vegna sameiningar Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins.

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Við 2. umræðu um frumvörpin lagði 1. minni hluti nefndarinnar fram breytingartillögu við frumvarp til laga um Seðlabanka Íslands á þingskjali 1829. Í breytingartillögunni felst í fyrsta lagi að kröfur til hæfni fulltrúa í bankaráði Seðlabankans verði auknar, í öðru lagi að verkefni bankaráðs verði nánar skilgreind, í þriðja lagi að formennska fjármálaeftirlitsnefndar verði að jafnaði í höndum varaseðlabankastjóra fjármálaeftirlits í stað seðlabankastjóra, í fjórða lagi að fjallað skuli um árangur markmiða í ársskýrslu Seðlabankans, í fimmta lagi að fram skuli fara ytra mat á starfsemi Seðlabankans á fimm ára fresti og í sjötta lagi að innan tveggja ára frá gildistöku laganna skuli vinna skýrslu um reynsluna af starfi nefnda Seðlabankans með nánar tilgreindum hætti.

Breytingartillaga 1. minni hluta við frumvarp til laga um Seðlabanka Íslands.
Hæfni fulltrúa og hlutverk bankaráðs (6. og 8. gr.).
    Í 1. mgr. 6. gr. frumvarpsins er fjallað um kosningu Alþingis á fulltrúum bankaráðs. Í ákvæðinu eru engar kröfur gerðar um hæfni fulltrúa í bankaráði. 1. minni hluti leggur til að tilmæli um hæfni bankaráðsfulltrúa bætist við ákvæðið þannig að tekið verði fram að þeir skuli búa yfir staðgóðri þekkingu á stjórnsýslu og regluverki um Seðlabanka Íslands. Jafnframt skuli leitast við að meðal þeirra fulltrúa sem skipa bankaráð á hverjum tíma sé að finna víðtæka þekkingu á íslensku efnahagslífi, fjármálamarkaði, stjórnun og rekstri.
    Um hlutverk bankaráðs er fjallað í 8. gr. frumvarpsins þar sem fram kemur að ráðið hafi eftirlit með því að Seðlabanki Íslands starfi í samræmi við lög sem um starfsemina gilda. Sérstaklega eru talin nokkur verkefni sem bankaráð skal sinna. Leggur 1. minni hluti til að við upptalninguna bætist að bankaráð skuli staðfesta starfsreglur peningastefnunefndar, fjármálastöðugleikanefndar og fjármálaeftirlitsnefndar, sbr. 11., 14. og 16. gr. frumvarpsins.

Skipan fjármálaeftirlitsnefndar (15. gr.).
    Verði frumvörpin að lögum mun fjármálaeftirlitsnefnd Seðlabanka Íslands hafa með höndum þau hlutverk sem Fjármálaeftirlitinu eru falin samkvæmt lögum og stjórnvaldsfyrirmælum. Um hlutverk og skipan fjármálastöðugleikanefndar er fjallað í 15. gr. frumvarpsins og skv. 2. mgr. hennar er seðlabankastjóri formaður nefndarinnar og varaseðlabankastjóri fjármálaeftirlits staðgengill hans. Skv. 2. málsl. 1. mgr. má fela varaseðlabankastjóra fjármálaeftirlits að taka ákvarðanir sem ekki teljast meiri háttar.
    Við fyrri umfjöllun nefndarinnar um frumvörpin komu ítrekað fram sjónarmið sem mæltu gegn því að viðskiptaháttaeftirlit yrði á hendi hinnar sameinuðu stofnunar. Hlutverkinu fylgdi orðsporsáhætta sem gæti rýrt trúverðugleika bankans og haft neikvæð áhrif á starfsemi hans á öðrum sviðum. Í umsögn Seðlabankans til nefndarinnar var m.a. bent á að til að sporna við þessari áhættu mætti fara þá leið að seðlabankastjóri sæti ekki í fjármálaeftirlitsnefnd. Það væri þó háð annmörkum, m.a. þar sem nefndinni væri falið að taka ákvarðanir um reglusetningu varðandi eigin- og lausafjárkröfur á kerfislega mikilvæg fjármálafyrirtæki.
    Í því skyni að draga úr orðsporsáhættu og milda áhrif þeirrar miklu samþjöppunar valds sem felst í sameiningu Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins leggur 1. minni hluti til breytingu á skipan fjármálaeftirlitsnefndar þannig að seðlabankastjóri eigi almennt ekki sæti í nefndinni og að varaseðlabankastjóri fjármálaeftirlits veiti nefndinni að jafnaði formennsku. Seðlabankastjóri taki þó sæti í nefndinni, og veiti henni formennsku, við töku ákvarðana um setningu starfsreglna hennar, framsal ákvörðunarvalds til varaseðlabankastjóra fjármálaeftirlits og ákvarðana sem varða eigið fé, laust fé og fjármögnun kerfislega mikilvægra fjármálafyrirtækja.

