Ferill 827. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 1890  —  827. mál.
Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Halldóru Mogensen um fæðingar ósjúkratryggðra kvenna.

    

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hversu margar ósjúkratryggðar konur fæddu börn árlega á heilbrigðisstofnun hér á landi sl. 5 ár?
     2.      Hversu hátt hlutfall þeirra greiddi að fullu fyrir fæðingarþjónustu, þ.m.t. mæðravernd?
     3.      Hversu hátt var hlutfall þeirra sem voru orðnar sjúkratryggðar 6 mánuðum eftir fæðingu barns?


    Leitað var svara við fyrirspurninni hjá heilbrigðisstofnunum og sjúkrahúsum. Upplýsingar sem fyrir liggja og úrvinnsla þeirra er mismunandi milli stofnana. Af þeim sökum var talið rétt að birta aðgreind svör fyrir þær stofnanir sem leitað var til.
    Svör þeirra stofnana sem sinntu þremur eða fleiri fæðingum ósjúkratryggðra kvenna á því tímabili sem spurt er um má sjá í eftirfarandi töflu. Svör þeirra sem sinntu færri fæðingum eða höfðu ekki tök á að ná fram umbeðnum upplýsingum eru í texta fyrir neðan töfluna.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.    Á Heilbrigðisstofnun Vestfjarða hefur engin ósjúkratryggð kona fætt sl. 5 ár. Það hefur komið fyrir að ósjúkratryggðar konur hafi komið í mæðraskoðanir hjá stofnuninni sem þær hafa greitt fyrir samkvæmt gjaldskrá. Oftast er um að ræða konur sem urðu sjúkratryggðar síðar á meðgöngu eða ferðamenn.
    Í sjúkraskrárkerfi Sögu, sem heldur utan um sjúklingaupplýsingar, er ekki hægt að meta afturvirkt tryggingastöðu sjúklinga. Því er ekki hægt að meta út frá sjúkraskrá hvort konur sem fæddu á HSA á því tímabili sem spurt er um voru sjúkratryggðar hér á landi við fæðingu barns. Engin kona var í það minnsta krafin um greiðslu kostnaðar við fæðingu á þeim tíma sem spurt er um.
    Á Heilbrigðisstofnun Suðurlands fæddi ein ósjúkratryggð kona á því tímabili sem spurt er um, árið 2014. Viðkomandi varð sjúkratryggð sama dag og barnið fæddist.