Ferill 270. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 1916  —  270. mál.
2. umræða.Nefndarálit


um frumvarp til laga um póstþjónustu.

Frá meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Skúla Þór Gunnsteinsson, Unni Elfu Hallsteinsdóttur og Ottó V. Winther frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu, Jón Gunnar Vilhelmsson frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu, Gunnar Dofra Ólafsson frá Viðskiptaráði Íslands, Benedikt S. Sveinsson frá SVÞ – Samtökum verslunar og þjónustu og Samtökum atvinnulífsins, Ólaf Stephensen frá Félagi atvinnurekenda, Magnús Norðdahl frá Alþýðusambandi Íslands, Indriða B. Ármannsson og Hjört Grétarsson frá Þjóðskrá Íslands, Breka Karlsson frá Neytendasamtökunum, Bryndísi Gunnlaugsdóttur frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Unni Valborgu Hilmarsdóttur frá Samtökum sveitarfélaga á Norðurlandi vestra, Sigurð Eyþórsson frá Bændasamtökum Íslands, Pál Gunnar Pálsson og Evu Ómarsdóttur frá Samkeppniseftirlitinu, Ingimund Sigurpálsson og Auði Björk Guðmundsdóttur frá Íslandspósti ohf. og Andra Árnason, lögmann Íslandspósts.
    Nefndinni bárust umsagnir frá Alþýðusambandi Íslands, Bændasamtökum Íslands, Félagi atvinnurekenda, Íslandspósti ohf., Neytendasamtökunum, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samkeppniseftirlitinu, Samtökum atvinnulífsins og SVÞ – Samtökum verslunar og þjónustu, Samtökum sveitarfélaga á Norðurlandi vestra, Viðskiptaráði Íslands og Þjóðskrá Íslands.

Inngangur.
    Með frumvarpinu er lagt til að samþykkt verði ný lög um póstþjónustu sem leysi af hólmi lög nr. 19/2002. Meginefni frumvarpsins er afnám einkaréttar ríkisins á póstmarkaði og opnun markaðar auk þess sem alþjónusta í pósti er tryggð og kveðið á um hvernig fara skuli með kostnað við alþjónustu ef hún er ekki leyst af hendi á markaðslegum forsendum. Með frumvarpinu eru efnisákvæði tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2008/6/EB um frekari breytingar á pósttilskipun 97/67/EB (þriðja pósttilskipunin) leidd í íslenskan rétt.
    Meiri hlutinn telur frumvarpið mikilvægt skref í þróun póstmarkaðar en með því er einkaréttur ríkisins á póstmarkaði afnuminn en Ísland er eina ríkið innan EES sem hefur ekki afnumið einkaréttinn og innleitt þriðju pósttilskipunina. Umsagnir um málið voru að meginstefnu jákvæðar en ljóst er að afnámi einkaréttarins fylgja ýmis úrlausnarefni og áskoranir.
    Um það leyti sem nefndin lauk umfjöllun um frumvarpið lauk Ríkisendurskoðun úttekt á tilteknum atriðum í rekstri Íslandspósts ohf. og skilaði skýrslu til Alþingis. Meiri hlutinn bendir á að umfjöllun um skýrsluna og innihald hennar hefur ekki farið fram í nefndum þingsins. Meiri hlutinn áréttar að gefi umfjöllun nefnda þingsins tilefni til frekari lagabreytinga eða aðgerða varðandi póstþjónustu getur umhverfis- og samgöngunefnd hvenær sem er lagt fram frumvarp til breytingar á lögum um póstþjónustu eða tillögu til þingsályktunar. Þá bendir meiri hlutinn á að lög um póstþjónustu taka gildi um næstu áramót og því er svigrúm til viðbragða ef þörf reynist. Þó er brýnt að ákvörðun Alþingis um afnám einkaréttar í póstþjónustu liggi fyrir tímanlega til að nauðsynlegur undirbúningur geti hafist.

