Ferill 999. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 2081  —  999. mál.
Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Karli Gauta Hjaltasyni um stjórnvaldssektir og dagsektir.


    Stofnanir dómsmálaráðuneytisins hafa almennt ekki heimildir til álagningar stjórnvaldssekta né dagsekta. Þó skulu sýslumenn úrskurða um álagningu dagsekta í þeim tilvikum þegar um er að ræða tálmun á umgengni við barn. Í einstaka tilvikum hafa sýslumönnum verið falin verkefni þar sem heimild til álagningar dagsekta er fyrir hendi. Þannig var sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu falið frá 1. janúar 2017 eftirlit með skráðum og skráningarskyldum aðilum sem bjóða upp á heimagistingu samkvæmt lögum um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald og leggja á stjórnvaldssekt þegar rekin er heimagisting án skráningar.
    Hvað varðar dagsektir í umgengnismálum vísar ráðuneytið til svars við fyrirspurn á þingskjali 2050 í 941. máli.
    Til að svara fyrirspurninni hvað varðar stjórnvaldssektir á grundvelli laga um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, nr. 85/2007, var leitað upplýsinga hjá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu. Svörin eru eftirfarandi:

     1.      Hver var fjöldi ákvarðana um stjórnvaldssektir annars vegar og dagsektir hins vegar í þeim stofnunum sem heyrðu undir ráðherra á árabilinu 2011–2018?
     a.      Fjöldi ákvarðana um stjórnvaldssektir: 35.
     b.      Fjöldi ákvarðana um dagsektir: 0 – enda ekki heimild til slíks.

     2.      Hversu margir voru þolendur ákvarðananna, skipt í einstaklinga og lögaðila?
     a.      Einstaklingar: 31.
     b.      Lögaðilar: 0.

     3.      Hver var upphæð sektanna í einstökum tilfellum og heildarupphæðir þeirra á hverju ári?
     a.      Upphæð stjórnvaldssekta í einstökum tilfellum: 100.000, 150.000, 170.000, 170.000, 285.000, 285.000, 300.000, 300.000, 350.000, 350.000, 350.000, 400.000, 400.000, 440.000, 450.000, 550.000, 550.000, 550.000, 600.000, 650.000, 650.000, 650.000, 900.000, 900.000, 900.000, 1.000.000, 1.050.000, 1.150.000, 1.400.000, 1.450.000, 2.000.000, 2.000.000, 2.000.000, 2.000.000, 2.000.000.
     b.      Heildarupphæð á árinu 2018: 27.450.00 kr.

     4.      Hversu margar þessara sekta voru innheimtar, hversu margar voru felldar niður eða lokið með öðrum hætti? Hversu mörgum þeirra var skotið til æðra stjórnvalds og hver voru afdrif málsins?
     a.      Um innheimtu: Sýslumaðurinn á Norðurlandi vestra, nánar tiltekið innheimtumiðstöð þess embættis á Blönduósi, sér um innheimtu álagðra stjórnvaldssekta vegna heimagistingar. Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu getur því ekki svarað því hversu margar sektir hafa verið innheimtar eða veitt upplýsingar um heildarfjárhæð innheimtra sekta. Réttast væri að beina þeirri fyrirspurn að framangreindri innheimtumiðstöð á Blönduósi.
     b.      Felldar niður eða lokið með öðrum hætti: 0 – álagðar stjórnvaldssektir hafa ekki verið felldar niður eða lokið með öðrum hætti.
     c.      Skotið til æðra stjórnvalds: 9 ákvarðanir vegna álagðra stjórnvaldssekta á almanaksárinu 2018 voru kærðar til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins.
     d.      Afdrif kærumála: Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hefur ekki kveðið upp úrskurð í kærumáli enn sem komið er.