Ferill 851. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 2094  —  851. mál.




Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Birgi Þórarinssyni um Eignasafn Seðlabanka Íslands ehf. og Hildu ehf.


    Ráðuneytið óskaði eftir upplýsingum frá Seðlabanka Íslands til þess að svara fyrirspurninni.

     1.      Eru Eignasafn Seðlabanka Íslands ehf. (ESÍ) og Hilda ehf. enn undanþegin ákvæðum upplýsingalaga? Ef svo er, hvenær var síðasta ákvörðun þess efnis tekin?
    Undanþága Eignasafns Seðlabanka Íslands ehf. (ESÍ) frá gildissviði upplýsingalaga var felld brott með auglýsingu forsætisráðherra nr. 448/2019, sem birtist í B-deild Stjórnartíðinda hinn 14. maí 2019. Hildu ehf. var síðast veitt undanþága til ársloka 2019 með sömu auglýsingu.

     2.      Hefur ESÍ stundað samkeppnisrekstur? Ef svo er, í hverju var hann fólginn og í samkeppni við hverja?
    Í umsögn Samkeppniseftirlitsins til forsætisráðuneytisins, dags. 18. febrúar 2019, skv. 3. mgr. 2. gr. upplýsingalaga, nr. 140/2012, kemur fram að ESÍ hafi með höndum samkeppnisrekstur sem fólginn sé í því að „selja fjárfestum eignir félagsins eða eftir atvikum skuldabréf eða aðra fjármálagerninga sem félögin hafi gefið út og tengist tilgangi og eignum félaganna“. Jafnframt segir þar að starfsemi félagsins sé „að nær öllu leyti í samkeppni við einkaaðila“. Af umsögninni má jafnframt sjá að samkeppnisaðilar séu aðilar sem hafa með höndum sölu eigna og fjármálagerninga.

     3.      Keypti ESÍ eða dótturfélög þess kröfur á Icebank (Sparisjóðabanka Íslands) eftir að hann var tekinn til slitameðferðar? Ef svo er, hvert var markaðsverð eða uppreiknað kostnaðarverð krafnanna, hvert var kaupverðið og hver fékk það greitt? Hver var heildarkostnaður umsýslu og innheimtu vegna krafnanna? Hver var hagnaður eða tap ESÍ af þessum viðskiptum?
    Í því skyni að tryggja fjárhagslega hagsmuni ESÍ sem kröfuhafa í Sparisjóðabankanum (SPB) gerði ESÍ, með milligöngu fjárfestingarbankans Morgan Stanley, erlendum kröfuhöfum tilboð á fyrri hluta árs 2015 sem fólst í því að skipt yrði á kröfum þeirra á hendur SPB gegn kröfum ESÍ á hendur Kaupþingi. Ef um innlenda kröfuhafa var að ræða var þeim boðin staðgreiðsla fyrir kröfurnar í krónum.
    Seðlabanki Íslands telur sér ekki heimilt að láta fjárhagslegar upplýsingar sem óskað er eftir af hendi með vísan til þagnarskyldu bankans.

     4.      Keypti ESÍ kröfur á Icebank með aðstoð erlendra banka? Ef svo er, var upplýst opinberlega um þá aðstoð? Voru erlendu bankarnir skráðir eigendur einhverra þessara bréfa að kaupum loknum en ekki ESÍ? Voru einhver þessara bréfa skráð hjá erlendum aflandsfélögum á eignarhaldstíma ESÍ?
    Líkt og fram kemur undir lið 3 hafði fjárfestingarbankinn Morgan Stanley milligöngu um viðskiptin. Vegna trúnaðarákvæða í samningum er ekki hægt að fara nánar út í einstök atriði samkomulagsins en gætt var að fjárhagslegum hagsmunum ESÍ í þeim aðgerðum sem farið var í. Þó má benda á að samkvæmt ársreikningi ESÍ vegna 2015 eru tekjufærðir um 7,3 milljarðar kr. vegna verðbreytinga almennra krafna félagsins og heildarhagnaður félagsins það ár var um 12,2 milljarðar kr. fyrir skatta. Um kostnað við umsýslu ESÍ vísast að öðru leyti til ársreikninga ESÍ.

     5.      Hafði dómsmál slitastjórnar Icebank gegn Seðlabanka Íslands áhrif á ákvarðanir um kaup bankans eða ESÍ á kröfum á markaði?
    Kaup ESÍ á kröfum sneru að því að tryggja fjárhagslega hagsmuni ESÍ sem kröfuhafa í bú SPB með því að reyna að flýta fyrir skiptum búsins. Þá var jafnframt mikilvægt fyrir ESÍ að lágmarka áhættuna af þeim málarekstri sem ESÍ og SPB áttu í á þeim tíma.

     6.      Keypti ESÍ eða dótturfélög þess kröfur á aðra aðila en Icebank eða hlutafé og aðrar eignir sem ekki lentu í eigu Seðlabanka Íslands vegna bankahrunsins? Ef svo er, hvert var markaðsverð eða uppreiknað kostnaðarverð þessa, hvert var kaupverðið og hver fékk það greitt? Hver var heildarkostnaður umsýslu og innheimtu vegna kaupanna? Hver var hagnaður eða tap ESÍ af þessum viðskiptum?
    Starfsemi ESÍ og dótturfélaga þess fólst í því að fullnusta eignir. Í slíkri starfsemi getur falist að gera ýmiss konar ráðstafanir til að verja þá fjárhagslegu hagsmuni sem um er að ræða, þ.e. hámarka virði trygginga og lágmarka afföll. Seðlabanki Íslands telur sér ekki heimilt að láta upplýsingar um verð og seljendur af hendi með vísan til þagnarskyldu bankans.

