Ferill 867. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 1993  —  867. mál.
Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Ólafi Ísleifssyni um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna.


     1.      Hvaða rök standa til þess að foreldragreiðslur samkvæmt lögum um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna, nr. 22/2006, eru ekki skattfrjálsar líkt og á við um barnalífeyri almannatrygginga samkvæmt lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007?
    Að meginreglu til teljast allar tekjur, hlunnindi og fríðindi til skattskyldra tekna. Frá því eru nokkrar undantekningar og er sérstaklega kveðið á um þær í lögum. Barnalífeyrir sem greiddur er skv. 20. gr. laga um almannatryggingar, nr. 100/2007, ef annað hvort foreldri barns, eða bæði, eru látin eða örorkulífeyrisþegar telst ekki til skattskyldra tekna skv. 2. tölul. A-liðar 7. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003. Sama á við um barnalífeyri sem greiddur er veg na ófeðraðs barns eða barns foreldris sem sætir gæslu- eða refsivist. Litið er á slíkar umönnunargreiðslur, sem Tryggingastofnun ríkisins greiðir, sem fjárhagslega aðstoð vegna útlagðs kostnaðar. Foreldragreiðslur samkvæmt lögum um greiðslur til foreldra langveikra barna eða alvarlegra fatlaðra barna, nr. 22/2006, teljast hins vegar til skattskyldra tekna sem launagreiðslur og er lagður á þær tekjuskattur og útsvar eftir almennum reglum.

     2.      Hver yrði árlegur kostnaður ríkissjóðs ef umræddar foreldragreiðslur væru undanþegnar tekjuskatti?
    Væru umræddar foreldragreiðslur undanþegnar tekjuskatti má ætla að kostnaður ríkissjóðs yrði um 20 milljónir króna á ári. Ætla má að kostnaður sveitarfélaga af umræddri breytingu yrði um 23 milljónir króna á ári, í formi lægra útsvars.