Ferill 270. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 1927  —  270. mál.
2. umræða.



Nefndarálit


um frumvarp til laga um póstþjónustu.

Frá minni hluta umhverfis- og samgöngunefndar.


    Minni hlutinn telur innleiðingu EES-tilskipunar um afnám einkaréttar á póstþjónustu, með frumvarpi þessu, löngu tímabæra. Minni hlutinn telur þó óheppilegt að breytingarnar gangi í gegn í skugga alvarlegra athugasemda sem gerðar hafa verið við rekstur Íslandspósts ohf. og við óskilgreindan og ófjármagnaðan kostnað fyrirtækisins við alþjónustu. Telur minni hlutinn ekki ákjósanlegt að frumvarpið sé tekið út úr umhverfis- og samgöngunefnd áður en nefndir Alþingis eigi þess kost að fjalla um úttekt Ríkisendurskoðunar á Íslandspósti ohf. þótt hann fagni aðgerðunum sem í frumvarpinu felast til að styrkja samkeppnisaðstæður á póstmarkaði. Ljóst er að til að hægt sé að tryggja sem sterkasta samkeppni og jafnvægi á markaði þurfi kostnaður Íslandspósts ohf. að vera gerður opinber fyrir alla landsmenn en ekki síst þann eða þá sem taki við rekstri fyrirtækisins. Leggur minni hluti nefndarinnar því til að ákvæði til bráðabirgða verði bætt við frumvarpið sem kveði á um að upplýsingar um kostnað fyrirtækisins við framkvæmd alþjónustu verði teknar saman og gerðar opinberar og aðgengilegar almenningi.
    Í áliti meiri hluta nefndarinnar er fjallað um val á þjónustuveitanda og markaðskönnun, með vísan til 11. gr. frumvarpsins. Er þar gert ráð fyrir þremur mismunandi leiðum til að tryggja alþjónustu, þ.e. samninga um veitingu þjónustunnar, að þjónustuveitandi sé útnefndur eða að farið sé í útboð. Ákvæði 11. gr. frumvarpsins felur í sér mikilvægar umbætur á núverandi réttarástandi en er þó ekki í fullkomnu samræmi við niðurstöðu verkefnisnefndar um alþjónustu í pósti sem skilað var samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra í september 2017.
    Í niðurstöðu verkefnisnefndarinnar kom einnig fram að ríkið geti farið nokkrar leiðir til að fjármagna alþjónustu, en nefndin taldi þó mikilvægt að markaðs- og samkeppnisleiðir væru ætíð reyndar til þrautar við að koma á alþjónustu áður en aðrar leiðir væru farnar. Þar af leiðandi verði leiðir sem kalli á opinbert framlag einungis til þrautavara. Í því skyni væri hægt að nýta reynslu fjarskiptasjóðs og Ríkiskaupa við greiningu á markaðsbresti auk skipulagningar og framkvæmdar útboða er varða fjarskipti utan markaðssvæða. Verkefnisnefndin taldi útboðsleið ákjósanlegri en útnefningu og mótaðist sú afstaða nefndarinnar ekki síst af áherslu á að koma á virkri samkeppni.
    Tekur minni hlutinn heils hugar undir þá niðurstöðu nefndarinnar og leggur því til að heimildir til útnefningar verði felldar úr frumvarpinu og í staðinn kveðið nánar á um útboð sem kost við val á veitanda alþjónustu. Í skýrslu verkefnisnefndarinnar kom jafnframt fram að til að stuðla að samkeppni komi til greina að útfæra útboðin þannig að stigagjöf byggist á fleiri þáttum en hreinu verði. Þannig yrði hægt að gefa aðilum stig sem ekki eru með markaðsráðandi stöðu á póstmarkaði, heldur bjóða til dæmis fram nýjungar á sviði póstdreifingar sem gagnast helst dreifðum og fámennum byggðum. Það yrði þó gert á kostnað ríkisins ef hagkvæmasta tilboði samkvæmt slíkri stigagjöf er tekið en ekki einfaldlega því lægsta. Um slíkt útboð þyrfti ráðherra að setja í reglugerð frekari fyrirmæli um annan undirbúning, skilmála, framkvæmd og fjármögnun eiginlegra útboða. Leggur minni hluti nefndarinnar til að ráðherra verði falið það vald með breytingu á 1. mgr. 41. gr. frumvarpsins.
    Minni hlutinn tekur undir með meiri hlutanum um mikilvægi þess að ákvarðanir á vali á leið til að tryggja þjónustu verði byggðar á markaðskönnunum og leggur því til breytingu á 11. gr. þess efnis að ráðherra verði gert skylt að framkvæma slíka könnun til að meta á hvaða svæðum landsins sé hagkvæmast að tryggja alþjónustu með útboði.
    Telur minni hlutinn þessar breytingar til þess fallnar að styrkja enn frekar samkeppni á póstmarkaði og tryggja að ákvarðanir séu opinberar, gagnsæjar og með hagsmuni neytenda í fyrirrúmi. Því leggur minni hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með breytingu sem gerð er tillaga um á sérstöku þingskjali.
    Björn Leví Gunnarsson, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, er samþykkur áliti þessu.

Alþingi, 19. júní 2019.

Hanna Katrín Friðriksson,
frsm.
Helga Vala Helgadóttir.