Ferill 889. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 1989  —  889. mál.




Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Birni Leví Gunnarssyni um skrifstofur og skrifstofustjóra í ráðuneytinu.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hvaða skrifstofur eru í ráðuneytinu og hvaða skrifstofum stýrir skrifstofustjóri? Hver eru verkefni hverrar skrifstofu og hversu margir starfsmenn starfa undir skrifstofustjóra á hverri skrifstofu?
     2.      Hversu margir skrifstofustjórar heyra undir aðra skrifstofustjóra eða stýra ekki skrifstofu sjálfir?
     3.      Hvaða aukastörf og hlunnindi fylgja starfi hvers skrifstofustjóra og hvert er hlunnindamat starfa þeirra?
     4.      Hversu mikla yfirvinnu vinnur hver skrifstofustjóri að jafnaði á mánuði, talið í klukkustundum?
     5.      Hvernig tengjast skrifstofurnar í ráðuneytinu undirstofnunum þess?


    1.     Dómsmálaráðuneytið samanstendur af fjórum skrifstofum. Skrifstofurnar skiptast í þrjár fagskrifstofur og eina stoðskrifstofu. Í eftirfarandi töflu má sjá fjölda starfsmanna á hverri skrifstofu:

Skrifstofa almanna- og réttaröryggis 8
Lagaskrifstofa 10
Skrifstofa réttinda einstaklinga 8
Skrifstofa fjármála og rekstrar 12
    
    
    Á lagaskrifstofu eru teknar til meðferðar kærur sem berast ráðuneytinu sem æðra stjórnvaldi í flestum málaflokkum sem undir ráðuneytið heyra og teknar ákvarðanir í þeim málum með úrskurði í flestum tilvikum. Undir skrifstofuna falla einnig málefni sem lúta að útgáfu Stjórnartíðinda og Lögbirtingablaðs. Auk þess er skrifstofan ábyrg fyrir ýmsum öðrum málaflokkum, er tengiliður ráðuneytisins við Alþingi og umboðsmann Alþingis.
    Skrifstofa almanna- og réttaröryggis hefur umsjón með þeim málaflokkum í íslenskri stjórnsýslu er varða mikilvæga þætti réttarvörslukerfisins, þ.e. málefni löggæslu, ákæruvald og fullnustu og öryggi almennings, svo sem almannavarnir og leit og björgun. Skrifstofan sinnir stefnumótun og úrlausn mála á málefnasviðinu, hefur umsjón með löggjöf og fylgist með því að hún taki til allra nauðsynlegra þátta, vinnur að því að stjórnsýsluframkvæmd sé í samræmi við lög og að markmið stefnumótunar ráðherra náist með skilvirkum og markvissum hætti.
    
    Mikilvægi alþjóðlegs samstarfs á málefnasviðinu fer vaxandi, m.a. á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, Evrópuráðsins, Schengen-samstarfsins og EES-samningsins. Þá tekur Ísland þátt í samstarfi innan OECD og Eystrasaltsráðsins, einkum á sviði aðgerða gegn brotastarfsemi. Einnig taka íslensk stjórnvöld þátt í HAGA-samstarfi Norðurlandanna á sviði almannaöryggis og viðbúnaðar.
    Skrifstofa fjármála og rekstrar fer með öll innri mál ráðuneytisins, svo sem málefni er varða dagskrá ráðherra, rekstrarmál, mannauðsmál, upplýsingamiðlun og alþjóðasamstarf. Skrifstofan hefur eftirlit með verkefnaáætlunum, annast sértækar og almennar greiningar vegna málefna ráðuneytisins. Þá er skrifstofan tengiliður við Ríkisendurskoðun og sinnir verkefnum er lúta að úttektum stofnunarinnar og eftirfylgni með þeim. Skrifstofan ber ábyrgð á gerð og eftirfylgni fjármálaáætlunar og fjárlaga fyrir hönd ráðuneytisins. Hún hefur yfirsýn yfir vinnu við stefnumótun þeirra málefnasviða og málaflokka, sem ráðuneytið ber ábyrgð á og ber ábyrgð á samþættingu, samræmingu og gæðum stefna og áætlana. Hún fylgir einnig eftir skilum rekstrar- og starfsáætlana allra stofnana ráðuneytisins. Skrifstofan sinnir kostnaðarmati frumvarpa og aðstoð við gerð þjónustusamninga. Þá er umsjón með móttöku ráðuneytisins á ábyrgð skrifstofunnar.
    Undir skrifstofu réttinda einstaklinga heyra ýmsir málaflokkar sem varða réttindi einstaklinga. Má þar nefna fjölskyldumál og málefni barna, málefni útlendinga og ríkisborgaramál, mannréttindamál, þjóðkirkjan og skráð trúfélög og lífsskoðunarfélög, persónuvernd og sýslumenn. Skrifstofan annast stefnumótun, frumvarpasmíði, mótun reglugerða og reglna og ber ábyrgð á stjórnsýslu í þeim málaflokkum sem undir skrifstofuna heyra. Skrifstofan annast jafnframt almennt stjórnsýslueftirlit með stjórnsýslustofnunum sem undir málaflokkasviðið heyra. Málaflokkum skrifstofunnar fylgir mikið alþjóðlegt samstarf.
    Þessar upplýsingar og fleiri varðandi starfsemi ráðuneytisins og málaflokka þess má nálgast á vefsíðu ráðuneytisins, www.dmr.is.
    
    2.     Allir skrifstofustjórar ráðuneytisins stýra eigin skrifstofu og heyra ekki undir annan skrifstofustjóra.
    
    3.     Ráðuneytið greiðir bæði farsíma og heimatengingu á interneti fyrir skrifstofustjóra. Rík krafa er gerð um að skrifstofustjórar séu til taks og þá er farin sú leið að greiða nettengingar viðkomandi. Þá er skrifstofustjóri almanna- og réttaröryggis í stjórn Neyðarlínunnar en ákvörðun um greiðslur vegna þessa er hjá Neyðarlínunni
    
    4.     Fjöldi yfirvinnutíma skrifstofustjóra getur sveiflast mikið á milli mánaða. Meðaltal ársins 2018 tekið úr vinnustund var 9,4–25,6 stundir.
    
    5.     Undirstofnanir eru ýmist í samskiptum við skrifstofustjóra eða sérfræðinga í málaflokki undirstofnunnar. Í fjárveitingabréfum er kveðið á um formlega samskipti milli ráðuneytis og stofnana en þess fyrir utan eru samskiptin eftir þörfum.