Ferill 915. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 1897  —  915. mál.
Svar


sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við fyrirspurn frá Ingu Sæland um humarveiðar.


     1.      Hver var árlegur fjöldi skipa sem stunduðu humarveiðar á árunum 2000–2018?
    Fiskveiðiárið 1999/2000 stunduðu 34 bátar humarveiðar. Humarbátar urðu flestir 44 fiskveiðiárið 2002/2003, en hefur síðan fækkað. Á yfirstandandi fiskveiðiári 2018/2019 hafa 6 bátar stundað humarveiðar, sjá eftirfarandi svar Fiskistofu.

Fjöldi skipa sem stunduðu humarveiðar fiskveiðiárin 99/00 – 18/19     
Fiskveiðiár 99/00 00/01 01/02 02/03 03/04 04/05 05/06 06/07 07/08 08/09
Samtals 34 37 37 44 30 30 30 24 25 21

Fiskveiðiár 09/10 10/11 11/12 12/13 13/14 14/15 15/16 16/17 17/18 18/19
Samtals 21 18 18 19 17 17 14 10 9 6

     2.      Hver var þróun á vélarafli og togkrafti skipa sem stunduðu humarveiðar á fyrrgreindu árabili?
    Fiskistofa hefur ekki gögn um vélarafl skipa. Stofnunin hefur við úthlutun aflamarks kannað árlega (skipaskrá Siglingastofnunar/Samgöngustofu) hvort viðkomandi bátur sé innan þeirra stærðarmarka sem kveðið er á um í reglugerð, en stofnunin hefur ekki haldið lista yfir þau skip. Upplýsingar um togkraft skipa eru almennt ekki skráðar.
    Hámarksstærð báta sem mega stunda humarveiðar hefur breyst frá árinu 2000, sbr. eftirfarandi reglugerðarákvæði:
          Árið 2000 var bátum sem voru 210 brl. eða minni heimilt að stunda humarveiðar. Þó var skipum sem búin voru 900 hestafla aðalvél eða stærri óheimilt að stunda humarveiðar.
          Árið 2002 var bátum sem voru 300 brl. eða minni heimilt að stunda humarveiðar, enda væru þeir búnir 740 kílówatta aðalvél eða minni.
          Árið 2004 voru humarveiðar aðeins heimilar fiskiskipum sem voru 300 brl. og minni enda væru þau búin 740 kílówatta aðalvél eða minni.
          Frá árinu 2017 hafa humarveiðar verið heimilar fiskiskipum sem eru 50 metrar að skráningarlengd eða styttri.

     3.      Hver var þróun í stærð, þunga og gerð veiðarfæra við humarveiðar á sama árabili?
    Samkvæmt meðfylgjandi greinargerð Hafrannsóknastofnunar, sem byggist á upplýsingum úr afladagbókum, hefur humartrollið lítið breyst á umræddu tímabili. Fleiri bátar toga nú með tvö troll í stað eins áður. Hlerar hafa stækkað og þyngst, en með tilkomu tveggja trolla fækkar hlerum um tvo á hverja toglengd. Á móti kemur þegar notuð eru tvö troll þá er notaður klumpur eða lóð á milli humartrollanna og um þann búnað eru engar tiltækar upplýsingar. Lóðin hafa þó þróast frá föstum klump yfir í rúllandi kefli.
    Í svari Hafrannsóknastofnunar er einnig minnst á gildruveiðar sem lítt hafi verið stundaðar við Ísland. Ef litið er til helstu veiðiþjóða erlendis er það einungis í Skotlandi sem leturhumar er veiddur í gildrur svo nokkru nemi. Árið 2015 voru t.d. tæplega 10% aflans veidd í gildrur þar í landi.

     4.      Hafa stjórnvöld hvatt til breyttra aðferða við veiðar á humri, svo sem að teknar verði upp gildruveiðar í stað togveiða?
    Stjórnvöld hafa ekki hvatt til tiltekinna aðferða við humarveiðar og undanfarin ár farið að ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar í hvívetna.


Fylgiskjal.


Greinargerð Hafrannsóknastofnunar, sbr. 3. lið fyrirspurnarinnar.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.