Ferill 958. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 1902  —  958. mál.




Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Ingu Sæland um tvöfalt ríkisfang.


    Við vinnslu fyrirspurnarinnar var óskað eftir upplýsingum frá Þjóðskrá Íslands.

     1.      Hversu margir hafa tvöfalt ríkisfang á Íslandi og hvernig er skiptingin eftir ríkisföngum?
    Ekki er unnt að nálgast upplýsingar um hversu margir hafa tvöfalt ríkisfang á Íslandi. Samkvæmt upplýsingum frá Þjóðskrá Íslands hefur stofnunin aldrei haldið upplýsingar um hvort einstaklingur hafi tvöfalt ríkisfang. Í núverandi kerfi þjóðskrár er einungis reitur fyrir skráningu á einu ríkisfangi og ef einstaklingur er íslenskur ríkisborgari er hið íslenska ríkisfang skráð í þann reit. Ekki hafa verið gerðar kröfur til stofnunarinnar að halda utan um tvöfalt ríkisfang. Þá gæti verið erfitt fyrir Þjóðskrá Íslands að halda uppfærðar upplýsingar um erlend ríkisföng einstaklinga sem skráðir eru hér á landi, enda byggist ákvörðun um það hvort erlendur ríkisborgari haldi sínu fyrra ríkisfangi, öðlist hann íslenskt ríkisfang, á lögum þess lands sem hann hefur ríkisborgararétt í. Enn fremur berast Þjóðskrá Íslands ekki reglulegar upplýsingar um erlendan ríkisborgararétt sem íslenskir ríkisborgarar öðlast.
    
     2.      Hversu margir hafa öðlast tvöfalt ríkisfang á ári hverju frá því að breyting á lögum um íslenskan ríkisborgararétt, nr. 100/1952, tók gildi 1. júlí 2003 og heimilaði tvöfalt ríkisfang?
    Af sömu ástæðum og fram koma í svari við 1. tölul. liggja ekki fyrir upplýsingar um það hversu margir hafa öðlast tvöfalt ríkisfang á ári hverju frá því að tvöfalt ríkisfang var heimilað samkvæmt breytingu á lögum um íslenskan ríkisborgararétt sem tók gildi 1. júlí 2003.