Ferill 391. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 2101  —  391. mál.




Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Birni Leví Gunnarssyni um kirkjujarðasamkomulagið 1997/1998 og eignaskrá ríkisins.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hvaða eignir af þeim sem finnast í skrá kirkjueignanefndar frá 1992, „Kirkjueignir á Íslandi 1597–1984, II. Skrár“, hafa verið skráðar í eignaskrá ríkisins eftir kirkjujarðasamkomulagið sem var undirritað 1997?
     2.      Hverjar af þeim eignum sem fram koma í skrá kirkjueignanefndar eru ekki enn í eignaskrá ríkisins?
     3.      Hvaða aðrar eignir er ágreiningur um að séu hluti af kirkjujarðasamkomulaginu?
     4.      Voru einhverjar af eignunum í skrá kirkjueignanefndar þegar skráðar í eignaskrá ríkisins áður en kirkjujarðasamkomulagið var undirritað? Ef svo, hvaða eignir voru það?
     5.      Hvaða eignir sem fram komu í skrá kirkjueignanefndar hefur ríkið selt og hvert er núvirt andvirði þeirrar sölu?
     6.      Hvaða eignir, sem ágreiningur var um að væri hluti af kirkjujarðasamkomulaginu, hefur ríkið eða kirkjan selt og hvert er núvirt andvirði þeirrar sölu?
     7.      Hvert er fasteignamat allra fasteigna samkvæmt fyrrgreindum töluliðum? Svar óskast með lista yfir allar fasteignir ásamt fastanúmeri þeirra og fasteignamati samkvæmt fasteignaskrá.


    Íslenska ríkið tók á árinu 1907 við umsýslu á öllum jörðum kirkjunnar og fór með þær eignir að mestu leyti eins og hefðbundnar ríkisjarðir stærstan hluta tuttugustu aldar. Þegar viðræður fóru fram milli ríkis og þjóðkirkjunnar um fjárhagslegan aðskilnað ríkis og kirkju komu fram kröfur frá kirkjunni um að jafnframt færi fram uppgjör eða afhending á þeim jörðum sem enn væru á hendi ríkisins eða hefðu verið seldar eða látnar af hendi með öðrum hætti frá 1907. Hér var um að ræða mikinn fjölda jarða, lóða og eigna um allt land. Hér má vísa nánar til svars fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn sem lögð var fram á 143. löggjafarþingi frá Birgittu Jónsdóttur um kirkjujarðir o.fl.
    Með kirkjujarðasamkomulaginu frá 1997 um kirkjujarðir og launagreiðslur til presta og starfsmanna þjóðkirkjunnar komst ríkið og þjóðkirkjan að samkomulagi um þessar eignir. Í því segir að ríkið og þjóðkirkjan geri með sér samkomulag um að kirkjujarðir og aðrar kirkjueignir, að frátöldum prestssetrum, séu eign ríkisins. Ríkið skuldbindur sig á móti til þess að greiða laun presta þjóðkirkjunnar og starfsmanna biskupsembættisins. Í samkomulaginu segir einnig að það sé skuldbinding um fullnaðaruppgjör vegna verðmætanna sem ríkið tók við árið 1907. Í 3. gr. eru útlistaðir þeir liðir sem ríkið skuldbindur sig til að greiða til presta og starfsmanna biskupsembættisins. Í skýringum við samkomulagið segir að kirkjujarðir séu skilgreindar sem jarðeignir sem kirkjur hafa átt og hafa ekki verið seldar frá þeim með lögmætum hætti, og hafa verið í umsjón ríkisins frá árinu 1907, sbr. lög nr. 46/1907, um laun sóknarpresta, og lög nr. 50/1907, um sölu kirkjujarða. Einnig er stuðst við álitsgerð kirkjueignanefndar frá árinu 1984.
