Ferill 934. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 2077  —  934. mál.
Svar


umhverfis- og auðlindaráðherra við fyrirspurn frá Birni Leví Gunnarssyni um útgjöld og notkun á almennum og sérsmíðuðum hugbúnaði hjá ráðuneytinu og undirstofnunum þess.


    Upplýsingar um A-hluta stofnanir ráðuneytisins byggjast á upplýsingum fengnum hjá viðkomandi stofnun. Stofnunum ráðuneytisins var bent á að hægt væri að nota eftirtalda tegundalykla í fjárhagskerfi ríkisins (ORRA) við vinnslu fyrirspurnarinnar:
    54520 Hugbúnaðargerð
    54521 Hugbúnaðargerð án VSK
    55170 Hugbúnaður
    55540 Uppsetning á net og hugbúnaði
    55548 Uppsetning á net og hugbúnaði án VSK
    58915 Hugbúnaðarleyfi
    Kostnaður vegna leyfis- og þjónustugjalda færist á tegundalykil 55170. Því var við vinnslu svarsins ekki hægt að sundurgreina með heildstæðum hætti á milli leyfis- og þjónustugjalda. Þá má benda á að í sumum tilfellum er þjónusta innifalin í leyfisgjaldi eða öfugt. Í einhverjum tilvikum getur verið um það að ræða að kostnaður tengdur hugbúnaði sé hluti af öðrum kostnaði og sé færður á aðra tegundalykla í bókhaldi. Á kostnaðartegundum sem tengjast hugbúnaði getur einnig verið kostnaður tengdur vefmálum og kostnaður við rekstur hugbúnaðar. Hafa ber framangreint í huga við skoðun á kostnaðartölum í þessu svari en kostnaður getur þannig bæði verið oftalinn og vantalinn. Kostnaður vegna vinnu eigin starfsmanna sem tengist sérsmíðuðum hugbúnaði er ekki færður á þá tegundalykla sem taldir voru upp hér að ofan. Hjá þeim stofnunum ráðuneytisins sem eru með sérsmíðaðan hugbúnað hefur ekki verið haldið sérstaklega utan um þennan kostnað nema hjá Veðurstofu Íslands.

     1.      Hver hafa verið útgjöld ráðuneytisins og undirstofnana þess vegna hugbúnaðarkaupa frá árinu 2009? Hve háum fjárhæðum var varið til kaupa á sérsmíðuðum kerfum annars vegar og til kaupa á almennum hugbúnaði hins vegar?
    Í eftirfarandi töflu eru upplýsingar um kostnað í milljónum króna vegna almenns hugbúnaðar og sérsmíðaðs hugbúnaðar á árabilinu 2009–2018 hjá ráðuneytinu og stofnunum þess:

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


     2.      Hve háum fjárhæðum vörðu ráðuneytið og undirstofnanir þess til greiðslu leyfisgjalda fyrir hugbúnað annars vegar og til greiðslu þjónustugjalda fyrir hugbúnað hins vegar frá árinu 2009?
    Eins og kemur fram hér að framan hefur við vinnslu svarsins ekki reynst unnt með heildstæðum hætti að sundurgreina kostnað vegna leyfis- og þjónustugjalda hjá ráðuneytinu og stofnunum þess. Kostnaður vegna leyfis- og þjónustugjalda er hluti af kostnaði við almennan hugbúnað í töflu hér að framan.

     3.      Hvaða sérsmíðaða hugbúnað er ráðuneytið og hver undirstofnun þess að nota og:
                  a.      hver er eigandi hugbúnaðarins,
                  b.      eftir hvaða hugbúnaðarleyfi er hugbúnaðurinn gefinn út,
                  c.      var hugbúnaðurinn þróaður af verktökum eða af forriturum í starfi innan ráðuneytis eða stofnunar,
                  d.      hver var kostnaðurinn við gerð hugbúnaðarins,
                  e.      hver er tilgangur hugbúnaðarins?

