Ferill 742. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 1986  —  742. mál.
Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Ólafi Ísleifssyni um innstæðutryggingar.


     1.      Hvert er heildarumfang innstæðna í viðskiptabönkum og sparisjóðum hér á landi?
    Samkvæmt upplýsingum frá Tryggingarsjóði innstæðueigenda og fjárfesta nam heildarumfang innstæðna í viðskiptabönkum og sparisjóðum 1.707 milljörðum kr. um síðustu áramót.

     2.      Hvert er lágmark og hámark þeirrar tryggingaverndar sem Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta veitir innstæðueigendum?
    Lágmark tryggingaverndar er fjárhæð að jafnvirði 20.887 evra í íslenskum krónum. Miðað er við samtölu innstæðna einstaklings hjá hverri lánastofnun fyrir sig. Ekkert hámark er á tryggingavernd samkvæmt núgildandi íslenskum lögum.

     3.      Hvert er heildarumfang innstæðna sem eru tryggðar af Tryggingarsjóði innstæðueigenda og fjárfesta?
    Samkvæmt upplýsingum frá Tryggingarsjóði innstæðueigenda og fjárfesta nam heildarumfang tryggðra innstæðna 1.424 milljörðum kr. um síðustu áramót.

     4.      Hver er heildargreiðslugeta Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta vegna innstæðutrygginga?
    Um síðustu áramót nam eigið fé innstæðudeildar Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta 38 milljörðum kr. og þar af voru 37 milljarðar kr. í skuldabréfum eða 97,2%. Innlán námu 927 millj. kr. eða 2,5%.
    Gera má ráð fyrir að eignir sjóðsins í skuldabréfum og innlánum endurspegli greiðslugetu hans til skamms tíma.

     5.      Hafa þar til bærir eftirlitsaðilar framkvæmt álagsprófanir til að sannreyna greiðslugetu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta miðað við sviðsmyndir sem gera ráð fyrir erfiðleikum í fjármálakerfinu og hafa niðurstöður þeirra verið birtar opinberlega?
    Seðlabanki Íslands framkvæmir árlega álagspróf á bankakerfinu öllu og hefur það komið ágætlega út úr álagsprófum með sérlega svartsýnum forsendum. Fyrir liggur að hlutverk Tryggingarsjóðsins mun taka breytingum til framtíðar (sjá svar við 10. lið) og fyrirséð er að aðkoma hans í tilviki greiðsluerfiðleika kerfislega mikilvægra fjármálafyrirtækja verður takmörkuð. Meðal annars af þeim sökum hefur ekki verið talið tilefni til að framkvæma sérstök álagspróf til að sannreyna greiðslugetu sjóðsins. Hins vegar gerir stjórn sjóðsins ráðherra árlega grein fyrir fjárhagslegri stöðu hans og á tveggja ára fresti, eða oftar, gerir stjórn ráðherra grein fyrir afstöðu sinni til lágmarkseignar sjóðsins. Ársreikningar sjóðsins eru birtir á vef hans: www.tif.is.

     6.      Hvar og hvernig eru eignir Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta varðveittar?
    Samkvæmt upplýsingum frá Tryggingarsjóði innstæðueigenda og fjárfesta eru eignir sjóðsins að langstærstum hluta varðveittar í innlendum og erlendum skuldabréfum sem eru í eignastýringu innlendra fjármálafyrirtækja. Innlendar eignir eru rafrænt skráðar hérlendis en erlendar eignir rafrænt skráðar erlendis. Fjárfest er eftir skýrri fjárfestingarstefnu sem stjórn sjóðsins hefur sett þar sem m.a. er reynt að tryggja seljanleika og lágmarka áhættu.

     7.      Hvert er heildarumfang óveðsettra eigna viðskiptabanka og sparisjóða sem gætu komið til ráðstöfunar upp í þær forgangskröfur sem Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta mundi eignast skv. 3. mgr. 10. gr. laga nr. 98/1999 ef á þær mundi reyna vegna fjárhagslegra erfiðleika innlánsstofnunar, sundurliðað eftir innlánsstofnunum?
    Samkvæmt upplýsingum frá Fjármálaeftirlitinu var heildarumfang kvaðalausra eigna viðskiptabanka og sparisjóða 3.126 milljarðar kr. miðað við árslok 2018. Umfang tryggðra innstæðna hjá sömu fyrirtækjum, þ.e. að frádregnum innstæðum sem undanþegnar eru tryggingavernd, var 1.424 milljarðar kr. miðað við sama tíma, sbr. svar við 3. lið.

     8.      Hversu stór hluti af eignum viðskiptabanka og sparisjóða eru veðsettar kröfuhöfum þeirra og kæmu því ekki til úthlutunar upp í forgangskröfur Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta ef á þær mundi reyna vegna fjárhagslegra erfiðleika innlánsstofnana, sundurliðað eftir innlánsstofnunum?
    Samkvæmt upplýsingum frá Fjármálaeftirlitinu var heildarumfang kvaðabundinna eigna viðskiptabanka og sparisjóða 609 milljarðar kr. miðað við árslok 2018 og námu heildareignir þeirra 3.735 milljörðum kr. Hlutfall kvaðabundinna eigna af heildareignum er því 16,3%.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Sjá nánar eftirfarandi töflu sem sýnir eignir viðskiptabanka og sparisjóða í árslok 2018:
    Til samanburðar var vegið hlutfall kvaðabundinna eigna banka innan Evrópusambandsins 27,9% miðað við árslok 2017, sbr. skýrslu Evrópsku bankaeftirlitsstofnunarinnar (EBA) frá september 2018.
https://eba.europa.eu/documents/1 0180/2357155/EBA+Report+on+Asset+Encumbrance.pdf
    Fjármálaeftirlitið fylgist með hlutfalli kvaðabundinna eigna og er viðskiptabönkum og sparisjóðum gert að greina milli kvaðabundinna og kvaðalausra eigna sem eru tiltækar á hverjum tíma, auk þess að gefa Fjármálaeftirlitinu ársfjórðungslega skýrslu um kvaðir á eignum.