    Prestssetur voru undanskilin samkomulaginu en árið 2006 var gert samkomulag milli ríkisins og þjóðkirkjunnar um prestssetrin sem varð viðauki við kirkjujarðasamkomulagið. Með því var eignarréttur kirkjunnar á öllum prestssetrum staðfestur og framlag ríkisins til þjóðkirkjunnar jókst. Samkomulagið var fullnaðaruppgjör vegna allra prestssetra og hvorugur aðili á lengur kröfu á hendur hinum vegna þeirra. Með þessu samkomulagi voru lög nr. 137/1993, um prestssetur, felld niður og ákvæði um þau sett inn í 62. gr. laga nr. 78/1997, um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar.
    Fjárframlögum sem ríkið skuldbatt sig til að greiða þjóðkirkjunni voru hvorki gerð skýr skil í kirkjujarðasamkomulaginu né í lögum nr. 78/1997. Var því nauðsynlegt að gera ítarlegri samning um rekstrarkostnað vegna prestsembætta og prófasta, rekstrarkostnað biskupsstofu, framlag til kristinsjóðs og sérframlög til þjóðkirkjunnar. Skrifað var undir samning 4. september 1998 sem tók gildi 1. janúar 1999.
    Nákvæmir útreikningar fólust hvorki í lögum nr. 78/1997 né í kirkjujarðasamkomulaginu. Hugsunin var því ekki hve mikils virði kirkjujarðirnar væru eða hve mikið þær gæfu af sér. Í raun eru engir útreikningar til um virði kirkjujarðanna. Kirkjujarðasamkomulag snerist því um að staðfesta annars vegar að kirkjujarðir væru eign ríkisins og að ef þær yrðu seldar rynni andvirðið í ríkissjóð en hins vegar að ríkissjóður greiddi tiltekinn launakostnað vegna starfsmanna kirkjunnar og hvernig sá kostnaður mundi þróast eftir því sem fjöldi þeirra sem er skráður í þjóðkirkjuna breytist. Með samkomulaginu var ákveðið að ríkissjóður skyldi formlega teljast eigandi hinna svo kölluðu kirkjujarða eftir réttarfarslega óvissu undanfarinna áratuga en samkomulagið snerist ekki um að hann væri að kaupa tilteknar jarðir. Þarna var einnig endanlega rofið sambandið á milli tekna af kirkjujörðum og launa presta. Vegna þessa er hæpið að tengja saman greiðslur þær sem fara úr ríkissjóði til þjóðkirkjunnar og andvirði tiltekinna jarða eða annarra réttinda eins og um greiðslu á söluandvirði væri að ræða.
    Með hliðsjón af því sem að framan greinir er ekki hægt að svara einstökum efnisliðum í fyrirspurninni í stuttu máli og einnig að mjög tímafrekt verður að vinna svar við því hvaða eignir voru settar í eignaskrá ríkisins eftir að samkomulagið var gert, hvort einhverjar eignir hafi verið þar fyrir eða hvort um einhver ágreiningsefni sé að ræða varðandi það nákvæmlega hvaða eignir um sé að ræða. Í þessu sambandi má einnig vísa til fyrirspurnar sem lögð var fram á 143. löggjafarþingi frá Birgittu Jónsdóttur um kirkjujarðir o.fl. Í því svari kom eftirfarandi fram:
    „Af framangreindu er ljóst að það er vandkvæðum bundið að veita tæmandi yfirlit yfir ríkiseignir sem áður voru eign kirkjunnar. Hins vegar liggja fyrir upplýsingar um allar þær jarðir, lóðir og fasteignir sem ríkið hefur selt á þessu tímabili en þar er ekki tilgreint hvort einstakar eignir hafi áður talist kirkjueignir. Hægt væri að ráðast í greiningu á því, en hætt er við að það yrði aldrei tæmandi listi sem gæfi heildstæða mynd af fjölda og verðmæti seldra kirkjueigna.
    Í samkomulaginu frá 1997 var ákveðið að gegn greiðslu á launum tiltekins fjölda presta þjóðkirkjunnar hefðu ríkið og þjóðkirkjan náð fullnaðaruppgjöri allra kirkjujarða og kirkjueigna annarra en prestssetrajarða. Með umræddu samkomulagi var jafnframt staðfest að eignarhald og ráðstöfunarréttur ríkisins á umræddum jörðum væri þar með ótvíræður.