Umhverfisstofnun:
                  a.      Umhverfisstofnun hefur smíðað Gagnagáttina og er eigandi hennar.
                  b.      Þar sem hugbúnaðurinn er eingöngu notaður innan Umhverfisstofnunar hefur leyfi ekki verið sett á hann.
                  c.      Hugbúnaðurinn var þróaður af forritara í starfi innan stofnunarinnar, með einstaka viðbótum frá verktaka.
                  d.      Kostnað er erfitt að meta, vinna við hugbúnaðinn hefur dreifst á bæði sérlykla sem og sameiginlega lykla þeirra fjölmörgu málaflokka sem unnið er með í gáttinni.
                  e.      Tilgangurinn er að hafa miðlægan gagnagrunn til að einfalda vinnu starfsmanna. Hugbúnaðurinn bæði heldur utan um frumgögn sem og nær í gögn úr öðrum kerfum. Ytri aðilar nota þennan hugbúnað jafnframt til að skila inn eigin gögnum eftir því sem við á og þeim er skylt. Einnig sér hugbúnaðurinn um mjög sértæka framleiðslu afurða sem er skilað, ýmist á sjálfvirkan eða handvirkan máta, til ytri aðila, svo sem Umhverfisstofnunar Evrópu.
Úrvinnslusjóður:
                  a.      Úrvinnslusjóður.
                  b.      Hugbúnaðurinn er þróaður að öllu leyti samkvæmt forskrift Úrvinnslusjóðs og er í eigu sjóðsins. Ekki var gefið út neitt sérstakt hugbúnaðarleyfi vegna hans.
                  c.      Hugbúnaðurinn var þróaður í samstarfi Úrvinnslusjóðs og verktaka sem sá um tæknilega vinnu við forritun o.fl.
                  d.      0,7 millj. kr.
                  e.      Þetta er sett af sérsmíðuðum gagnavinnsluforritum sem færa gögn frá þjónustuaðilum með samning við Úrvinnslusjóð yfir í gagnagrunnsform til frekari úrvinnslu hjá sjóðnum.
Landmælingar Íslands:
                  a.      Landmælingar Íslands.
                  b.      Opin leyfi.
                  c.      Forriturum stofnunarinnar.
                  d.      Einungis vinnutími starfsmanna, ekki haldið sérstaklega utan um.
                  e.      Að veita kortum, loftmyndum og annarri kortaþjónustu á vef stofnunarinnar.
Náttúrufræðistofnun Íslands:
    Sérforritun fyrir Postgres-gagnagrunn:
                  a.      Opinn hugbúnaður.
                  b.      Engin leyfi.
                  c.      Nokkur mismunandi verkefni unnin bæði af verktökum og starfsfólki innan stofnunar.
                  d.      1,8 millj. kr.
                  e.      Uppsetning nokkurra mismunandi gagnagrunna á tímabilinu fyrir verkefnið Natura Ísland, náttúruminjaskrá, tegundagrunn til birtingar á vef o.fl.
    Sérforritun fyrir Drupal-vefkerfi:
                  a.      Opinn hugbúnaður.
                  b.      Engin leyfi.
                  c.      Þróað af verktökum.
                  d.      6,8 millj. kr.
                  e.      Birting tegunda á vef stofnunarinnar, sértæk leit á vef stofnunarinnar, ásamt fleiri sérlausnum fyrir vef.
    Sérforritun fyrir Eplica-vefkerfi:
                  a.      Hugsmiðjan.
                  b.      Sérbúnaður þar sem skilyrði voru fyrir notkun hugbúnaðarins.
                  c.      Þróað af verktökum.
                  d.      0,5 millj. kr.
                  e.      Sérlausnir á vef stofnunarinnar.
Veðurstofa Íslands:
    Ekki er hægt að tilgreina alla þá sérsmíði sem unnin hefur verið á sl. 10 árum án þess að leggja í það verulega vinnu og var því ákveðið að sundurgreina ekki svarið við 3. tölul. fyrirspurnarinnar. Hjá stofnuninni starfar 3–4 manna þróunarteymi sem vinnur að sérsmíði hugbúnaðar sem nauðsynlegur er vegna sérhæfni starfa Veðurstofu Íslands og ekki er hægt að kaupa annars staðar.