Ferill 847. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 1888  —  847. mál.
Svar


mennta- og menningarmálaráðherra við fyrirspurn frá Unu Hildardóttur um æskulýðsstefnu og æskulýðslög.


     1.      Stendur til að endurskoða æskulýðslög, nr. 70/2007, áður en æskulýðsstefna stjórnvalda verður mótuð?
    Hafin er vinna við mótun æskulýðsstefnu fyrir Ísland til ársins 2030. Í þeirri vinnu verða æskulýðslög rýnd og þá hugað að breytingum í ljósi framkvæmdar laganna.

     2.      Mun vinna við æskulýðsstefnu stjórnvalda áfram fara fram í mennta- og menningarmálaráðuneyti eða færist hún yfir til félagsmálaráðuneytis í ljósi breytinga á skipan ráðuneyta í ársbyrjun 2019?
    Samkvæmt forsetaúrskurði um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands nr. 119/2018, sem tók gildi 11. janúar 2019, fer mennta- og menningarmálaráðuneyti með æskulýðsmál, þar á meðal Æskulýðsráð ríkisins, æskulýðssjóð og frjáls félagasamtök. Félagsmálaráðuneyti fer með barnavernd og Barnaverndarstofu. Að framsögðu þá mun vinna við mótun æskulýðsstefnu stjórnvalda halda áfram innan mennta- og menningarmálaráðuneytis.