     7.      Hvaða heimild hafði ESÍ til að kaupa aðrar kröfur en þær sem lentu í eigu Seðlabanka Íslands eftir hrun bankanna?
    ESÍ og dótturfélög þess voru félög um fullnustu eigna. Í því felst að félögin þurftu að ganga að tryggingum, umbreyta þeim og ráðast í ýmsar aðgerðir til varnar hagsmunum sínum. Þetta fól óhjákvæmilega í sér umsýslu og úrvinnslu eigna sem miðaði að því að hámarka virði trygginga og lágmarka tap Seðlabanka Íslands af hruninu. Þá leiðir það beinlínis af heimildum Seðlabanka Íslands til viðskipta, gegn framlögðum tryggingum, sbr. 1. og 2. mgr. 7. gr. laga nr. 36/2001, að bankanum er heimilt að stýra og að endingu koma í verð fullnustueignum/tryggingum sem kunna að falla til bankans. Seðlabanki Íslands þarf ekki sérstakar heimildir til þess að takmarka tjón sitt í tilvikum þar sem hann þarf að koma í verð eignum sem lagðar hafa verið fram til tryggingar í viðskiptum bankans. Skiptir í því sambandi ekki máli hvers eðlis eignin er, enda er grundvallaratriðið hið sama í öllum tilvikum; að löggjafinn hefur gert ráð fyrir slíku fyrst hann veitir bankanum lögbundnar heimildir til útlána gegn tryggingum. Upplýsingar um verð og seljendur einstakra eigna getur Seðlabanki Íslands ekki látið af hendi með vísan til sjónarmiða um þagnarskyldu. Að öðru leyti er vísað til ársreikninga ESÍ.

     8.      Hver hefur verið árlegur ráðgjafarkostnaður ESÍ og dótturfélaga þess frá stofnun félagsins og hverjir hafa fengið hann greiddan?
    Vegna úrvinnslu og stýringar þeirra eigna sem stafa frá bankahruninu hafa bæði ESÍ og dótturfélög þess aflað sér þjónustu utanaðkomandi sérfræðinga, svo sem lögfræðinga, endurskoðenda og annarra ráðgjafa, þ.m.t. fjármálafyrirtækja. Á meðfylgjandi mynd má sjá árlegan kostnað samstæðu ESÍ við aðkeypta sérfræðiþjónustu.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


     9.      Hafa orðið hagsmunaárekstrar í rekstri ESÍ? Ef svo er, með hvaða hætti hafa slík mál verið leyst?
    Nei. Í samræmi við starfsreglur stjórnar ESÍ hafa stjórnarmenn vikið sæti við afgreiðslu mála ef hætta var á hagsmunaárekstrum.

     10.      Við hvaða lagastoð hafa ESÍ og Hilda ehf. stuðst er þau hafa synjað beiðnum um upplýsingar um viðskipti félaganna með umsýslueignir?
    Í 3. mgr. 2. gr. upplýsingalaga er kveðið á um að ef starfsemi lögaðila sem fellur undir 2. mgr. 2. gr. laganna sé að nær öllu leyti í samkeppni á markaði geti forsætisráðherra, að fenginni tillögu hlutaðeigandi ráðherra eða sveitarstjórnar og umsögn Samkeppniseftirlitsins, ákveðið að hann skuli ekki falla undir gildissvið laganna. Auk þess þarf að horfa til ákvæða í lögum nr. 36/2001, um Seðlabanka Íslands. ESÍ, Hilda ehf. og önnur félög í eigu Seðlabanka Íslands eru hluti af bankanum og málefni þeirra eru því málefni bankans. Seðlabanki Íslands hefur almennt litið svo á að starfsemi félaga í hans eigu og réttarstaða þeirra aðila sem eiga í lögskiptum við slík félög falli innan þess lagaramma sem gildir um starfsemi bankans, þar með talið en þó ekki eingöngu lög nr. 36/2001.
    Rík þagnarskylda hvílir á starfsmönnum Seðlabanka Íslands, um allt það sem varðar hagi viðskiptamanna bankans og málefni bankans sjálfs, svo og um önnur atriði sem þeir fá vitneskju um í starfi sínu og leynt skulu fara samkvæmt lögum eða eðli máls, nema dómari úrskurði að upplýsingar sé skylt að veita fyrir dómi eða til lögreglu eða skylt sé að veita upplýsingar lögum samkvæmt, sbr. nánar 1. mgr. 35. gr. laga nr. 36/2001.

     11.      Hefur ESÍ nýtt sér aflandsfélög eða átt í viðskiptum við slík félög? Ef svo er, í hvaða tilgangi og um hvaða félög er að ræða?
    ESÍ hefur ekki nýtt sér aflandsfélög í sínum rekstri. Í einhverjum tilfellum hefur ESÍ átt viðskipti/samskipti við slík félög vegna úrvinnslu á kröfum og fullnustueignum í eigu félagsins.