Samkeppni á póstmarkaði.
    Einn megintilgangur frumvarpsins er afnám einkaréttar ríkisins á póstmarkaði. Með frumvarpinu er því verið að opna fyrir möguleika á samkeppni á þeim markaði. Að mati meiri hlutans er afnám einkaréttarins tímabært skref. Óvíst er þó hvort og hve mikil samkeppni verður á þessum markaði enda hefur almennum bréfasendingum fækkað umtalsvert á síðustu árum auk þess sem hlutverk póstþjónustu hefur breyst mikið með tilkomu rafrænna samskiptalausna. Ljóst er þó að póstþjónusta er lykilþáttur í vefverslun einstaklinga sem vex stöðugt, m.a. á landsbyggðinni þar sem langt er að sækja verslanir. Póstþjónusta er einnig mikilvæg fyrir atvinnurekstur sem treystir á þjónustuna við aðföng og sölu á vöru, m.a. í gegnum vefverslun sem getur verið staðsett hvar sem er á landinu. Þróun póstmarkaðsins hefur verið hröð síðustu árin og er líklegt að svo verði áfram. Tíminn verður því að leiða í ljós þá þróun sem verður á póstmarkaði sem samkeppnismarkaði.

Gildissvið 2. gr.
    Fram kom að skilin milli frumvarpsins og laga um landflutninga, nr. 40/2010, væru ekki nægilega skýr en fyrirséð væri að hægt yrði að annast talsverðan hluta þjónustu sem félli undir frumvarpið undir yfirskini landflutninga. Þar með væri komist hjá kvöðum, eftirliti og rekstrargjöldum til ríkissjóðs vegna þjónustu sem væri sambærileg þjónustu veittri á grundvelli póstþjónustulaga. Meiri hlutinn bendir á að með frumvarpinu er ekki stefnt að því að sameina vöruflutninga og póstþjónustu. Þannig munu um þetta áfram gilda tvenns konar lagabálkar, annars vegar lög um landflutninga, nr. 40/2010, og hins vegar lög um póstþjónustu með þeim réttindum og skyldum sem þar koma fram. Það er neytandans að ákveða hvort hann skiptir við póstþjónustufyrirtæki eða fyrirtæki sem starfar samkvæmt landflutningalögum.

Inntak alþjónustu (9. gr.).
    Mælt er fyrir um inntak alþjónustu í 9. gr. en alþjónusta er lágmarkspóstþjónusta sem allir notendur póstþjónustu skulu eiga aðgang að á jafnræðisgrundvelli. Í 2. mgr. 9. gr. eru skilgreindir þeir þjónustuþættir sem falla undir alþjónustu. Þar á meðal er fjöldi dreifingardaga en skv. 3. tölul. skal miða dreifingu innan alþjónustu við tvo daga í viku til einstaklinga sem hafa fasta búsetu, sbr. lög um lögheimili og aðsetur. Á sama hátt skuli bera út póstsendingar til lögaðila sem hafa fasta atvinnustarfsemi í viðkomandi húsnæði. Þá miðar tæming á póstkössum við fjölda dreifingardaga á viðkomandi svæði skv. 4. tölul. Með ákvæðinu er því miðað við að dreifing á póstsendingum innan alþjónustu verði tveir dagar að jafnaði í viku en ráðherra er veitt heimild í 1. tölul. 2. mgr. 41. gr. til þess að fækka dreifingardögum. Fram kom mikil gagnrýni á þá heimild ráðherra og bent á að fækkun dreifingardaga og þar af leiðandi tæming póstkassa gæti haft mikil áhrif á einstaklinga og atvinnurekstur í dreifbýli, m.a. fyrirtæki sem senda vörur til viðskiptavina í öðrum landshlutum og fyrir rekstraraðila sem reiða sig á að fá sendingar, t.d. litla varahluti eða lyf, í pósti. Meiri hlutinn telur brýnt að viðunandi þjónustustigi sé viðhaldið í póstþjónustu og bendir á að stórbættur aðgangur landsbyggðarinnar að háhraðatengingum leysir ekki öll viðfangsefni en ljóst er að pakkasendingar geta ekki farið fram gegnum þær. Meiri hlutinn telur þó rétt að til staðar sé heimild til þess að fækka dreifingardögum, séu fyrir hendi sérstakar aðstæður, vegna þarfa notenda á svæðinu, landfræðilegra aðstæðna eða tæknilausna enda sé mögulegt að uppfylla þarfir notenda á annan hátt sem takmarkist þó ekki við afhendingu á afgreiðslustað póstrekanda eða tiltekinni aðstöðu eða rafrænar lausnir. Leggur meiri hlutinn til orðalagsbreytingu á 1. tölul. 2. mgr. 41. gr. þessu til samræmis. Í þessu efni bendir meiri hlutinn á að skv. 2. tölul. 1. mgr. 41. gr. setur ráðherra reglugerð um nánari útfærslu á þjónustu sem fellur undir alþjónustu skv. 9. gr., þar á meðal um skilyrði fyrir fækkun dreifingardaga. Beinir meiri hlutinn því til ráðherra að líta til framangreindra sjónarmiða við setningu slíkrar reglugerðar. Þá leggur meiri hlutinn áherslu á að tækifæri geta verið til að samnýtingar ferða verktaka í póstþjónustu og annarrar akstursþjónustu í dreifðum byggðum, enda sé farið að ríkisstyrkjareglum EES og samkeppnislögum.
    Að mati meiri hlutans er nauðsynlegt að inntak alþjónustu og gæði hennar séu með reglubundnum hætti tekin til skoðunar með hliðsjón af því að þarfir neytenda á sviði póstþjónustu munu taka enn frekari breytingum með hliðsjón af tæknilausnum og breyttum verslunarháttum. Þar verði t.d. skoðað hvort réttara sé að miða alþjónustu við afhendingartíma fremur en fjölda dreifingardaga. Með frekari tæknivæðingu felast einnig tækifæri til að auka upplýsingagjöf til neytenda um stöðu sendingar og þá hvenær og hvar sé hægt að nálgast hana sem og tilkynningar neytanda til póstrekanda um eftirspurn eftir þjónustu á tilteknum stað og tíma.

