Ferill 814. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 2103  —  814. mál.




Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Oddnýju G. Harðardóttur um rekstrarafkomu íslenskra fyrirtækja.


     1.      Hversu mörg fyrirtæki voru skráð í fyrirtækjaskrá hvert ár 2009–2018?
    Eftirfarandi tafla sýnir fjölda fyrirtækja í fyrirtækjaskrá árin 2009–2018. Vakin er athygli á að ekki er sami fjöldi skráður í fyrirtækjaskrá, í skattgrunnskrá lögaðila eða sem hefur skilað skattframtali rekstraraðila RSK 1.04. Í fyrirtækjaskrá geta t.d. verið einstaklingar með rekstur þó að fyrirtækið sé ekki lögaðili og því lagt á það með eigandanum. Þess konar fyrirtæki eru ekki á skattgrunnskrá lögaðila. Á skattgrunnskrá lögaðila geta verið lögaðilar sem hafa ekki skilað skattframtali rekstraraðila.

Fjöldi í fyrirtækjaskrá
2009 104.186
2010 89.924
2011 90.389
2012 91.040
2013 92.270
2014 93.125
2015 94.767
2016 96.140
2017 97.426
2018 98.315
Heimild: Ríkisskattstjóri

     2.      Hver var hagnaður fyrirtækjanna fyrir skatta og fjármagnsliði sem hlutfall af eigin fé þeirra hvert þessara ára?
     3.      Hver var hagnaður fyrirtækjanna eftir skatt og fjármagnsliði sem hlutfall af eigin fé þeirra hvert þessara ára?
     4.      Hversu mikið greiddu fyrirtækin í tekjuskatt fyrirtækja hvert þessara ára?
     5.      Hverjar voru heildaratvinnutekjur fyrirtækjanna hvert þessara ára?
     6.      Hver var uppsafnaður greiddur tekjuskattur fyrirtækjanna hvert þessara ára? Óskað er eftir samantekt á formi uppsafnaðrar dreifingar (e. cumulative distribution).
     7.      Hverjar voru uppsafnaðar heildaratvinnutekjur fyrirtækjanna hvert þessara ára? Óskað er eftir samantekt á formi uppsafnaðrar dreifingar (e. cumulative distribution).
    Samkvæmt 2. málsl. 1. mgr. 57. gr. þingskapalaga skal fyrirspurn þingmanns til ráðherra vera skýr, um afmörkuð atriði og mál sem ráðherra ber ábyrgð á og sé við það miðað að hægt sé að svara henni í stuttu máli. Í 3. mgr. 49. gr. laganna er gert ráð fyrir að fyrirspurnir taki til málefna sem tengjast hlutverki og starfsemi ríkisins og stofnana þess. Þær upplýsingar sem óskað er eftir í liðum 2–7 eru ekki fyrirliggjandi á því formi sem kallað er eftir. Ekki er unnið með umbeðnar upplýsingar á því formi, í þeirri starfsemi sem ráðuneytið eða stofnanir þess hafa með höndum, enda þótt unnt væri að útbúa upplýsingarnar á grundvelli gagna sem embætti ríkisskattstjóra hefur í sínum vörslum. Í ljósi þeirrar umfangsmiklu og tímafreku vinnu sem slíkt mundi útheimta og þeirra forsendna sem að framan er getið, er ráðuneytinu ekki unnt að veita svör við umræddum hluta fyrirspurnarinnar.