Ferill 572. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 2104  —  572. mál.




Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Albertínu Friðbjörgu Elíasdóttur um fjárframlög ríkisins og markaðar tekjur til vegamála.


     1.      Hverjar voru árlegar heildartekjur ríkissjóðs árin 2010–2018 af:
              a.      bensíngjaldi, sérstöku bensíngjaldi, kolefnisgjaldi af bensíni og virðisaukaskatti á þessa gjaldstofna;
              b.      olíugjaldi, kolefnisgjaldi á olíu og virðisaukaskatti á þessa gjaldstofna;
              c.      bifreiðagjöldum;
              d.      innflutningstollum á bifreiðar?

    Upplýsingar um bensín-, olíu- og kolefnisgjöld á eldsneyti, bifreiðagjald og innflutningstolla (réttnefni vörugjald) á bifreiðar eru fengnar úr ríkisreikningi fyrir árin 2010–2018. Tölulegar upplýsingar um virðisaukaskatt af bensín-, olíu- og kolefnisgjöldum af eldsneyti eru ekki fáanlegar úr upplýsingakerfum ríkisins. Til þess að áætla tekjur af virðisaukaskatti sem leggst ofan á þessi gjöld er reiknaður 24% (eða 25,5%) virðisaukaskattur af þeim tekjum sem þeir stofnar skila í ríkissjóð, eins og fram kemur í töflu 1. Um er að ræða „brúttó“ virðisaukaskatt, þ.e. án frádráttar innskatts sem myndast í virðisaukaskattskyldum atvinnurekstri, en upplýsingar um hann liggja ekki fyrir. Í eftirfarandi töflu má sjá tekjur ríkissjóðs af ofangreindum liðum. Tekjurnar eru á verðlagi hvers árs og í milljónum króna.

Tafla 1. Tekjur ríkissjóðs af bensín-, olíu- og kolefnisgjöldum á eldsneyti, áætluðum VSK, bifreiðagjaldi og vörugjöldum af ökutækjum 2010–2018.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




     2.      Hversu hátt hlutfall markaðra tekna til vegagerðar hefur skilað sér til nýframkvæmda og viðhalds vega á sama tímabili og hversu há fjárhæð fór í viðkomandi verkefni, sundurliðað eftir árum?
    Markaðar tekjur sem runnu árin 2010–2016 til vegamála, hér skilgreint sem Vegagerðin, skiluðu sér að fullu til rekstrar, nýframkvæmda og viðhalds samkvæmt reikningum Vegagerðarinnar. Ekki er unnt að sundurgreina með einföldum hætti hvernig nýting markaðra tekna skiptist á milli kostnaðarliða hjá Vegagerðinni.
    Með lögum um opinber fjármál nr. 123/2015 eru allar tekjur A-hluta ríkissjóðs færðar hjá ríkissjóði og tekjustofnar sem áður voru markaðir tilteknum stofnunum eða verkefnum eru fremur tengdir viðkomandi málaflokki. Fjárlagafrumvarpið 2017 var það fyrsta sem var lagt fyrir Alþingi á grundvelli laga um opinber fjármál. Samkvæmt 51. gr. laganna skal færa allar tekjur ríkissjóðs í yfirlit um tekjur ríkissjóðs í heild, en í reikninga einstakra ríkisaðila í A-hluta skal einungis færa rekstrartekjur þeirra. Í athugasemdum um greinina segir að tekjur, sem hingað til hafa verið markaðar tilteknum stofnunum, færist nú eingöngu hjá ríkissjóði. Einnig kemur þar fram að gert sé ráð fyrir að tekjustofn sé tengdur málaflokki í heild sinni, en ekki einstökum aðilum sem annast framkvæmd innan hans. Því beri að láta slíkar tekjur renna í ríkissjóð, en það sé hlutverk Alþingis að ákveða hversu miklu skuli ráðstafað til viðkomandi málaflokks hverju sinni. Eftir sem áður eru tekjur ríkisins af viðkomandi tekjustofnum birtar í fjárlagaáætlunum og í bókhaldi ríkisins. Fjárlagafrumvörp fyrir árin 2017 og 2018 eru sett fram á þessum forsendum og þar er því ekki sýndur sá hluti fjármögnunar framlaga til vegamála sem kemur frá mörkuðum tekjum eins og áður var gert.

     3.      Hver var heildarfjárhæð markaðra tekna sem fór til vegamála á sama tímabili, sundurliðað eftir árum?
    Upplýsingar um markaðar tekjur til vegamála, hér skilgreint sem Vegagerðin, eru fengnar úr ríkisreikningi fyrir árin 2010– 16. Líkt og fram kom í svari við 2. tölulið voru fjárlög 2017 og 2018 byggð á lögum um opinber fjármál og allar tekjur ríkissjóðs færðar hjá ríkissjóði en ekki hjá einstökum stofnunum. Í eftirfarandi töflu má sjá sundurliðun markaðra tekna til Vegagerðarinnar á verðlagi hvers árs og í milljónum króna.

Tafla 2. Markaðar tekjur til Vegagerðar 2010–2016.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


     4.      Hvert var fjárframlag ríkisins til nýframkvæmda annars vegar og viðhalds vega hins vegar á sama tímabili, sundurliðað eftir árum?
    Fjárveiting til vegamála, hér skilgreint sem Vegagerðin, er á ábyrgð samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis. Því var leitað til þess um svar við þessari spurningu sem byggist á upplýsingum frá Vegagerðinni og má sjá í töflu 3. Vert er að nefna að auk nýframkvæmda og viðhalds er Vegagerðinni veitt fjárveiting fyrir almennan rekstur. Tölurnar eru á verðlagi hvers árs og í milljónum króna.

Tafla 3. Fjárveiting ríkissjóðs til nýbygginga og viðhalds vega 2010–2018.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.