Ferill 702. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 1901  —  702. mál.




Svar


sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við fyrirspurn frá Ingu Sæland um rannsóknir á stofnum og nýtingu miðsjávarfiska.


    Fyrirspurnin var send Hafrannsóknastofnun til úrlausnar og síðar var leitað svara við 2. tölul. hjá MATÍS samkvæmt ábendingu frá Hafrannsóknastofnun. Greinargerðir beggja fylgja með.

     1.      Hvaða rannsóknir hafa verið stundaðar frá 2010 á magni og útbreiðslu miðsjávarfiska (gulldeplu og laxsíldar) í lögsögu Íslands?
    Í greinargerð Hafrannsóknastofnunar kemur fram að tilraunaveiðar á norrænu gulldeplu hafi hafist 2008 og staðið til 2011, en engum afla hafi verið landað árin 2012 til 2018. Þá segir að lítið sé vitað um útbreiðslu eða magn gulldeplu og annarra miðsjávarfiska í heimshöfunum, en talið sé að útbreiðsla til norðurs takmarkist við mörk hlýsjávar. Hafrannsóknastofnun stóð fyrir leiðangri árið 2010 til að kortleggja útbreiðslu og magn gulldeplu á Íslandsmiðum með bergmálsaðferð, en síðan hafa engar beinar rannsóknir farið fram á gulldeplu. Þá er í greinargerð Hafrannsóknastofnunar fjallað um laxsíld og vísast til greinargerðarinnar um frekari svör.

     2.      Hafa farið fram rannsóknir og þróunarvinna á sama tímabili á vegum stofnana hér á landi varðandi veiðar og vinnslu á þessum fisktegundum?
    Hafrannsóknastofnun hefur ekki stundað rannsóknir eða þróunarvinnu varðandi veiðar og vinnslu á miðsjávarfiskum, en er þátttakandi í verkefni sem hefst 2020 og styrkt er af Horizon-2020 áætlun ESB, þar sem eitt af meginverkefnunum er að skoða mögulega nýtingu laxsílda í mjöl, meltu eða til manneldis.
    Í greinargerð MATÍS eru raktar tilraunir sem fram fóru 2006 og síðan 2009 til 2011 með veiðar og vinnslumöguleika gulldeplu.

     3.      Hafa stjórnvöld einhver áform um að auka rannsóknir og hvetja til þróunarvinnu varðandi nýtingu á þessum fisktegundum?
    Fram kemur í greinargerð Hafrannsóknastofnunar að auk aðildar að framangreindu verkefni sé stofnunin þátttakandi í alþjóðlegu rannsóknaverkefni, MEESO (ecologically and economically sustainable mesopelagic fisheries), sem beinist að lífríki miðsjávarins í Norður-Atlantshafi. Verkefnið beinist að því að afla frekari þekkingar á magni, dreifingu og tegundasamsetningu, sem og framleiðni og nýtingarmöguleikum lykiltegunda í miðsjávarlögunum og ennfremur hlutverki þeirra í kolefnisbúskap hafsins. Ráðuneytið telur mikilvægt að þessar rannsóknir séu stundaðar og Hafrannsóknastofnun taki virkan þátt í þeim eftir því sem geta leyfir.
Fylgiskjal I.


Hafrannsóknastofnun, greinargerð:

www.althingi.is/altext/pdf/149/fylgiskjol/s1901-f_I.pdf




Fylgiskjal II.


Matís, greinargerð:

www.althingi.is/altext/pdf/149/fylgiskjol/s1901-f_II.pdf