Ferill 1023. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 2048  —  1023. mál.




Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Ólafi Ísleifssyni um rafrænar þinglýsingar.


     1.      Hverjir teljast vera helstu hagsmunaaðilar í skilningi 12. gr. reglugerðar um rafrænar þinglýsingar, nr. 360/2019?
    Í 1. mgr. 12. gr. reglugerðarinnar er fjallað um framkvæmdina við leiðréttingu skráðra kröfuhafa sem taldir eru upp í 2. málsl. bráðabirgðaákvæðis II í þinglýsingalögum, þ.e. ríkissjóðs, opinberra stofnana, banka, sparisjóða, lífeyrissjóða, tryggingafélaga og verðbréfasjóða. Þeir sem teljast vera hagsmunaaðilar við ákvörðun um tæknilega framkvæmd leiðréttingar á skráðum kröfuhöfum sem teljast til framangreindra aðila eru Samtök fjármálafyrirtækja og Landssamtök lífeyrissjóða.

     2.      Við hvaða hagsmunaaðila hefur verið haft samráð skv. 12. gr. reglugerðar nr. 360/2019, við hverja stendur til að hafa samráð, hverja ekki og hvers vegna?
    Með vísan til svars við 1. tölul. fyrirspurnarinnar hefur verið haft samráð við Samtök fjármálafyrirtækja og Landssamtök lífeyrissjóða og er því samráði lokið.

     3.      Hvernig hyggst ráðherra gæta jafnræðis milli ólíkra hagsmunaaðila við samráð skv. 12. gr. reglugerðar nr. 360/2019?
    Framangreint samráð tók til ákvarðanatöku um tæknilega framkvæmd leiðréttingar skráningar á fyrir fram ákveðnum hópi kröfuhafa sem eru lögaðilar undir sérstöku opinberu eftirliti. Öðrum kröfuhöfum en þeim sem sérstaklega er tilgreindir í 2. málsl. bráðabirgðaákvæðis II í þinglýsingalögum, hvort sem það eru einstaklingar eða lögaðilar, ber að framvísa frumriti veðbréfsins hjá þeim sýslumanni þar sem réttindunum er þinglýst á sama hátt og verið hefur. Ekki hefur verið tekin ákvörðun um fyrirkomulag samráðs við slíka kröfuhafa, komi til breytinga á framkvæmd leiðréttingar á skráningu hvað þá varðar.

     4.      Hvernig hyggst ráðherra tryggja aðkomu fulltrúa einstaklinga, sem eru aðilar að veðsamningum, að samráði skv. 12. gr. reglugerðar nr. 360/2019?
    Leiðrétting skráðra kröfuhafa skv. 12. gr. reglugerðarinnar og bráðabirgðaákvæði II í þinglýsingalögum er framkvæmd í þeim tilgangi að staðfesta kröfueiganda veðbréfa, enda var ekki skylt að þinglýsa kröfuhafaskiptum fyrir gildistöku laga nr. 151/2018. Eins og fram hefur komið í svari við 3. tölul. fyrirspurnarinnar hefur ekki verið tekin ákvörðun um breytingu á framkvæmd skráningar kröfuhafa þegar kröfuhafi er einstaklingur eða lögaðili sem fellur utan þess að teljast til þeirra sem upp eru taldir í svari við 1. tölul. fyrirspurnarinnar. Þá er rétt að benda á að bæði drög að reglugerðinni um rafrænar þinglýsingar og frumvarpið er varð að lögum nr. 151/2018, um breytingu á þinglýsingalögum, lögum um rafræn viðskipti og aðra rafræna þjónustu og lögum um aukatekjur ríkissjóðs, fór í opið samráð á samráðsgátt stjórnvalda áður en verklagið var samþykkt.

     5.      Hvernig sér ráðherra fyrir sér að aðrir en þinglýstir veðkröfuhafar geti sannað rétt sinn til veðréttinda sem þeir gætu viljað leiðrétta skráningu á skv. 12. gr. reglugerðar nr. 360/2019, ef ekki með framvísuðu frumriti veðbréfs árituðu um framsal?
    Sá sem óskar þess að verða skráður eigandi kröfu samkvæmt veðbréfi í þinglýsingabókum verður að sýna fram á að hann sé réttur eigandi bréfsins. Það er gert með því að framvísa frumriti bréfsins hjá þeim sýslumanni þar sem réttindunum er þinglýst, eftir atvikum með áritun á bréfið um að hann sé kröfuhafi samkvæmt framsali í samræmi við ólögfestar viðskiptabréfareglur.

     6.      Hvernig geta einstaklingar sem eru aðilar að veðsamningum leitað leiðréttingar á skráningu kröfuhafa í þeim tilvikum þegar skráning þeirra kann að vera röng?
    Vísað er til svars við 5. tölul. fyrirspurnarinnar. Rétt er að benda á að framsal kröfuréttinda eru frjáls og eru ekki háð samþykki skuldara. Því getur skuldari ekki óskað eftir að skráningu kröfuhafa í þinglýsingabók sé breytt.