Val á þjónustuveitanda (11. gr.).
    Í 11. gr. er að finna ákvæði um val á þjónustuveitanda sem skylt er að veita alþjónustu. Gert er ráð fyrir þremur mismunandi leiðum til að tryggja alþjónustu skv. 9. gr., þ.e. að gerðir séu samningar um veitingu þjónustunnar, að þjónustuveitandi sé útnefndur eða að farið sé í útboð. Ráðherra er falið að ákveða hvaða leið sé farin. Meiri hlutinn leggur áherslu á að við þá ákvörðun verði litið til þess að tryggja að gagnsæi sé til staðar, m.a. um kostnað þjónustu. Að auki er nauðsynlegt að ákvörðun byggist á nauðsynlegum upplýsingum. Í 3. mgr. 11. gr. er að finna heimild ráðherra til að láta framkvæma markaðskönnun þar sem metið er hvort nauðsynlegt er að tryggja alþjónustu með samningi eða útnefningu. Líkt og kemur fram í greinargerð getur slík markaðskönnun m.a. leitt í ljós áhuga markaðsaðila á að veita þá þjónustu sem skilgreind er í lögunum sem alþjónusta, þ.e. á markaðsforsendum. Leiði könnunin í ljós að markaðurinn muni ekki leysa af hendi lágmarksþjónustu skv. 9. gr. væri það ráðherra að taka ákvörðun um næstu skref til að tryggja þjónustuna. Að mati meiri hlutans ber að vinna að því fullum fetum að stuðla að því að komið verði á samkeppni á póstmarkaði enda er það í samræmi við meginefni frumvarpsins um opnun póstmarkaðar fyrir samkeppni með því að afnema einkarétt ríkisins á sviði póstþjónustu. Telur meiri hlutinn því mjög jákvætt að ákvörðun sé tekin á grundvelli markaðskönnunar og áréttar að unnt er að vinna slíkar kannanir fyrir afmörkuð svæði og/eða póstnúmer. Nefndin ræddi hvort erindi væri til að skylda ráðherra til að framkvæma markaðskönnun áður en tekin er ákvörðun um val á þjónustuleið. Meiri hlutinn telur það ekki tímabært enda muni það taka markaðinn tíma að aðlaga sig að breyttum reglum og aðstæðum. Meiri hlutinn leggur því ekki til breytingu hvað þetta varðar en ítrekar mikilvægi þess að þegar aðstæður leyfa verði ákvarðanir um val á leið til að tryggja þjónustu byggðar á slíkum markaðskönnunum. Meiri hlutinn leggur þó til breytingu á 3. mgr. 11. gr. þess efnis að útboði verði bætt við enda er ákvæðinu vissulega ætlað að ná til allra þriggja leiðanna sem hægt er að fara til að tryggja lágmarksþjónustu skv. 9. gr.
    Fyrir nefndinni var nokkuð rætt um hvort þessari breytingu fylgdi mögulega aukinn kostnaður fyrir ríkissjóð ef aðilar á markaði sinntu einkum þeim svæðum sem væru líkleg til að skila mestum tekjum af þjónustunni. Á þessum tímapunkti eru hvorki vísbendingar um að svo verði né hefur það orðið raunin í nágrannalöndunum. Meiri hlutinn bendir á að lagaumhverfinu er ætlað að tryggja notendum póstþjónustu um land allt grunnþjónustu með lágmarkskostnaði fyrir ríkið, og það er hlutverk ráðherra og eftirlitsstofnanna á hverjum tíma að fylgjast með því að það gangi eftir.

Gjaldskrá alþjónustuveitanda (17. gr.).
    Í 17. gr. er fjallað um gjaldskrá fyrir alþjónustu og eftirlit með henni. Skv. 2. mgr. skal smásölugjaldskrá fyrir bréf allt að 50 g innan alþjónustu vera sú sama fyrir land allt. Þannig eiga notendur kost á að senda bréf innan alþjónustu á sama verði óháð búsetu. Með vísan til jafnræðis og byggðasjónarmiða telur meiri hlutinn rétt að gjaldskrá fyrir þjónustu innan alþjónustu sé sú sama um allt land og leggur til breytingu á 17. og 18. gr. því til samræmis.

Viðurlög (40. gr.).
    Mikilvægt er að refsiheimildir laga séu skýrar og afdráttarlausar og uppfylli ákvæði 1. mgr. 69. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, um skýrleika refsiákvæða. Í því felst að lýsing á hinni refsiverðu háttsemi verður að koma skýrt fram í lagatexta og hafa áþreifanleg viðmið. Í 40. gr. er kveðið á um að brot á lögum þessum og reglugerðum settum samkvæmt þeim varði sektum en stórfelld eða ítrekuð brot varði fangelsi. Taldi meiri hlutinn ákvæðið of víðtækt með vísan til 1. mgr. 69. gr. stjórnarskrárinnar og óskaði eftir frekari afmörkun frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti. Meiri hlutinn leggur til að brot gegn ákvæðum 2. og 3. mgr. 9. gr. og 19., 20., 23., 24., 29. og 30. gr. varði refsingu skv. 40. gr.

Erlendar póstsendingar og rafrænar sendingar.
    Með lögum um breytingu á lögum um póstþjónustu, nr. 19/2002, með síðari breytingum (erlendar póstsendingar og rafrænar sendingar), nr. 23/2019, voru gerðar lagabreytingar þess efnis að rekstraraðila varð heimilt að setja gjaldskrá fyrir erlendar póstsendingar sem eiga að mæta raunkostnaði við sendingarnar og sömuleiðis breytingar þar sem áréttað var að íslensk póstlög gengju framar alþjóðaskuldbindingum á sviði póstmála. Líkt og nánar er rakið í nefndaráliti frá umhverfis- og samgöngunefnd um málið (739. mál 149. löggjafarþings) voru breytingarnar gerðar til þess að bregðast við því tapi sem Íslandspóstur ohf. hefði þurft að bera vegna erlendra póstsendinga. Í samráði við samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið leggur meiri hlutinn til að sambærilegar breytingar verði gerðar á frumvarpinu, sbr. 4., 12., 17., 24. og 38. gr. Líkt og nefndin lagði til í breytingartillögu sinni við framangreint mál er m.a. lagt til að kveðið verði á um það í 4. mgr. 17. gr. að alþjónustuveitandi skuli gera Póst- og fjarskiptastofnun grein fyrir kostnaðargrundvelli gjaldskrár vegna erlendra póstsendinga eigi síðar en fimm virkum dögum áður en hún tekur gildi. Póst- og fjarskiptastofnun beri því að hafa fyrir fram eftirlit með því að gjaldskráin taki mið af þeim óbætta raunkostnaði sem rekstrarleyfishafi gerir ráð fyrir að hljótist af erlendum póstsendingum. Með lögum nr. 23/2019 var einnig bætt við ákvæði um rafrænar sendingar og leggur meiri hlutinn til breytingar á 24. gr. sama efnis.
    Fram komu athugasemdir við ákvæði 4. mgr. 38. gr. frumvarpsins og bent á að athugasemdir við ákvæðið í greinargerð væri ófullnægjandi. Í frumvarpinu sé einungis fjallað um svonefnd „remail“. Þá var bent á að ekki væri ljóst af texta ákvæðisins að það tæki einungis til þeirra tilvika. Ákvæðinu er ætlað að bregðast við óhagstæðum endastöðvargjöldum Alþjóðapóstsambandsins sem ekki hafa dugað fyrir þeim kostnaði sem til fellur innan lands við dreifingu póstsendinga. Við umfjöllun nefndarinnar var bent á að með þeim breytingum sem gerðar voru með fyrrgreindum lögum um breytingu á lögum um póstþjónustu, nr. 23/2019, hefði verið brugðist við óhagstæðum endastöðvagjöldum Alþjóðapóstsambandsins. Líkt og að framan greinir leggur meiri hlutinn til breytingu á frumvarpinu til samræmis við þau lög. Leggur meiri hlutinn því til þá breytingu að 4. mgr. 38. gr. falli brott, enda er brugðist við óhagstæðum endastöðvagjöldunum með öðrum breytingartillögum við 17. og 38. gr. frumvarpsins.
    Meiri hlutinn ítrekar það sem fram kom í nefndaráliti um frumvarp það sem varð að lögum nr. 23/2019, þ.e. að gjald þetta skuli ekki notað til að standa straum af neinum öðrum kostnaði en þeim sem beint má leiða af hinum erlendu póstsendingum. Þá sé brýnt að neytendur geti með auðveldum hætti kynnt sér á einum stað hvaða gjöld þurfi að greiða fyrir móttöku erlendra póstsendinga og að ljóst sé fyrir hvaða þjónustu sé greitt hverju sinni.
    Þá beinir meiri hlutinn því til Póst- og fjarskiptastofnunar og veitenda póstþjónustu að gjaldskrá miði að því að hvetja til hagræðingar þannig að sem minnstur kostnaður leggist á jafnt veitendur þjónustu sem viðtakendur, t.d. að viðtakandi sem sækir böggul tímanlega á pósthús greiði ekki fyrir kostnað við geymslu og heimsendingu.