     9.      Hverjar yrðu afleiðingar þess ef óveðsettar eignir innlánsstofnunar mundu ekki hrökkva til greiðslu forgangskrafna Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta ef á þær mundi reyna vegna fjárhagslegra erfiðleika innlánsstofnunar og hvaða önnur úrræði gætu þá staðið innstæðueigendum til boða í því skyni að endurheimta eignir sínar?
    Eins og fram kemur fyrr í svarinu eru kvaðalausar eignir viðskiptabanka og sparisjóða nú ríflega tvisvar sinnum meiri en tryggðar innstæður. Það má því leiða að því líkum að verulegt áfall þurfi að verða í fjármálakerfinu svo að eignir þessara fjármálafyrirtækja hrökkvi ekki til greiðslu forgangskrafna Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.
    Frá fjármálaáfallinu 2008 hafa orðið miklar breytingar á laga- og regluumhverfi fjármálafyrirtækja, m.a. til að styrkja gjaldfærni þeirra og draga úr líkum á áföllum. Kröfur um magn og gæði eigin fjár hafa aukist mjög auk þess sem lausafjárreglum hefur verið breytt til að draga úr lausafjáráhættu og settar hafa verið nýjar reglur um stöðuga fjármögnun. Þá hefur eftirlit með fjármálastarfsemi breyst í grundvallaratriðum frá því sem var fyrir árið 2008, bæði hvað varðar lög, reglur og aðferðafræði. Auk þess hafa meiri fjármunir verið veittir til reksturs Fjármálaeftirlitsins. Síðast en ekki síst fer fram sífelld vöktun á starfsemi bankanna og ýmsum atriðum sem hafa áhrif á rekstrarumhverfi þeirra á vettvangi kerfisáhættunefndar og fjármálastöðugleikaráðs.

     10.      Telur ráðherra greiðslugetu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta vera nægilega sterka til að veita innstæðueigendum raunhæfa tryggingavernd ef á trygginguna reynir, hvort sem er vegna erfiðleika einstakra innlánsstofnana eða fjármálakerfisins í heild?
    Eins og fram kemur í frumvarpi til laga um breytingar á lögum um innstæðutryggingar og tryggingarkerfi fyrir fjárfesta, nr. 98/1999, með síðari breytingum, á þingskjali 1043, sem lagt var fram á Alþingi, hefur um nokkurt skeið staðið yfir heildarendurskoðun á lagaumgjörð innstæðutrygginga og skilameðferðar fjármálafyrirtækja. Sú vinna fer fram í fjármála- og efnahagsráðuneytinu samhliða vinnu við upptöku og innleiðingu Evróputilskipana á sömu sviðum. Við þá vinnu er miðað við að stærð sjóðsins verði í samræmi við þær breytingar á hlutverki sjóðsins sem m.a. leiðir af innleiðingu tilskipunar 2014/59/ESB um endurreisn og skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja.
    Á síðustu árum hefur áhersla á fjármálastöðugleika og þjóðhagsvarúð verið stóraukin. Sér þess stað í ýmsum lagabreytingum sem samþykktar hafa verið á undanförnum árum og m.a. er minnst stuttlega á í svari við 9. lið Tryggingavernd innstæðueigenda er þannig varin af fjölmörgum þáttum, öðrum en eignum sjóðsins, auk þess sem hlutverk hans mun taka breytingum eins og áður sagði.

     11.      Telur ráðherra koma til greina að gera kröfur Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta skv. 3. mgr. 10. gr. laga nr. 98/1999 að búskröfum til að tryggja þeim forgang umfram veðkröfur þannig að innlánsstofnanir geti ekki skert tryggingavernd innstæðna með því að veðsetja eignir sínar?
    Kröfur Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta njóta nú rétthæðar sem forgangskröfur skv. 1. og 2. mgr. 112. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. Í áðurnefndri tilskipun um endurreisn og skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja er mælt fyrir um stöðu krafna innstæðutryggingakerfa í skuldaröð við gjaldþrot eða slit. Þar er áskilið að kröfur Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta ásamt kröfum um tryggðar innstæður séu jafn réttháar í skuldaröð og rétthærri en kröfur vegna tiltekinna annarra innstæðna. Með þessari breytingu er stigið sambærilegt skref og gert var hér á landi með gildistöku neyðarlaganna haustið 2008 þegar réttarvernd innstæðueigenda var aukin og allar kröfur vegna innstæðna og kröfur Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta voru gerðar að forgangskröfum skv. 1. og 2. mgr. 112. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. Breytingarnar í tilskipuninni eru þó frábrugðnar á vissan hátt enda rétthæð krafna vegna innstæðna skipt upp í skuldaröð. Með fyrrgreindum lagabreytingum um skilameðferð og innstæðutryggingar (sbr. svar við 10. lið) sem taka mið af efni tilskipunarinnar munu því kröfur sem Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta tekur yfir fá aukinn forgang í skuldaröð við slitameðferð frá því sem nú er enda skulu þær vera rétthærri en kröfur vegna tiltekinna annarra innstæðna. Ekki verður ráðið að rök standi til þess (sbr. svör við öðrum liðum) að gera kröfur Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta að búskröfum og þannig rétthærri en forgangskröfur við gjaldþrotaskipti. Forgangskröfum er ætlað er að tryggja veigamikil réttindi á borð við laun og annað endurgjald fyrir vinnu í þjónustu þrotamanns og gjöld til lífeyrissjóða.