Ferill 671. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 2040  —  671. mál.




Svar


utanríkisráðherra við fyrirspurn frá Ingu Sæland um nefndir, starfshópa, faghópa og ráð á vegum ráðuneytisins.


     1.      Hvaða nefndir, starfshópar, faghópar, ráð og áþekkir hópar starfa á vegum ráðuneytisins? Meðlimir hvaða hópa fá greidd laun fyrir vinnu sína?
    Eftirfarandi nefndir og starfshópar eru nú starfandi á vegum ráðuneytisins:
    Þróunarsamvinnunefnd, lögbundin – formaður fær greiddan ferðakostnað.
    Landsnefnd um mannúðarrétt – þóknun ekki greidd.
    Starfshópur vegna skýrslu EES – þóknun greidd.
    Starfshópur um gerð áætlunar um fjölgun afgreiðslustaða fyrir vegabréfsáritanir í sendiráðum Íslands erlendis – þóknun ekki greidd.
    Starfshópur vegna innleiðingar Íslands á bókun 35 við EES-samninginn – þóknun greidd.
    Starfshópur um mannréttindamiðaða þróunarsamvinnu í tvíhliða samstarfi – þóknun greidd.
    Starfshópur vegna Háskóla Sameinuðu þjóðanna á Íslandi – þóknun greidd.

     2.      Hversu mikill kostnaður hlaust af starfsemi ofangreindra hópa árið 2018?
    Kostnaður ráðuneytisins vegna fyrrgreindra hópa og nefnda á árinu 2018 nam samtals 848.771 kr. Kostnaður vegna vinnuframlags starfsmanna ráðuneytisins vegna hópanna er ekki tiltekinn.

     3.      Hyggst ráðherra stuðla að einfaldara og ódýrara stjórnkerfi með því að fækka launuðum nefndum, starfshópum, faghópum, ráðum og áþekkum hópum á vegum ráðuneytisins?
    Eins og fram kemur í svari við 1. tölulið fyrirspurnarinnar er ein nefndanna lögbundin. Ávallt er reynt að gæta aðhalds og hagkvæmni við skipun nefnda og starfshópa og í rekstri þeirra. Tilgangur og markmið með skipun nefnda og starfshópa að frumkvæði ráðherra er í grófum dráttum þrenns konar, í fyrsta lagi að tryggja samráð og samvinnu milli fulltrúa þeirra stjórnvalda sem hafa aðkomu að viðkomandi málefni lögum samkvæmt, í öðru lagi að tryggja að sjónarmið helstu hagsmunaaðila komist að í umfjöllun og við stefnumótun stjórnvalda á málefnasviðum sem þau varða og í þriðja lagi að tryggja faglega stefnumótun og úrvinnslu mála með aðkomu utanaðkomandi sérfræðinga á viðkomandi sviði. Kostnaður vegna nefnda liggur fyrst og fremst í þóknunum sem greiddar eru til utanaðkomandi sérfræðinga fyrir þátttöku þeirra í nefndarstarfi, enda er það meginregla að ekki sé greitt fyrir setu fulltrúa stjórnvalda og hagsmunaaðila í nefndum og ráðum á vegum ráðuneyta.
    Alls fóru fimm vinnustundir í að taka þetta svar saman.