Óumbeðnar fjöldasendingar (28. gr.).
    Nefndin ræddi hvernig mætti draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum óumbeðinna fjöldasendinga. Meiri hlutinn beinir því til ráðuneytisins að taka til skoðunar hvort rétt sé með hliðsjón af umhverfissjónarmiðum að breyta skilyrðum fyrir viðtöku óumbeðinna fjöldasendinga, t.d. þannig að viðtakandi þurfi að óska eftir móttöku í stað þess að hafna móttöku. Ljóst er að breyting skilyrða krefðist nokkurs aðdraganda og undirbúnings og kanna þyrfti ýmis sjónarmið.

Aðrar breytingartillögur meiri hlutans.
    Í umsögn Íslandspósts ohf. kemur fram það sjónarmið að sú orðskýring sem lögð er til í 4. gr. um hugtakið „ábyrgðarsending“ sé óþarflega ítarleg. Meiri hlutinn tekur undir þetta sjónarmið og bendir á að sú orðskýring sem lögð er til grundvallar kunni að vera of þröng, enda gert ráð fyrir afbrigðum af henni í sendingum innan lands. Leggur meiri hlutinn til breytingu þess efnis að til ábyrgðarsendinga teljist sendingar sem póstrekandi ábyrgist með fyrir fram ákveðnum skilmálum.
    Þá var bent á að eðlilegt væri að hugtakið „sendandi“ væri skilgreint í frumvarpinu. Meiri hlutinn tekur undir þá athugasemd og leggur til þá breytingu á 4. gr. að bætt verði við skilgreiningu um að sendandi sé einstaklingur eða lögaðili sem sendir póstinn upphaflega, með þeirri undantekningu sem greinir í 9. mgr. 27. gr.
    Í 10. gr. um undantekningar frá alþjónustu segir m.a. í 1. mgr. að þjónustuskylda skv. 9. gr. sé aðeins virk ef viðtakandi er með þekkt heimilisfang skráð í þjóðskrá. Við umfjöllun nefndarinnar var bent á að Þjóðskrá Íslands haldi aðeins utan um lögheimili einstaklinga í þjóðskrá en heimilisfang lögaðila væri á hendi fyrirtækjaskrár. Meiri hlutinn telur nauðsynlegt að ákvæðið nái bæði til skráðra heimilisfanga einstaklinga og fyrirtækja og leggur til breytingu þess efnis.
    Skv. 13. gr. er Póst- og fjarskiptastofnun heimilt að leggja kvaðir á póstrekendur sem skilgreindir eru sem alþjónustuveitendur um veitingu aðgangs að dreifikerfi sínu og nauðsynlegri aðstöðu. Í 2. mgr. segir að íhlutun Póst- og fjarskiptastofnunar geti m.a. tekið til ákvörðunar um gjald fyrir aðgang, þ.m.t. ákvörðunar endurgjalds fyrir aðgang, sem og skilyrða fyrir aðgangi. Fyrir nefndinni kom fram það sjónarmið að eðlilegt væri að aðilar á markaði semdu um gjald fyrir aðgang sín á milli og að ekki kæmi til íhlutunar Póst- og fjarskiptastofnunar nema samkomulag næðist ekki þar að lútandi. Meiri hlutinn leggur til breytingu þess efnis að tilgreint verði í ákvæðinu það skilyrði að til slíkrar íhlutunar komi ekki nema viðkomandi aðilar hafi ekki náð samkomulagi um gjald fyrir aðgang eða skilyrði þar að lútandi. Meiri hlutinn bendir þó á að á grundvelli meðalhófsreglu stjórnsýsluréttarins geti Póst- og fjarskiptastofnun ekki lagt kvaðir skv. 13. gr. á póstrekendur nema því lögmæta markmiði sem að er stefnt verði ekki náð með öðru og vægara móti.
