Ferill 534. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 1983  —  534. mál.
Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Oddnýju G. Harðardóttur um auðlindarentuskatt.


     1.      Hversu háar má vænta að opinberar tekjur verði af Hvalárvirkjun miðað við líklegar tekjur af vatnsréttindum vegna virkjunarinnar með hliðsjón af forsendum í minnisblaði hagfræðideildar Háskóla Íslands þar sem núvirði tekna landeigenda er talið geta numið 700–1.400 millj. kr.? Óskað er upplýsinga um fjárhæðir og hlutfallslega skiptingu.
    Ekki er vitað hvort landeigendur stofni félag utan um áætlaðar tekjur af vatnsréttindum sínum og greiði því tekjuskatt af hagnaðinum sem þeir kunna að hafa en í þessu svari er gert ráð fyrir að landeigendur hafi leigutekjur af Hvalárvirkjun og greiði því 22% fjármagnstekjuskatt af tekjunum sem þeir fá. Miðað við 700–1.400 millj. kr. núvirði tekna landeigenda samkvæmt minnisblaði hagfræðideildar Háskóla Íslands væru tekjur ríkissjóðs um 150–300 millj. kr.
    Sveitarfélagið Árneshreppur mun fá greidda fasteignaskatta af Hvalárvirkjun. Fasteignaskattur á atvinnuhúsnæði og annað húsnæði sem ekki telst íbúðarhúsnæði eða opinber bygging er 1,32%. Sveitarstjórn er heimilt að hækka álagningu skattsins um allt að 25% og er þá hámarksálagning hans 1,65%. Ekki er vitað með vissu hversu stór mannvirkin, sem bera fasteignaskatt, verða eða hversu hátt fasteignamat þeirra verður. Ef miðað er við hærri prósentuna þá eru fasteignaskattar til sveitarfélagsins 16,5 millj. kr. af hverjum milljarði króna í fasteignamati. Ef fasteignamat er 2 milljarðar kr. þá fær sveitarfélagið greitt um 33 millj. kr. í fasteignaskatta.

     2.      Hvernig mundu þessar fjárhæðir og hlutfallsleg skipting breytast ef á Íslandi væri sams konar fyrirkomulag á heimt auðlindarentu til hins opinbera og er í Noregi, sjá t.d. svar fjármála- og efnahagsráðherra á þskj. 1097 frá 146. löggjafarþingi?
    Eins og fram kom í svari fjármála- og efnahagsráðherra á þskj. 1097 frá 146. löggjafarþingi þurfa tilteknar upplýsingar að liggja fyrir til að hægt sé að reikna sérstakan auðlindarentuskatt (n. grunnrenteskatt) á virkjanir. Sérstaki auðlindarentuskatturinn í Noregi er 37% af sérstökum skattstofni. Skattstofninn samanstendur af reiknuðum sölutekjum að frádregnum rekstrarkostnaði, leyfisgjöldum, fasteignasköttum, afskriftum og sérstökum arðsemisfrádrætti (n. skjermingsfradrag). Þessar upplýsingar eru ekki tiltækar fyrir Hvalárvirkjun.

     3.      Er ráðherra hlynntur álagningu auðlindarentuskatts að norskri fyrirmynd?
    Það er ekki til athugunar í ráðuneytinu að taka upp sérstaka skattlagningu á orkufyrirtæki. Ráðherra er þeirrar skoðunar að sérstakir skattar eða aðrar álögur á fyrirtæki í orkuframleiðslu skili sér á endanum í hærra raforkuverði fyrir heimili og atvinnustarfsemi.

     4.      Hyggst ráðherra hefja vinnu við mótun slíkrar skattheimtu?
    Engin slík áform eru uppi.