Ferill 997. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 2021  —  997. mál.




Svar


umhverfis- og auðlindaráðherra við fyrirspurn frá Birni Leví Gunnarssyni um skógræktardag skólafólks.


     1.      Hversu oft hefur skógræktarstjóri nýtt sér heimildir 1. gr. laga nr. 13/1952, um skógræktardag skólafólks, á undanförnum árum? Hvenær var þeirri heimild beitt síðast?
    Skógræktarstjóri hefur ekki nýtt sér heimildir þessara laga undanfarin ár. Núverandi skógræktarstjóri hefur ekki nýtt sér þær og þær voru ekki nýttar í tíð Jóns Loftssonar (skógræktarstjóri 1990–2015). Ekki er vitað til þess að Sigurður Blöndal (skógræktarstjóri 1977– 1990) hafi notfært sér þessa heimild.
    Ekki liggja fyrir handhægar heimildir um hvenær þessari heimild var síðast beitt, en sennilega var það í kringum 1960.

     2.      Hversu oft hefur 3. gr. laganna verið beitt á undanförnum árum og í hvaða tilvikum var það gert?
    3. gr. laganna hefur ekki verið beitt á undanförnum árum.

     3.      Sér ráðherra fyrir sér að hægt verði að beita heimildum þessara laga til þess að hjálpa til við skógrækt í því skyni að ná umhverfismarkmiðum?
    Lög nr. 13/1952 voru felld úr gildi með setningu laga nr. 33/2019, um skóga og skógrækt. Mikilvægt er að mennta og fræða skólafólk um gildi skógræktar og er unnið að nokkrum verkefnum.
    Á undanförnum árum hefur m.a. skólafólk stundað skógrækt og hlotið fræðslu um skóga í gegnum verkefnin Lesið í skóginn sem Skógræktin starfrækir, Skóla á grænni grein (Grænfánaverkefni Landverndar) og Yrkjusjóð á vegum Skógræktarfélags Íslands. Þá tekur skólafólk þátt í skógræktarverkefnum á vegum samtakanna Gróður fyrir fólk í landnámi Ingólfs, skógræktarfélaga og sveitarfélaga, m.a. í gegnum vinnuskóla.
    Opinber stuðningur er við þessi verkefni og gert er ráð fyrir að hann aukist með auknum fjármunum hins opinbera til aðgerðaáætlunar í loftslagsmálum. Þess má geta að nú í vor undirrituðu Yrkjusjóður, Skógræktin og Landgræðslan samstarfsyfirlýsingu um aukna gróðursetningu grunnskólabarna og fræðslu fyrir þau um samspil kolefnisbindingar, landnotkunar og loftslagsmála. Verkefnið er liður í aðgerðaáætlun stjórnvalda í loftslagsmálum og fellur undir áherslur er lúta að kolefnisbindingu og aukinni fræðslu.