    Í síðari málslið 1. mgr. 14. gr. segir að Póst- og fjarskiptastofnun geti kveðið á um að alþjónustuveitandi skuli gefa út frímerki. Íslandspóstur ohf. bendir í umsögn sinni á að eðlilegt sé að áréttað sé í ákvæðinu að um þá kvöð fari skv. III. kafla. Meiri hlutinn tekur undir þetta sjónarmið og leggur til breytingu þess efnis.
    Þjóðskrá Íslands benti á í umsögn sinni að landfræðileg afmörkun póstsvæða væri nauðsynleg til þess að ákvarða póstnúmer í staðfangaskrá. Mikilvægt væri að gögnin væru aðgengileg öllum notendum og að breytingar skiluðu sér sem næst rauntíma út í samfélagið. Væri póstnúmer staðfanga miðlað með staðfangaskrá og eiginlegur hluti af birtingarmynd staðfangs. Því væri eðlilegt að póstnúmeraþekjunni væri með sama hætti og staðfangaskrá miðlað opið og gjaldfrjálst. Meiri hlutinn tekur undir þessa athugasemd og leggur til þá breytingu að Póst- og fjarskiptastofnun verði skv. 15. gr. frumvarpsins falið að gefa út póstnúmeraskrá og landfræðilega þekju póstnúmera.
    Í 18. gr. er fjallað um breytingar á gjaldskrá innan alþjónustu en tilkynna skal breytingar á gjaldskrá með tilteknum fyrirvara skv. 1. og 2. mgr. og hefur Póst- og fjarskiptastofnun heimild til að samþykkja og/eða synja beiðni um gjaldskrárbreytingu að hluta eða í heild. Bent var á að málsmeðferð stofnunarinnar getur tekið langan tíma og jafnvel hindrað eðlilega samkeppni á markaði á meðan. Meiri hlutinn telur rétt að kveðið verði á um ákveðinn frest til handa Póst- og fjarskiptastofnun til að bregðast við tilkynningum um breytingar á gjaldskrá. Meiri hlutinn telur hæfilegt að miðað sé við 30 virka daga með hliðsjón af hagsmunum póstfyrirtækja og neytenda auk þess sem gera verður ráð fyrir að Póst- og fjarskiptastofnun forgangsraði verkefnum af þessu tagi.
    Þá eru gerðar nokkrar lagatæknilegar breytingar.
    Að teknu tilliti til framangreindra sjónarmiða leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem lagðar eru til í sérstöku þingskjali.
    Rósa Björk Brynjólfsdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins en ritar undir álitið samkvæmt heimild í 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fastanefnda.

Alþingi, 19. júní 2019.

Jón Gunnarsson,
form.
Líneik Anna Sævarsdóttir,
frsm.
Ari Trausti Guðmundsson.
Vilhjálmur Árnason. Karl Gauti Hjaltason. Bergþór Ólason.
Rósa Björk Brynjólfsdóttir.