Ferill 575. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 1987  —  575. mál.
Svar


félags- og barnamálaráðherra við fyrirspurn frá Unni Brá Konráðsdóttur um tillögur að breyttu greiðslufyrirkomulagi á dvalar- og hjúkrunarheimilum.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hefur starfshópur sem þáverandi félags- og húsnæðismálaráðherra skipaði til að gera tillögur að breyttu greiðslufyrirkomulagi á dvalar- og hjúkrunarheimilum, sbr. svar á þskj. 1249 á 145. löggjafarþingi (601. mál), skilað tillögum og ef svo er, hverjar eru þær? Hvenær er áætlað að breyttu greiðslufyrirkomulagi verði komið á? Ef starfshópurinn hefur ekki skilað tillögum sínum, hvenær áætlar ráðherra að það verði?

    Eygló Harðardóttir, þáverandi félags- og húsnæðismálaráðherra skipaði með bréfi 3. maí 2016 starfshóp sem var falið samkvæmt erindisbréfi að útfæra og koma á tilraunaverkefni í samvinnu við eitt eða fleiri hjúkrunarheimili um nýtt fyrirkomulag um greiðsluþátttöku íbúa á dvalar- og hjúkrunarheimilum. Þannig skyldi stefnt að auknu sjálfstæði aldraðra íbúa með afnámi vasapeningakerfis og teknar upp sérstakar greiðslur fyrir húsaleigu og annan kostnað sem fylgir heimilishaldi.
    Með auglýsingu dags. 1. júlí 2016 auglýsti velferðarráðuneytið eftir þátttakendum í tilraunaverkefni um nýtt fyrirkomulag á greiðsluþátttöku íbúa á dvalar- og hjúkrunarheimilum. Í framhaldi af auglýsingunni boðaði starfshópurinn til funda með forstöðumönnum þeirra hjúkrunarheimila sem svöruðu auglýsingunni. Eftir viðræður á nokkrum fundum með forstöðumönnum þeirra hjúkrunarheimila, sem svarað höfðu auglýsingunni, varð ljóst að ýmsar forsendur skorti fyrir því að framkvæma tilraunaverkefnið eins og að hafði verið stefnt.
    Af þeirri ástæðu komst starfshópurinn að þeirri niðurstöðu að skoða bæri möguleika á annarri nálgun að verkefninu. Vinna hópsins frá þeim tíma miðaði að tillögu um breytt greiðsluflæði með það að leiðarljósi að gera íbúum dvalar- og hjúkrunarheimila kleift að halda sjálfræði og fjárhagslegu sjálfstæði. Unnið var út frá þeirri forsendu að ellilífeyrir, lífeyristekjur og eftir atvikum fjármagnstekjur væntanlegs íbúa héldust áfram á hans hendi og verða grundvöllur að greiðslum samkvæmt samningi við það dvalar- eða hjúkrunarheimili sem viðkomandi fengi búsetu á. Íbúanum yrði gerð grein fyrir hvaða greiðslur bæri að inna af hendi fyrir almennan heimiliskostnað, svo sem vegna húsnæðis, fæðis, þrifa og annarrar þjónustu á dvalar- eða hjúkrunarheimilinu. Þannig tæki hann ábyrgð á greiðslum vegna búsetu á dvalar- eða hjúkrunarheimili. Ríkið leggi þannig til heilbrigðisþjónustu en íbúi standi undir húsnæðiskostnaði og öðrum útgjöldum við heimilishaldið.
    Verði tekin ákvörðun um að vinna frekar að breytingum í þessum anda er rétt að fela TR að reikna fleiri dæmi og útfærslur. Þá er mikilvægt að endurnýja umboð hópsins eða skipa nýjan hóp og að fjármála- og efnahagsráðherra eigi þar fulltrúa.
    Næstu skref eru nú til skoðunar innan félagsmálaráðuneytisins.