Ferill 746. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 1891  —  746. mál.
Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Söru Elísu Þórðardóttur um greiðslur lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu til sérfræðinga.


     1.      Hversu háa fjárhæð hefur embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu greitt til lögmannsstofa fyrir ráðgjöf vegna starfsmannamála og málareksturs einstakra starfsmanna frá því að núverandi lögreglustjóri kom til starfa við embættið 1. september 2014?
    Fjárhæð að upphæð 1.038.875 kr. hefur verið greidd til lögmannsstofa í tengslum við starfsmannamál og málarekstur einstakra starfsmanna. Að meginstefnu eru slík mál unnin af starfsmönnum embættis lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, embætti ríkislögmanns og jafnframt Kjara- og mannauðssýslu ríkisins sem er opinberum stofnunum til ráðgjafar í starfsmannamálum.

     2.      Hversu háa fjárhæð greiddi embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu til almannatengslafyrirtækja, sundurliðað eftir fyrirtækjum, á árunum 2014–2015, vegna umfjöllunar fjölmiðla um aðild lögreglustjóra að svokölluðu „lekamáli“?
    Fjárhæð að upphæð 987.750 kr. hefur verið greidd til almannatengslafyrirtækisins KOM vegna aðstoðar og ráðgjafar á árunum 2014–2015.

     3.      Hversu háa fjárhæð hefur embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu greitt til sérfræðinga vegna ætlaðra eineltismála við embættið frá því að núverandi lögreglustjóri kom til starfa við embættið 1. september 2014?
    Fjárhæð að upphæð 9.040.450 kr. hefur verið greidd til sálfræðinga á embættistíma núverandi lögreglustjóra. Vakin er athygli á því að framangreind upphæð á við um heildarkostnað embættis lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu til sálfræðinga. Sérfræðikostnaður vegna ætlaðra eineltismála liggur ekki fyrir þar sem ekki er hægt að greina heildarkostnað ætlaðra eineltismála. Starfsfólk lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu hefur fengið sálfræðiráðgjöf vegna ýmissa mála, til að mynda persónuleg vandamál starfsfólks, áfallahjálp, úrlausn eineltismála, aðstoð við fjölskyldur lögreglumanna, fráfall starfsfólks, samskiptavandamál, stjórnendaaðstoð o.fl.
    Kostnaður vegna sálfræðiþjónustu er ekki flokkaður með nákvæmari hætti í bókhaldi embættisins vegna persónuverndarsjónarmiða og í þeim tilgangi að starfsmenn geti verið fullvissir um að ekki sé hægt að rekja kostnað til einstakra starfsmanna. Slíkt gæti leitt til þess að starfsfólk veigri sér við að sækja þjónustuna.
    Undanfarin ár hefur starfsmönnum embættisins fjölgað og viðhorf breyst í þá átt að aðstoð sérfræðinga ætti að vera aðgengilegri. Í öllum tilvikum er fjarlægð frá embættinu nauðsynleg til að aðstoðin verði trúverðug og því er leitað til ytri ráðgjafa í meira mæli en áður tíðkaðist.

     4.      Hversu háa fjárhæð hefur embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu greitt til sálfræðinga vegna samskiptavandamála frá því að núverandi lögreglustjóri kom til starfa við embættið 1. september 2014?
    Líkt og fram kemur í 3. tölul. fyrirspurnar er kostnaður vegna sálfræðiþjónustu ekki aðgreindur eftir tilefni þjónustunnar

     5.      Hvað eru eða hafa verið rekin mörg dómsmál þar sem starfsmenn embættis lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu eða fyrrverandi starfsmenn þess hafa stefnt íslenska ríkinu vegna ákvarðana lögreglustjóra gagnvart þeim í starfi? Hver hefur niðurstaða þessara dómsmála verið og hvað hefur ríkið þurft að greiða viðkomandi starfsmönnum í bætur og málskostnað?
    Tvö mál hafa verið höfðuð og rekin á hendur íslenska ríkinu sem falla undir spurninguna, sbr. dómar Hæstaréttar nr. 816/2017 og 827/2017.
    Með dómi Hæstaréttar 11. október 2018 í máli nr. 816/2017 var íslenska ríkinu gert að greiða lögreglumanni hjá embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu 1.500.000 krónur í miskabætur og 2.500.000 krónur í málskostnað. Þá var með dómi Hæstaréttar 11. október 2018 í máli nr. 827/2017 felld úr gildi ákvörðun lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu frá árinu 2016 um breytingu á starfsskyldum lögreglumanns hjá embættinu. Hafði héraðsdómur áður sýknað íslenska ríkið af kröfum lögreglumannsins. Voru lögreglumanninum dæmdar 1.500.000 krónur í miskabætur auk 366.720 króna kostnaðar sem hún hafði orðið fyrir vegna ákvörðunarinnar.

     6.      Hversu margir samningar hafa verið gerðir um starfslok einstakra starfsmanna embættis lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu eða tilfærslu til annarra starfa frá því að núverandi lögreglustjóri kom til starfa við embættið 1. september 2014 og hver er kostnaður ríkissjóðs vegna þessara samninga eða tilfærslna? Óskað er eftir að samanburður verði tekinn við sambærilegt fjögurra ára tímabil á undan.
    Frá 1. september 2014 hefur einn starfslokasamningur verið gerður hjá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu. Á fjögurra ára tímabili þar á undan voru gerðir tveir starfslokasamningar hjá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu.
    Í framangreindum tilvikum var ekki ráðið í starf viðkomandi eða störfum fjölgað á móti vegna starfslokanna og var því ekki um kostnaðaraukningu að ræða.
    Hvað varðar tilfærslur í starfi, þá geta þær farið fram á grundvelli 2. mgr. 7. gr., 19. gr., og 36. gr. starfsmannalaga, nr. 70/1996, ýmist tímabundið eða varanlega, og væri því afar umfangsmikið að greina allar tilfærslur sem hafa átt sér stað. Ógerlegt er að svara þeim hluta fyrirspurnarinnar í stuttu máli, sbr. 1. mgr. 57. gr. laga nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis.