Ferill 270. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Prentað upp.

Þingskjal 1928  —  270. mál.
Flutningsmenn.

2. umræða.Breytingartillaga


við frumvarp til laga um póstþjónustu.

Frá Hönnu Katrínu Friðriksson, Helgu Völu Helgadóttur og Birni Leví Gunnarssyni.


     1.      Við 11. gr.
                  a.      3. og 4. málsl. 1. mgr. orðist svo: Ráðherra getur einnig boðið út heimildir til að sinna alþjónustu til eins fyrirtækis eða fleiri. Við undirbúning útboðs getur ráðherra notið liðsinnis Póst- og fjarskiptastofnunar.
                  b.      2. og 3. mgr. orðist svo:
                     Við samningsgerð eða útboð skv. 1. mgr. skal viðhafa opið, gagnsætt og hlutlægt ferli þar sem gætt er jafnræðis. Útboð má afmarka við tiltekna landshluta, póstnúmer og/eða tiltekna þætti póstþjónustu.
                     Ráðherra skal framkvæma markaðskönnun þar sem metið er á hvaða svæðum sé hagkvæmast að tryggja alþjónustu með útboði.
                  c.      Fyrirsögn greinarinnar orðist svo: Samningsgerð og útboð vegna alþjónustu.
     2.      Við 12. gr.
                  a.      1. mgr. orðist svo:
                     Við útboð, sbr. 11. gr., skal póstrekandi leggja fram upplýsingar um hreinan kostnað sem hann telur að alþjónusta sem honum verði skylt að veita hafi í för með sér. Útreikningar þjónustuveitanda skulu taka mið af viðauka II við lög þessi. Jafnframt þarf alþjónustuveitandi að sýna fram á að reiknað tap, ef eitthvert er, hafi í för með sér ósanngjarna byrði á fjárhag hans. Skal réttur til sanngjarns endurgjalds tryggður með fjárframlögum fyrir þá starfsemi sem um ræðir á þessum grundvelli og í samræmi við útboðssamning.
                  b.      5. mgr. falli brott.
                  c.      Fyrirsögn greinarinnar orðist svo: Fjárframlög vegna alþjónustu.
     3.      2.–4. mgr. 38. gr. orðist svo:
             Ráðherra getur boðið út heimild póstrekanda samkvæmt lögum þessum til að fara með réttindi og skyldur samkvæmt alþjóðapóstsamningnum.
             Útboð skv. 2. mgr. skal taka til endastöðvargjalda, þ.m.t. útburðar, og upphæðar gjalda í samræmi við þjónustu.
             Nema um annað sé kveðið á í samningi er póstrekanda, sem samningur er gerður við á grundvelli útboðs, sbr. 2. mgr., ekki skylt að dreifa póstsendingum sem sendendur hafa póstlagt eða látið póstleggja í öðru landi en þeir eru búsettir í án þess að fá fyrir það greiðslu sem stendur undir kostnaði við vinnslu og dreifingu sendinganna. Er póstrekanda heimilt að krefja sendanda um greiðslu innanlandsburðargjalds fyrir slíkar sendingar eða póstfyrirtækið sem sendi póstsendingarnar. Ef ekki er unnt að innheimta viðeigandi greiðslu er póstrekanda heimilt að endursenda póstsendinguna. Þá skulu endastöðvargjöld vera gagnsæ og jafnræðis gætt.
     4.      Við 1. mgr. 41. gr.
                  a.      1. tölul. orðist svo: Alþjónustu og útboð á alþjónustu.
                  b.      Á eftir orðunum „Nánari útfærslu“ í 2. tölul. komi: á útboði.
     5.      Við ákvæði til bráðabirgða bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                  Þrátt fyrir ákvæði 42. gr. skal ráðherra þegar hefja vinnu við að taka saman upplýsingar um kostnað Íslandspósts ohf. við framkvæmd alþjónustu frá árinu 2011. Upplýsingarnar skulu gerðar opinberar og aðgengilegar almenningi ekki síðar en 1. nóvember 2019. Verði tekin ákvörðun um sölu á Íslandspósti ohf. fyrir þann tíma skulu upplýsingarnar gerðar opinberar og aðgengilegar almenningi við upphaf þess ferlis.