Ferill 1020. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 2049  —  1020. mál.




Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Jóni Þór Ólafssyni um gerðabækur fyrir nauðungarsölur.


     1.      Hvaða reglur gilda um skráningu sýslumanna í gerðabók á atriðum er varða meðferð beiðna um nauðungarsölu á íbúðarhúsnæði í eigu einstaklinga?
    Um skráningu sýslumanna í gerðabók gildir reglugerð nr. 227/1992, um málaskrár og gerðabækur fyrir nauðungarsölur, sett með stoð í 4. gr. laga nr. 90/1991, um nauðungarsölu.

     2.      Hvaða form er á gerðabókum fyrir nauðungarsölur? Hvaða stöðluðu form eru notuð og hvernig er skráningum í gerðabók háttað, þar á meðal hvenær þær eru handskrifaðar eða tölvufærðar á mismunandi stigum málsmeðferðar?
    Um form gerðabóka er fjallað í 7. gr. reglugerðar nr. 227/1992 en málaskrá fyrir nauðungarsölur er einn hluti af upplýsingakerfi sýslumanna. Gerðabók fyrir nauðungarsölur skal annaðhvort vera handrituð bók eða vélrit eða útprentun úr tölvu á laus blöð. Við fyrstu fyrirtöku og byrjun uppboðs, sem fram fer á skrifstofum sýslumanna, er notast við tölvukerfi sýslumanna og bókunin færð inn á staðlað form í málaskrárkerfinu og formið að lokum prentað út úr upplýsingakerfinu. Við framhaldssölur sem fara fram á eignunum sjálfum er hins vegar notast við staðlaðar gerðabækur og bókunin handrituð.
    Undirbúningur að fyrirtöku máls er m.a. fólginn í því að færa inn fyrirliggjandi upplýsingar, t.d. um viðkomandi eign, gerðarbeiðendur og gerðarþola og framlögð skjöl. Formin eru síðan fyllt út nánar í fyrirtöku eftir því sem viðkomandi gerð vindur fram.

     3.      Þegar færsla í gerðabók er handskrifuð, geta fleiri en sá fulltrúi sem framkvæmir gerðina ritað um hana í gerðabók?
    Sýslumaður eða löglærður fulltrúi ritar í gerðabók við fyrstu fyrirtöku og byrjun uppboðs, þ.e. færir inn á formið þær upplýsingar sem fram koma við gerðina. Sama gildir við framhaldssölur en sums staðar ritar skrifstofumaður/ritari fullnustusviðs þessar upplýsingar í gerðabókina samkvæmt fyrirmælum sýslumanns eða löglærðs fulltrúa.

     4.      Ef færsla í gerðabók er handskrifuð á staðlað eyðublaðsform, hvernig er tryggt að ekki sé hægt bæta upplýsingum eftir á inn á auð svæði á slíku eyðublaðsformi?
    Gerðabækur embættanna eru varðveittar í læstum húsum sýslumannsembætta landsins. Við útfyllingu gerðabóka eru þeir hlutar gerðabóka sem ekki eru fylltir út að jafnaði yfirstrikaðir. Í lokin kvitta viðstaddir í gerðabókina til staðfestingar á því hvernig gerðin fór fram.

     5.      Hver er þýðing undirritunar gerðarþola í gerðabók, umfram það að staðfesta að gerðarþoli hafi verið viðstaddur gerðina?
    Um undirritanir er fjallað í 2. tölul. 7. gr. reglugerðarinnar en þar segir að vélrit eða útprentun úr tölvu á laus blöð skuli undirrituð af þeim sem framkvæmir aðgerð við nauðungarsölu. Aðilar máls sem mæta við fyrirtökuna undirrita í lokin gerðabókina til staðfestingar á því sem þar er skráð.

     6.      Hvaða réttaráhrif getur röng skráning í gerðabók haft í för með sér? Getur gerðarþoli borið ábyrgð á því ef færsla er ranglega skráð í gerðabók?
    Réttaráhrifin ráðast af efni skráningarinnar. Rétt er að benda á ákvæði 71. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991, þar sem segir að skjöl sem embættis- eða sýslunarmenn gefa út í embættisnafni um það sem gerist í embætti þeirra eða sýslan séu opinber. Þar til annað sannast skal telja íslenskt opinbert skjal ófalsað ef það stafar frá embættis- eða sýslunarmanni eftir formi sínu og efni og skal efni opinbers skjals talið rétt ef það varðar tiltekin atvik sem er sagt að hafi gerst í embætti eða sýslan útgefanda. Rétt er að nefna að gerðarþolar eiga rétt á að bera ákvarðanir sýslumanns undir héraðsdóm eftir ákvæðum laga nr. 90/1991, um nauðungarsölu.

     7.      Hver er réttur gerðarþola til að fá afhent ljósrit af handskrifuðum færslum í gerðabók sýslumanns vegna meðferðar nauðungarsölumáls?
    Í umræddri reglugerð segir í 6. gr. að sýslumanni sé skylt að láta þeim sem hefur lögvarinna hagsmuna að gæta í té staðfest eftirrit af framlögðu skjali og endurrit úr gerðabók eftir því sem þess er beiðst.

     8.      Hvaða réttarúrræði standa til boða fyrir gerðarþola sem telur sig geta fært sönnur á að skráning í gerðabók sýslumanns vegna meðferðar nauðungarsölumáls sé röng eða hafi verið fölsuð, þannig að það geti haft í för með sér áhrif á réttarstöðu hans, samkvæmt nánar tilteknum lagaákvæðum og reglum þar að lútandi?
    Þeir sem hafa lögvarinna hagsmuna að gæta geta leitað úrlausnar héraðsdómara ýmist eftir reglum XIII. eða XIV. kafla laga nr. 90/1991, um nauðungarsölu.