Ferill 995. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 1947  —  995. mál.
Beiðni um skýrslu


frá dómsmálaráðherra um framkvæmd embætta sýslumanna á lögum um aðför og lögum um nauðungarsölu.

Frá Jóni Þór Ólafssyni, Birni Leví Gunnarssyni, Halldóru Mogensen, Helga Hrafni Gunnarssyni, Smára McCarthy, Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur, Ingu Sæland, Guðmundi Inga Kristinssyni og Helgu Völu Helgadóttur.


    Með vísan til 54. gr. stjórnarskrárinnar og 54. gr. laga um þingsköp Alþingis er þess óskað að dómsmálaráðherra flytji Alþingi skýrslu um framkvæmd embætta sýslumanna við fullnustugerðir samkvæmt lögum um aðför, nr. 90/1989, og lögum um nauðungarsölu, nr. 90/1991, frá efnahagshruninu 2008, m.a. með tilliti til meginreglna stjórnsýsluréttar.
    Meðal umfjöllunarefnis skýrslunnar verði eftirfarandi atriði:
     a.      Verklag og verklagsreglur við frumathugun beiðna um fjárnám og nauðungarsölu, mat á réttmæti þeirra og lögmæti krafna sem þær byggjast á, þar á meðal hvernig gætt sé að því að gerðarþola hafi verið boðin önnur úrræði skv. 38. gr. laga um fasteignalán til neytenda, nr. 118/2016, áður en farið er fram á nauðungarsölu.
     b.      Verklag og verklagsreglur við meðferð beiðna um fjárnám og nauðungarsölu og framkvæmd slíkra gerða með tilliti til reglna stjórnsýsluréttar, þar á meðal um skráningu þess sem fram fer í gerðabækur, form slíkra skráninga, hvort þær séu tölvuskráðar eða handskrifaðar og rétt gerðarþola til að fá afrit af þeim.
     c.      Möguleikar gerðarþola á að leita réttar síns áður en meðferð hefst á beiðni um fjárnám eða nauðungarsölu, á meðan hún stendur yfir og eftir að henni lýkur, þar á meðal til að afstýra eða stöðva fullnustugerð sem ekki á rétt á sér og andmæla henni eða tilteknum ákvörðunum um framkvæmd hennar.
     d.      Hvaða leiðbeiningar gerðarþola eru veittar og með hvaða hætti um réttarstöðu sína og úrræði til að afstýra fullnustugerð eða andmæla ákvörðunum um framkvæmd hennar, sérstaklega hvort slíkar leiðbeiningar séu til á samræmdu skriflegu formi sem gerðarþoli fái afhent og ef ekki, hvernig sé þá tryggt að gerðarþolar séu nægilega upplýstir um réttindi sín.
     e.      Frumkvæðisskyldur sýslumanna til að gæta að sjálfsdáðum að atriðum varðandi beiðni um fullnustugerð og framkvæmd hennar, einkum að gerðin brjóti ekki gegn þeim réttindum sem gerðarþola eru tryggð með lögum, svo sem með niðurfærslu á fjárhæð kröfu sem er að einhverju leyti fyrnd eða nýtur ekki réttarverndar.
     f.      Verklag og verklagsreglur um uppgjör áhvílandi veðskulda og úthlutun á söluverði í kjölfar nauðungarsölu fasteignar, að teknu tilliti til markaðsverðs hennar, sérstaklega hvernig staðið sé að því að yfirfara fjárhæðir lýstra krafna og kanna hvort þær séu rétt reiknaðar með tilliti til fyrningar og annarra réttarreglna.
     g.      Aðgangur gerðarþola að óháðri aðstoð við að taka upplýsta afstöðu til krafna við fullnustugerð, þar á meðal að kanna hvort fjárhæðir þeirra séu rétt reiknaðar og að hvaða marki þær njóta réttarverndar.
     h.      Úrræði gerðarþola til að leita réttar síns ef á honum verið brotið við framkvæmd fullnustugerðar og hvaða viðurlögum er beitt við slíkum brotum.

Greinargerð.

    Sýslumenn fara með fjölbreytt og mikilvægt hlutverk í íslenskri stjórnsýslu. Þannig fara þeir með framkvæmdarvald og stjórnsýslu ríkisins í héraði, hver í sínu umdæmi, eftir því sem lög og reglur kveða á um hverju sinni. Í þessu hlutverki sýslumanna felst mikil ábyrgð enda fara þeir með mikið vald sem snýr að hinum almenna borgara.
    Meðal verkefna sýslumanna er að annast framkvæmd fullnustugerða skv. 4. gr. laga um aðför, nr. 90/1989, með síðari breytingum, og 3. gr. laga um nauðungarsölu, nr. 90/1991, með síðari breytingum. Þessi lög varða mjög umfangsmikla og mikilvæga hagsmuni fólks, enda er þeim einna helst beitt þegar farið er fram á uppboð íbúðarhúsnæðis einstaklinga og fjölskyldna vegna vanskila veðskulda. Ljóst er að frá íslenska efnahagshruninu 2008 hefur þessum úrræðum laganna verið beitt gegn fjölda Íslendinga og hafa margir þurft að þola það að framkvæmd sé nauðungarsala á íbúðarhúsnæði þeirra. Í kjölfar efnahagshrunsins hefur traust almennings á stjórnvöldum og fjármálakerfinu dalað og má með nokkurri vissu álykta að ein helsta ástæðan fyrir því sé framganga lánastofnana og stjórnvalda, þ.m.t. sýslumannsembætta, í garð almennings.
    Nauðsynlegt skref í endurreisn trausts á stjórnvöldum og fjármálakerfinu er að varpa ljósi á raunverulega framkvæmd fullnustugerða, og hvort að hún hafi verið að fullu í samræmi við gildandi lög og reglur. Vegna þeirra fjölmörgu ábendinga sem hafa komið fram á undanförnum árum um mögulega misbresti í þeirri framkvæmd getur það verið liður í endurreisn trausts að varpa ljósi á það hvort umrædd vandamál séu til staðar og ef svo er, að hefja vinnu við að leysa þau.
    Er þess því óskað að dómsmálaráðherra flytji Alþingi skýrslu um framkvæmd embætta sýslumanna með hliðsjón af framangreindum atriðum. Skýrslubeiðendur telja brýnt að varpa ljósi á framkvæmd sýslumannsembættanna á lögum um aðför og nauðungarsölu.