Ferill 963. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 1995  —  963. mál.
Svar


samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra við fyrirspurn frá Vilhjálmi Árnasyni um innviðagjald.


     1.      Hvaða gjöld falla undir skilgreininguna innviðagjöld?
     2.      Hvert er markmið með innviðagjöldum sem sveitarfélög leggja á íbúa?
    Ekki er að finna skilgreiningu á svonefndum innviðagöldum í lögum. Við undirbúning svars ráðherra við fyrirspurn Eyglóar Harðardóttur um innviða- og byggingarréttargjöld á 146. löggjafarþingi (þingskjal 345, 107. mál) var aflað upplýsinga hjá Reykjavíkurborg um þau gjöld. Kom fram í svari borgarlögmanns að innviðagjöld feli í sér þátttöku lóðarhafa í innviðagerð í ákveðnum tilvikum. Innheimta þessa endurgjalds byggist ekki á sérstakri lagaheimild heldur á frjálsum einkaréttarlegum samningum Reykjavíkurborgar sem landeiganda og þeirra sem fá úthlutað byggingarlóðum.

     3.      Hvaða sveitarfélög hafa lagt á innviðagjöld?
    Heildstæð samantekt á því liggur ekki fyrir í ráðuneytinu en ljóst er að m.a. Reykjavíkurborg og önnur stór sveitarfélög hafa samið um innheimtu slíkra gjalda.

     4.      Hvert er svigrúm sveitarfélaga við lagningu innviðagjalds?
     5.      Hvaða skilyrði eru nauðsynleg að mati ráðuneytisins fyrir því að sveitarfélög geti lagt á innviðagjöld?
    Ljóst er að án sérstakrar lagaheimildar verða slík gjöld ekki lögð á nema með frjálsum einkaréttarlegum samningum. Einnig þarf að gæta að því að slík gjaldtaka fari ekki á svig við þann lagaramma sem er um tekjöflun og verkefni sveitarfélaga.

     6.      Telur ráðherra í lagi að setja á innviðagjald án lagaheimildar? Nægja einkaréttarlegir samningar sveitarfélaga til þess að réttlæta álagningu innviðagjalds?
    Sveitarfélögum er frjálst að gera einkaréttarlega samninga ef þess er gætt að efni slíkra samninga fari ekki á svig við ákvæði laga. Á það m.a. við um gerð samninga um töku innviðagjalda. Ef takmarka á samningsfrelsið þyrfti að gera það með sérstakri lagasetningu.