Ferill 893. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 1996  —  893. mál.
Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Ásmundi Friðrikssyni um stuðning við foreldra barna með klofinn góm.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hyggst ráðherra bæta stöðu þeirra barna sem fæðast með klofinn góm en falla utan greiðsluþátttöku sjúkratrygginga þegar kemur að tannréttingakostnaði og fá þannig ekki endurgreiðslu samþykkta hjá Sjúkratryggingum Íslands? Hvenær má búast við aðgerðum af hálfu ráðherra í þágu þessara barna og foreldra þeirra?

    Tannlækningar barna eru greiddar að fullu samkvæmt núgildandi greiðsluþátttökukerfi. Tannréttingar barna falla ekki undir greiðsluþátttökukerfið nema að hluta, þ.e. ungmenni sem byrja meðferð með föstum tækjum fyrir 21 árs aldur fá 150.000 kr. styrk úr sjúkratryggingum og þau ungmenni sem glíma við alvarlegar afleiðingar meðfæddra galla, slysa og sjúkdóma, sbr. 1. mgr. 20. gr. laga um sjúkratryggingar, nr. 112/2008, fá 95% hluta af tannréttingakostnaði samkvæmt reikningi tannlæknis endurgreiddan úr sjúkratryggingum.
    Þau börn sem fæðast með klofinn góm, mjúka eða harða eða með skarð í efri tannboga en falla utan greiðsluþátttöku sjúkratrygginga þegar kemur að tannréttingakostnaði teljast þá ekki vera með alvarlegar afleiðingar þess að hafa fæðst með klofinn góm eða með skarð í efri tannboga, eins og 1. mgr. 20. gr. laga um sjúkratryggingar áskilja og kveðið er á um í 1. tölul. 1. mgr. 15. gr. reglugerðar um þátttöku sjúkratrygginga í kostnaði sjúkratryggðra við tannlækningar, nr. 451/2013.
    Hvað varðar börn sem fæðast með skörð geta þau náð stundum til vara, tanngarðs og góms með víðtækum afleiðingum fyrir tennur og bit en önnur skörð birtast aðeins sem vik í mjúkvef vara eða góms og hafa hverfandi eða engin áhrif á tennur eða þroska annarra vefja. Þörf barna sem fædd eru með skarð er misjafnlega mikil, sum þurfa umfangsmiklar tannréttingar en önnur engar.
    Til að gæta að jafnræðisreglu stjórnsýslulaga þarf að meta sértækar aðgerðir til að bæta stöðu þeirra barna sem fæðast með klofinn góm en falla utan falla utan greiðsluþátttöku með heildstæðum hætti og er sú vinna í gangi í heilbrigðisráðuneyti.