Ferill 719. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 1990  —  719. mál.
Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Þorsteini Sæmundssyni um kaupendur fullnustueigna Íbúðalánasjóðs.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hverjir voru skráðir kaupendur á þinglýstum afsölum vegna fullnustueigna Íbúðalánasjóðs, þar sem Íbúðalánasjóður er afsalsgjafi, á árunum 2009 til og með 2018? Óskað er eftir yfirliti þar sem komi fram nafn afsalshafa, einstaklings eða fyrirtækis, heiti fasteignar og fasteignanúmer ásamt kaupverði í hverju tilviki.

    Í fyrirspurninni er óskað eftir miklu magni persónugreinanlegra upplýsinga og vafi er á hvort opinber birting þeirra samræmist lögum um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga nr. 90/2018. Að þessu leyti er fyrirspurnin sambærileg fyrirspurn sem beint var til félags- og barnamálaráðherra á yfirstandandi löggjafarþingi um kaupendur fullnustueigna Íbúðalánasjóðs 2008–2017 (þingskjal 836, 163. mál). Líkt og er rakið í því svari félags- og barnamálaráðherra var óskað eftir áliti Persónuverndar vegna vinnslu persónuupplýsinga. Í svari Persónuverndar kom fram að í ljósi 1. mgr. 50. gr. laga um þingsköp Alþingis, nr. 55/1991, hefði ráðherra rúmar heimildir til þess að afhenda upplýsingarnar en áréttað var að við vinnslu persónuupplýsinga bæri ávallt að fara að grunnreglum persónuverndarlaga þannig að við vinnslu upplýsinganna skyldi þess gætt að þær væru unnar með sanngjörnum, málefnalegum og lögmætum hætti, að þær væru fengnar í yfirlýstum, skýrum, málefnalegum tilgangi og ekki unnar frekar í öðrum og ósamrýmanlegum tilgangi og að þær væru nægjanlegar, viðeigandi og ekki umfram það sem nauðsynlegt væri miðað við tilgang vinnslunnar. Ljóst er af framangreindu að dómsmálaráðherra er heimilt að afhenda Alþingi þær upplýsingar sem óskað er eftir í fyrirspurninni
    Aftur á móti áréttar dómsmálaráðherra það sem fram kom í áðurnefndu svari félags- og barnamálaráðherra að birting á vef Alþingis telst opinber birting. Afstaða Persónuverndar var sú að Alþingi þyrfti að taka afstöðu til slíkrar birtingar. Ljóst er að Alþingi hefur ekki tekið afstöðu til opinberrar birtingar umræddra upplýsinga og vísað til þeirrar vinnureglu sinnar að svör við fyrirspurnum til ráðherra séu birtar á vef þingsins og þingið geti ekki tekið afstöðu til þess hvaða upplýsingar séu birtar á vef þess eða tekið ábyrgð á slíkri birtingu. Í ítarlegra áliti Persónuverndar til félags- og barnamálaráðherra kom fram að Persónuvernd mundi þurfa að veita sérstakt álit til Alþingis um opinbera birtingu upplýsinganna, óskaði þingið þess. Ekki liggur því fyrir álit Persónuverndar um opinbera birtingu upplýsinga á vef Alþingis, en fyrir liggur að afhendi dómsmálaráðherra upplýsingarnar verða þær birtar opinberlega án tafar.
    Í ljósi framangreinds og þess að vafi er á hvort opinber birting þeirra upplýsinga sem óskað er eftir samræmist lögum nr. 90/2018 sér dómsmálaráðherra sér ekki fært að afhenda þær Alþingi til opinberrar birtingar án þess að þingið takið ábyrgð á og afstöðu til lögmætis slíkrar birtingar. Aftur á móti er ekkert því fyrirstöðu að upplýsingarnar séu afhentar Alþingi verði þess óskað, til að mynda viðeigandi þingnefndum.