Ferill 762. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 2042  —  762. mál.
2. umræða.



Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt og lögum um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur (skattlagning tekna af höfundaréttindum).

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ingibjörgu Helgu Helgadóttur, Hlyn Ingason og Steinar Örn Steinarsson frá fjármála- og efnahagsráðuneyti, Elínu Ölmu Arthursdóttur og Jón Ásgeir Tryggvason frá ríkisskattstjóra, Karl Ágúst Úlfsson og Sigríði Rut Júlíusdóttur frá Rithöfundasambandi Íslands, Aðalheiði Dögg Finnsdóttur og Hörpu Hrönn Sigurjónsdóttur frá Myndstefi, Jakob Frímann Magnússon frá STEF og Guðjón Bragason frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Nefndinni bárust umsagnir og önnur erindi um málið frá fjármála- og efnahagsráðuneyti, ríkisskattstjóra, Alþýðusambandi Íslands, Myndstefi, Rithöfundasambandi Íslands, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og STEF.
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003, annars vegar og lögum um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur, nr. 94/1996, hins vegar. Í breytingunum felst að greiðslur til einstaklinga sem rétthafa höfundaréttinda frá viðurkenndum rétthafasamtökum skuli teljast til fjármagnstekna án nokkurs frádráttar og að slíkar greiðslur verði staðgreiðsluskyldar samkvæmt lögum um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur.

Gildissvið frumvarpsins.
Viðurkennd rétthafasamtök – breytingartillaga.
    Við umfjöllun nefndarinnar um málið var gagnrýnt að samkynja greiðslur yrðu skattlagðar á mismunandi hátt eftir því hvort rétthafi fengi þær greiddar frá viðurkenndum rétthafasamtökum eða ekki. Komu fram sjónarmið um að slík framkvæmd mundi stangast á við grundvallarreglur um jafnræði og neikvætt félagafrelsi.
    Í minnisblaði fjármála- og efnahagsráðuneytisins til nefndarinnar er gerð tillaga að breyttu orðalagi ákveði nefndin að breyta frumvarpinu í þá veru að skilyrðið um að greiðslur komi frá viðurkenndum samtökum rétthafa verði fellt brott. Meiri hlutinn fellst á þá tillögu sem þar er að finna og leggur til að gildissvið frumvarpsins nái til greiðslna til höfunda eða annarra einstaklinga sem rétthafa vegna síðari afnota eftir að verk skv. 1. gr. höfundalaga, nr. 73/1972, hefur verið gert aðgengilegt almenningi, birt eða gefið út, sbr. 2. og 3. gr. sömu laga.

Nánari skýringar.
    Meiri hlutinn leggur áherslu á að gildissvið frumvarpsins nái eingöngu til greiðslna af verki í skilningi 1. gr. höfundalaga og jafnframt eingöngu að því gefnu að verk hafi verið gert aðgengilegt almenningi í skilningi 3.–5. mgr. 2. gr., birt í skilningi 1. mgr. 3. gr. eða g efið út í skilningi 2. mgr. 3. gr. höfundalaga. Með orðunum vegna síðari afnota er ætlunin að afmarka gildissvið frumvarpsins annars vegar við tekjur sem falla til eftir að verk er gert aðgengilegt, birt eða gefið út, og hins vegar við tekjur sem skapast vegna afnota en ekki tekjur af sölu eintaka eða öðru því líku.
    Með frumvarpinu var ekki ætlunin að hrófla við þeirri meginreglu að greiðslur vegna sölu á verkum sem jafna má við hverja aðra vörusölu, svo sem sölu á útgáfurétti, bókum, tónlist, myndverkum, aðgöngumiðum á listviðburði og öðru slíku, teldust til almennra tekna viðkomandi. Hið sama á við verði breytingartillaga meiri hlutans samþykkt. Sem dæmi má nefna að endurútgáfa bókar telst samkvæmt skilningi meiri hlutans til vörusölu og heyrir því ekki undir gildissvið frumvarpsins. Hið sama á við um kaup á lagi til afspilunar og aðrar beinar tekjur af seldum eintökum. Aftur á móti falla óbeinar tekjur af nýtingu á verki undir gildissvið þess, svo sem við á um tekjur vegna flutnings verks í útvarpi eða tónverks í leiksýningu, tekjur vegna notkunar listaverks á tækifæriskort, tekjur vegna upplestrar úr útgefnu bókmenntaverki o.s.frv.
    Loks er rétt að taka fram að gildissvið frumvarpsins nær eingöngu til tekna einstaklinga sem rétthafa utan atvinnurekstrar en ekki til tekna lögaðila eða sjálfstætt starfandi aðila. Þar sem þær tekjur sem heyra undir frumvarpið teljast til eignatekna eftir gildistöku þess er allur frádráttur á móti þeim óheimill, líkt og fram er tekið í 1. gr.

Reglugerðarheimild.
    Í minnisblaði ríkisskattstjóra til nefndarinnar er lagt til að sérstaklega verði tekið fram að ráðherra sé heimilt að setja reglugerð um nánari útfærslu á skattlagningu tekna af höfundaréttindum. Meiri hlutinn telur að heimild til setningar slíkrar reglugerðar rúmist innan ákvæðis 1. mgr. 121. gr. laga um tekjuskatt og hvetur til þess að hún verði nýtt til að skýra nánari atriði um útfærslu skattlagningarinnar innan marka laganna.
    Að framansögðu virtu leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      Í stað orðanna „frá viðurkenndum samtökum rétthafa“ í 1. og 2. gr. komi: vegna síðari afnota eftir að verk skv. 1. gr. höfundalaga, nr. 73/1972, hefur verið gert aðgengilegt almenningi, birt eða gefið út, sbr. 2. og 3. gr. sömu laga.
     2.      Orðin „frá viðurkenndum samtökum rétthafa“ í fyrirsögn 21. gr. a í 2. gr. falli brott.

    Sigmundur Davíð Gunnlaugsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins en ritar undir nefndarálit þetta samkvæmt heimild í 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fastanefnda Alþingis.

Alþingi, 27. ágúst 2019.

Óli Björn Kárason,
form.
Bryndís Haraldsdóttir,
frsm.
Njáll Trausti Friðbertsson.
Ólafur Þór Gunnarsson. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. Willum Þór Þórsson.