Ferill 1016. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 2059  —  1016. mál.
Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Jóni Þór Ólafssyni um brottvísun barna sem sótt höfðu um alþjóðlega vernd.


     1.      Í hve mörgum af 317 tilfellum er varða brottvísun barna úr landi, sem sótt höfðu um alþjóðlega vernd, sbr. svar á þskj. 1637, var synjað um efnismeðferð? Í hve mörgum tilfellum var synjað um alþjóðlega vernd í kjölfar efnislegrar meðferðar? Hve mörg þessara barna voru ekki í fylgd með foreldrum sínum og á hvaða aldri voru þau?
    Af þeim 317 börnum sem þurft hafa að yfirgefa landið í kjölfar ákvörðunar Útlendingastofnunar á tímabilinu 13. mars 2013 til 10. apríl 2019 eru 274 börn frá ríkjum sem eru á lista yfir örugg upprunaríki. Af þeim voru fjögur fylgdarlaus, eitt 15 ára, eitt 16 ára og eitt 17 ára og eitt sem var orðið 18 ára þegar því var fylgt úr landi. Fylgdarlausu börnin voru öll frá öruggum upprunaríkjum. Af þeim 317 börnum sem vísað er til var 62 börnum synjað um efnislega meðferð og 255 börnum var synjað um vernd, viðbótarvernd og mannúðarleyfi í kjölfar efnislegrar meðferðar.

     2.      Var í öllum tilfellum við ákvörðun í málum barnanna 317 tekin skrifleg afstaða til þess sem er barninu fyrir bestu, eins og mælt er fyrir um í 5. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, nr. 80/2016, og litið til:
                  a.      möguleika barns á fjölskyldusameiningu, öryggis þess, velferðar og félagslegs þroska,
                  b.      skoðana barnsins í samræmi við aldur þess og þroska?
    Fyrir gildistöku nýrra laga um útlendinga var lagt mat á hagsmuni barnsins í samræmi við Barnasáttmálann og ákvæði þágildandi laga um útlendinga. Matið fór fram með öðrum hætti en nú og báru ákvarðanir Útlendingastofnunar ekki eins skýr merki um matið og nú. Frá því að ný lög um útlendinga, nr. 80/2016, tóku gildi hinn 1. janúar 2017 hefur ákvæðum þeirra verið fylgt. Því hefur verið tekið mið af 5. mgr. 37. gr. laganna í öllum málum er varða börn frá því að ákvæðið kom í lög. Í ákvæðinu segir að í málum sem varða börn, fylgdarlaus sem önnur, skuli það sem barninu er fyrir bestu haft að leiðarljósi. Við mat á því hvað barni er fyrir bestu skal Útlendingastofnun líta til möguleika barns á fjölskyldusameiningu, öryggis þess, velferðar og félagslegs þroska auk þess sem taka skal tillit til skoðana barnsins í samræmi við aldur þess og þroska. Við ákvörðun í máli er varðar hagsmuni barns skal Útlendingastofnun taka skriflega afstöðu til framangreindra atriða samkvæmt grein þessari. Við framkvæmd þessarar greinar skal stofnunin eiga samráð við barnaverndaryfirvöld og þegar um er að ræða fylgdarlaus börn er skylt að leita umsagnar Barnaverndarstofu áður en ákvörðun er tekin.

     3.      Var við ákvörðun í framangreindum málum leitað samráðs við barnaverndaryfirvöld, eins og mælt er fyrir um í 5. mgr. 37. gr. laga nr. 80/2016? Var leitað umsagnar Barnaverndarstofu þegar um var að ræða fylgdarlaus börn, eins og skylt er að gera samkvæmt sama ákvæði?
    Samkvæmt ákvæðinu, 5. mgr. 37. gr. útlendingalaga, skal Útlendingastofnun eiga samráð við barnaverndaryfirvöld við framkvæmd greinarinnar og er það gert með reglulegum fundum, eða a.m.k. einum fundi í mánuði og oftar ef á þarf að halda. Þegar um fylgdarlaus börn er að ræða er alltaf leitað eftir umsögn Barnaverndarstofu í samræmi við það sem segir í ákvæðinu. Í samráði við Barnaverndarstofu veitti Barnahús starfsfólki Útlendingastofnunar sérstaka fræðslu um hvernig taka skuli rannsóknarviðtöl við börn. Í kjölfarið var viðmiðunaraldur barna sem boðið er í viðtal hjá Útlendingastofnun lækkaður niður í sex ára en áður hafði verið miðað við 15 ára. Í dag er ekki miðað við neinn sérstakan aldur og börnum er boðið viðtal að teknu tilliti til þroska þeirra og getu. Hjá Útlendingastofnun er lögð áhersla á að innan stofnunarinnar sé til staðar nauðsynleg sérþekking á málefnum barna í leit að alþjóðlegri vernd, bæði hvað varðar þau sem eru í fylgd og þau sem eru fylgdarlaus. Meðal annars hefur starfsmaður stofnunarinnar sótt sér sérstaka fræðslu í málefnum barna hjá EASI, evrópsku stuðningsskrifstofunni í málefnum umsækjenda um alþjóðlega vernd. Fræðslan fólst fyrst og fremst í viðtalstækni þegar tekin eru rannsóknarviðtöl við börn og þjálfun í að veita öðru starfsfólki stofnunarinnar slíka fræðslu.

     4.      Telur ráðherra að rökstuðningur Útlendingastofnunar í málum þessara 317 barna falli undir upplýsingalög, nr. 140/2012? Ef ekki, hvaða lagaheimildir hefur ráðherra til að birta rökstuðninginn? Hverjum má birta hann, annars vegar í heild sinni og hins vegar án persónugreinanlegra upplýsinga?
    Í lögum nr. 80/2016, um útlendinga, kemur fram að kærunefnd útlendingamála skuli að jafnaði birta þá úrskurði sína sem fela í sér efnisniðurstöðu, eða eftir atvikum útdrætti úr þeim. Úrskurðirnir eru birtir án nafna, kennitalna og annarra persónugreinanlegra auðkenna aðila að viðkomandi málum. Að öðru leyti fer um heimildir ráðherra og annarra stjórnvalda til að veita aðgang að upplýsingum eftir stjórnsýslulögum og upplýsingalögum.