Ferill 315. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 2024  —  315. mál.




Svar


mennta- og menningarmálaráðherra við fyrirspurn frá Margréti Tryggvadóttur um textun á innlendu sjónvarpsefni.


     1.      Eftir hvaða reglum fer RÚV við textun á innlendu sjónvarpsefni í því skyni að auðvelda heyrnarlausum og heyrnarskertum að fylgjast með útsendingum?
    Ríkisútvarpið fylgir 6. gr. laga um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu, nr. 23/2013, og ákvæðum um textun í samningi mennta- og menningarmálaráðherra og Ríkisútvarpsins ohf. um fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu 2016–2019 sem gerður er á grundvelli 4. mgr. 2. gr. laga nr. 23/2013. Kafli 2.2.2 í samningnum fjallar um aðgengismál. Um textun segir þar: „Öll forunnin innlend dagskrá skal textuð eftir því sem unnt er og sama gildir um undirbúin innlend innslög í aðalfréttatíma sjónvarps.“ Einnig segir þar: „Fréttaskýringarþættir sem sendir eru út í beinni útsendingu skulu textaðir fyrir endursýningu.“
    Allur skjátexti með innlendu efni í línulegri sjónvarpsdagskrá er sendur út á síðu 888 í textavarpi. Forunnið innlent efni er með forunnum texta. Aðalfréttatími í sjónvarpi kl. 19 er í beinni útsendingu og er textinn einnig sendur út beint á síðu 888. Íþróttafréttir að loknum fréttum kl. 19 eru sendar út með texta á síðu 888. Veðurfréttir og fréttir kl. 22 eru ekki sendar út með texta. Fréttaskýringaþátturinn Kastljós er textaður að lokinni beinni útsendingu og endursýndur með 888-texta í lok dagskrár sama kvöld.
    Þegar sendir eru út aukafréttatímar um málefni eða atburði sem varða alla, svo sem um náttúruvá, stórslys eða hryðjuverk og þegar stórtíðindi verða á stjórnmálasviðinu, er venjan að kalla til rittúlk og senda út 888-texta. Þannig er reynt að tryggja að öryggishlutverk RÚV sé rækt á þessu sviði. Í aðdraganda kosninga eru umræðuþættir og viðtöl send út með texta en rittúlkur kallaður til í beinum útsendingum. RÚV hefur aðeins aðgang að tveimur rittúlkum. Þess vegna er ekki kostur á að rittúlka aðrar beinar útsendingar en þær sem hér eru taldar. Sérhæfður túlkur túlkar það sem sagt er og skilar því af sér sem rituðu máli, það er að segja sem skjátexta. Slíkt útheimtir þekkingu á túlkun og mikla þjálfun.
    RÚV gengur lengra en kveðið er á um í samningnum þegar þess er kostur. Í fyrsta lagi hafa menningarviðburðir í beinni útsendingu verið með 888-texta þegar þeir eru unnir eftir handriti með skrifuðum ræðum og innslögum og má nefna að undanfarin tvö ár hefur Klassíkin okkar verið send út með texta. Bein útsending frá hátíðardagskrá í tilefni af 100 ára fullveldi Íslendinga 1. desember 2018 var einnig með 888-texta og þegar þetta er skrifað er verið að undirbúa 888-textun á beinni útsendingu frá Íslensku bókmenntaverðlaununum. Í öðru lagi er nú hægt að nálgast íslenskan texta með öllu forunnu íslensku sjónvarpsefni í spilara á vef RÚV, ruv.is/sjonvarp. Opnað var fyrir þessa þjónustu í desember 2018.

     2.      Telur ráðherra reglurnar fullnægjandi og að nægilegt fjármagn sé til þess að framfylgja þeim hjá stofnuninni?
    Ráðuneytið telur reglurnar fullnægjandi og Ríkisútvarpið uppfyllir þær kröfur sem gerðar eru í samningi mennta- og menningarmálaráðherra og Ríkisútvarpsins ohf. um fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu 2016–2019. Forsendur og ákvæði samningsins um þessi efni eru sífellt til endurskoðunar sökum þess að hraðar tækniframfarir, breytt neyslumynstur og mismunandi aðferðir til að taka við og nota efni Ríkisútvarpsins kalla á að þjónustustigið sé endurmetið með tilliti til þess.

     3.      Hefur komið til álita að nota talgreini til að texta beinar útsendingar?
    Sem stendur er ekki hægt að nota talgreini til að texta beinar útsendingar vegna þess að ekki er völ á fullnægjandi búnaði sem þekkir og getur greint íslenskt tal. RÚV hefur áhuga á að nýta slíkan búnað ef og þegar þess verður kostur en til þess þarf fjármagn sem RÚV hefur ekki yfir að ráða. Hins vegar er ljóst að máltækniverkefni stjórnvalda getur komið að slíku í framtíðinni.

     4.      Telur ráðherra að núverandi ástand textunar á innlendu sjónvarpsefni hjá RÚV sé í samræmi við 9. og 21. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks?
    Já. Sú þjónusta sem nú er veitt er umfram þá grunnþjónustu sem framangreind ákvæði samnings Sameinuðu þjóðanna kveða á um.