    Í næsta áfanga þessara viðræðna var síðan horft sérstaklega til prestssetra og prestssetrajarða. Samningum þar um lauk síðari hluta árs 2006 með undirritun á samkomulagi um prestssetur og afhendingu þeirra til þjóðkirkjunnar. Í samkomulaginu fólst að þjóðkirkjunni voru afhent formlega þau prestssetur og prestssetrajarðir sem höfðu verið nýtt til búsetu og ábúðar presta og voru þá þegar á forræði Prestssetrasjóðs við undirritun samkomulagsins. Auk fjármálaráðuneytisins komu fulltrúar Biskupsstofu og dóms- og kirkjumálaráðuneytisins að vinnu við þessi samkomulög frá 1997 og 2006.“
    Hvað varðar fasteignamat allra fasteigna skv. 1.–6. tölul. fyrirspurnar þessarar, sbr. 7. tölul. fyrirspurnar, má vísa til fyrirspurnarinnar frá Birgittu Jónsdóttur um kirkjujarðir o.fl. og fyrirspurnar á 149. löggjafarþingi frá Birni Leví Gunnarssyni. Í þeim svörum kom eftirfarandi fram:
    „Við gerð samkomulags frá 10. janúar 1997, milli íslenska ríkisins og þjóðkirkjunnar um kirkjujarðir og launagreiðslur presta og starfsmanna þjóðkirkjunnar, var horft til hins ítarlega álits kirkjueignanefndar og þeirrar umfjöllunar á eignum sem þar kemur fram. Ekki var farið í sjálfstæða rannsókn eða verðmat á öllum þeim eignum sem til álita komu enda hefði þurft að rannsaka sögu hverrar landspildu eða jarðar fyrir sig, í sumum tilvikum jafnvel margar aldir aftur í tímann. Þegar forsagan lægi fyrir hefði síðan þurft að taka ákvörðun um lögfræðilega stöðu viðkomandi eignar og komast svo að sameiginlegri niðurstöðu fulltrúa ríkis og þjóðkirkjunnar hvorum megin einstakar eignir áttu að lenda og hvert væri áætlað verðmæti þeirra. Forræði þessara eigna var á hendi fleiri ráðuneyta svo sem landbúnaðar-, menntamála- og dóms- og kirkjumálaráðuneyta. Ómögulegt er því að segja til um verðmæti allra þeirra landspildna, fasteigna og jarða sem tilheyra ríkissjóði samkvæmt samkomulaginu. Þetta á bæði við um verðmæti þessara eigna á þeim tíma og virði þeirra nú.
    Enginn ákveðinn listi liggur fyrir yfir þær jarðir og kirkjueignir sem urðu eftir hjá íslenska ríkinu og ríkið fékk við samning sinn við þjóðkirkjuna sem undirritaður var 10. janúar 1997, þótt vísa megi í umfjöllun í áliti kirkjueignanefndar um kirkjujarðir. Þar sem ekki er hægt að skoða tilteknar eignir eða jarðir sem ákveðið eignasafn er óhjákvæmilega ekki hægt að svara efni […] fyrirspurnar þessarar.“
    Með vísan til þess sem að framan greinir er óhjákvæmilega ekki hægt að svara efni 1.–7. tölul. fyrirspurnar þessarar. Lögum samkvæmt er haldin eignaskrá yfir allar eignir ríkisins, þ.m.t. jarðeignir, og er m.a. að finna greinargott yfirlit um þær eignir hjá Ríkiseignum og birtir stofnunin yfirlit yfir þær á vef sínum ( www.rikiseignir.is). Fyrirspurn þessi gefur tilefni til þess að leitað sé eftir því við Ríkseignir að stofnunin ráðist í greiningu á því hvernig eignarhald ríkisins á einstöku jörðum er til komið, en viðbúið er að um það ríki í mörgum tilvikum óvissa sem vart verður eytt þar sem upplýsingar um það og óyggjandi heimildir eru ekki til staðar. Svo sem fram kemur að framan er til yfirlit yfir allar eignir sem seldar hafa verið frá því kirkjujarðasamkomulagið var undirritað.