Efni ársskýrslu Seðlabankans (34. gr.).
    Samkvæmt 34. gr. frumvarpsins skal Seðlabankinn gera skýrslur og áætlanir um ýmis atriði sem hlutverk og stefnu hans varðar. Skv. 2. málsl. ákvæðisins skal bankinn gefa út ársskýrslu þar sem ítarlega er gerð grein fyrir starfsemi hans. Ekki er að nánara leyti skýrt hvað koma skuli fram í ársskýrslu bankans. Leggur 1. minni hluti til að fram verði tekið að í ársskýrslunni skuli fjallað um árangur við að ná markmiðum bankans. Er þar einkum átt við verðbólgumarkmið, sbr. 2. mgr. 2. gr. frumvarpsins, markmið um gengi íslensku krónunnar, sbr. 3. mgr. 2. gr., og eiginfjármarkmið, sbr. 39. gr., auk markmiða um efnahagslegan og fjármálalegan stöðugleika og stöðugt verðlag.

Ytra mat (ný grein).
    Í 6. tölul. breytingartillögu 1. minni hluta er lagt til að við frumvarpið bætist grein um að á fimm ára fresti skuli ráðherra fela þremur óháðum sérfræðingum að gera úttekt um hvernig Seðlabanka Íslands hafi tekist að uppfylla markmið um stöðugt verðlag, fjármálastöðugleika og framkvæmd fjármálaeftirlits. Skal einn af þessum sérfræðingum hafa haldgóða þekkingu á íslensku efnahagslífi en hinir tveir hafa víðtæka þekkingu og reynslu af alþjóðlegri fjármálastarfsemi og rekstri seðlabanka utan Íslands. Meiri hlutinn telur að í þessu felist að leitað verði til tveggja sérfræðinga erlendis frá til að vinna úttektina hverju sinni. Þannig verði tryggt að staðbundin þekking á íslenskum aðstæðum sé til staðar innan þess hóps sem vinnur úttektina en að meiri hluti hópsins komi að verkinu utan frá með tilhlýðilega alþjóðlega þekkingu og reynslu. Tilgangi ytra matsins verði þannig best náð.

Mat á reynslu (nýtt bráðabirgðaákvæði).
    Í breytingartillögu meiri hluta nefndarinnar við 2. umræðu á þingskjali 1650 var m.a. lagt til að í bráðabirgðaákvæði við lögin yrði kveðið á um að meta skyldi reynsluna af starfi nefnda Seðlabankans með hliðsjón af skiptingu verka milli fjármálastöðugleikanefndar og fjármálaeftirlitsnefndar innan tveggja ára frá gildistöku laganna. 1. minni hluti leggur til að í sambærilegu bráðabirgðaákvæði verði tekið fram að þrír óháðir sérfræðingar skuli vinna skýrslu þar sem reynslan að þessu leyti verði metin auk þess sem sérstaklega verði lagt mat á reynsluna af varúðar- og viðskiptaháttaeftirliti innan bankans og mögulega orðsporsáhættu vegna þess. Ráðherra flytji Alþingi skýrsluna fyrir árslok 2021. Meiri hlutinn lítur svo á að við valið á þeim sérfræðingum sem vinna munu skýrsluna skuli horft til sömu sjónarmiða og rakin voru að framan um þá sérfræðinga sem vinna skulu úttekt á starfsemi bankans á fimm ára fresti.

Tillaga um afgreiðslu.
    Breytingartillaga 1. minni hluta kom ekki til atkvæða við 2. umræðu og verður lögð fram að nýju við 3. umræðu. Meiri hlutinn styður breytingartillögu 1. minni hluta og mælir með samþykkt hennar. Nefndarmenn ríkisstjórnarflokka leggja til að frumvörpin verði samþykkt svo breytt.

Alþingi, 19. júní 2019.

Óli Björn Kárason,
form., frsm.
Brynjar Níelsson. Bryndís Haraldsdóttir.
Oddný G. Harðardóttir. Ólafur Þór Gunnarsson. Silja Dögg Gunnarsdóttir.
Smári McCarthy. Þorgerður K. Gunnarsdóttir.