Ferill 775. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Prentað upp.

Þingskjal 1906  — 775. mál.
Leiðréttur texti.

2. umræða.



Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000, með síðari breytingum (EES-reglur, stjórnvaldssektir o.fl.).

Frá umhverfis- og samgöngunefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Írisi Bjargmundsdóttur og Kjartan Ingvarsson frá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, Guðmund Val Guðmundsson og Eyþóru Hjartardóttur frá Vegagerðinni, Guðjón Bragason og Vigdísi Häsler frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Auði Önnu Magnúsdóttur frá Landvernd, Pétur Reimarsson frá Samtökum atvinnulífsins og Baldur Dýrfjörð frá Samorku.
    Umsagnir bárust frá Eldvötnum – samtökum um náttúruvernd í Skaftárhreppi, Fljótsdalshéraði, Herði Einarssyni og Sif Konráðsdóttur, Landgræðslu ríkisins, Landsneti hf., Landsvirkjun, Landssambandi veiðifélaga, Landvernd, Minjastofnun Íslands, Náttúrufræðistofnun Íslands, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samtökum atvinnulífsins, Samorku, Samtökum iðnaðarins, SVÞ – samtökum verslunar og þjónustu, Skógræktinni, umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar, Umhverfisstofnun og Vegagerðinni.

Efni frumvarpsins.
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um mat á umhverfisáhrifum til innleiðingar á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/52/ESB frá 16. apríl 2014 um breytingu á tilskipun 2011/92/ESB um mat á áhrifum sem tilteknar framkvæmdir á vegum hins opinbera eða einkaaðila kunna að hafa á umhverfið sem átti að innleiða fyrir 16. maí 2017. Með frumvarpinu er einnig verið að bregðast við dómi EFTA-dómstólsins um samningsbrot gegn Íslandi (mál nr. E-6/18) frá 14. maí sl. þar sem Ísland hefur ekki innleitt tilskipunina. Frumvarp til innleiðingar á tilskipuninni var lagt fram á 148. löggjafarþingi en hlaut ekki afgreiðslu. Einnig eru lagðar til breytingar á skipulagslögum, nr. 123/2010, og lögum um umhverfismat áætlana, nr. 105/2006.

Innleiðing og heildarendurskoðun.
    Í frumvarpinu eru lagðar til fjölmargar breytingar á lögunum og nýmæli, svo sem ákvæði um gildistíma ákvörðunar um matsskyldu, ítarlegri kröfur um upplýsingar í frummatsskýrslu, mótvægisaðgerðir og vöktun framkvæmda. Þá er lögð til heimild til að samþætta skýrslugerð og til að sameina mat á umhverfisáhrifum samkvæmt þeim lögum, lögum um umhverfismat áætlana og skipulagslögum. Fram komu ábendingar um að í frumvarpinu sé að sumu leyti verið að ganga lengra en samkvæmt tilskipuninni og að það mundi stuðla að meiri gæðum ef málinu væri frestað og það skoðað samhliða heildarendurskoðun á lögum um mat á umhverfisáhrifum. Fyrir liggur að umhverfis- og auðlindaráðherra hefur skipað starfshóp sem hefur verið falin heildarendurskoðun á lögum um mat á umhverfisáhrifum. Samkvæmt skipunarbréfi starfshópsins ber honum að skila drögum að frumvarpi í síðasta lagi 1. janúar 2020. Nefndin telur að í ljósi dóms EFTA-dómstólsins sé nauðsynlegt að ljúka innleiðingu tilskipunarinnar á yfirstandandi þingi en ekki fresta afgreiðslu þess og bíða niðurstöðu starfshópsins.

Breytingar nefndarinnar.
    Nefndin leggur til breytingu á frumvarpinu þannig að það feli í sér hreina innleiðingu á tilskipun 2014/52/ESB. Nefndin leggur því til að þau ákvæði sem ekki lúta beint að innleiðingu tilskipunarinnar verði felld brott eins og orðalagsbreytingar í skilgreiningum laganna sem er að finna í a–e-lið 1. gr. og í 7. og 8. gr. frumvarpsins. Þá leggur nefndin til að a-liður b-liðar 3. gr. (4. gr. b), um efni mats á umhverfisáhrifum, orðist í samræmi við orðalag tilskipunarinnar. Bendir nefndin á að við yfirstandandi vinnu við heildarendurskoðun laga um mat á umhverfisáhrifum og tengdra laga þarf að gæta sérstaklega að samræmi í skilgreiningum á milli lagabálka. Einnig er lagt til að felld verði brott ákvæði er varða valkvæðar undanþáguheimildir tilskipunarinnar sem eru í 4. og 6. gr. frumvarpsins.
    Nefndin leggur til að ákvæði er varðar tímamörk við ákvörðun um endurskoðun umhverfismats í 11. gr. frumvarpsins verði fellt brott og beinir því til umhverfis- og auðlindaráðuneytisins að það verði tekið til ítarlegrar skoðunar við heildarendurskoðun laga um mat á umhverfisáhrifum þar sem fyrir nefndinni kom fram að meiri tíma þyrfti til að skoða breytinguna og áhrif hennar. Einnig er lagt til að felld verði brott tillaga að breytingu á ákvæði skipulagslaga er varðar breytingu á gildistíma framkvæmdaleyfa úr 12 mánuðum í tvö ár en það tengist beint ákvæði frumvarpsins um tímamörk við ákvörðun um endurskoðun umhverfismatsins. Önnur atriði sem nefndin leggur til breytingar á tengjast framangreindum breytingum á frumvarpinu. Þá er lagt til að gildistaka laganna verði 1. september nk. til að gefa framkvæmdaraðilum, Skipulagsstofnun og sveitarstjórnum frekara svigrúm til undirbúnings vegna breytinganna sem frumvarpið felur í sér. Auk þess leggur nefndin til smávægilegar lagfæringar.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem lagðar eru til á sérstöku þingskjali.
    Bergþór Ólason og Karl Gauti Hjaltason voru fjarverandi við afgreiðslu málsins. Helga Vala Helgadóttir og Hanna Katrín Friðriksson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins en skrifa undir álit þetta með heimild skv. 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fyrir fastanefndir Alþingis.

Alþingi, 14. júní 2019.

Ari Trausti Guðmundsson,
1. varaform., frsm.
Brynjar Níelsson. Helga Vala Helgadóttir.
Líneik Anna Sævarsdóttir. Rósa Björk Brynjólfsdóttir. Vilhjálmur Árnason.
Hanna Katrín Friðriksson.